Friday, March 29, 2024
HomeErlent10 áhugaverðustu MMA bardagarnir í apríl 2016

10 áhugaverðustu MMA bardagarnir í apríl 2016

Mars mánuður var frekar rólegur fyrir MMA þrátt fyrir sturlað UFC 196. Apríl gefur aðeins í en UFC býður upp á þrjú misjafnlega spennandi kvöld á meðan Bellator heldur tvö bardagakvöld.

dariush chiesa

10. UFC on Fox 19, 16. apríl – Beneil Dariush gegn Michael Chiesa (léttvigt)

Beneil Dariush er best varðveitta leyndarmálið í léttvigt. Hann hefur nú sigrað fimm andstæðinga í röð, þar með talið Jim Miller og Michael Johnson (sem var þó umdeildur sigur). Hér keppir hann við sigurvegarann úr 15. seríu The Ultimate Fighter. Michael Chiesa hefur litið frábærlega út undanfarið en þarf stóran sigur til að stimpla sig inn í topp tíu í þyngdarflokknum. Sigur gegn Dariush myndi gera það með stæl.

Spá: Þetta verður jafnt en Dariush verður aðeins betri og krækir í sigur á stigum.

Henderson machida

9. UFC on Fox 19, 16. apríl – Lyoto Machida gegn Dan Henderson (millivigt)

Þessir gömlu refir börðust fyrst á UFC 157 (árið 2013) þar sem Lyoto Machida sigraði eftir klofinn úrskurð dómaranna. Nú á að útkljá málið en báðir hefðu virkilega gott af sigri eftir þrjú töp í síðustu fjórum bardögum.

Spá: Tíminn er farinn að bíta Henderson í rassinn. Machida sigrar á rothöggi í fyrstu lotu.

bellator153

8. Bellator 153, 22. apríl – Andrey Koreshkov gegn Ben Henderson (veltivigt)

Ben Henderson hefur innrás sína í Bellator með látum. Fyrsta fórnarlambið er ríkjandi meistari í veltivigt, Andrey Koreshkov. Henderson þarf ekki að kynna en Koreshkov er 25 ára Rússi með ferilskrána 18-1. Eina tapið var gegn Ben Askren en í hans síðasta bardaga sigraði Korsehkov hinn virta Douglas Lima á stigum.

Spá: Það er erfitt að spá gegn Henderson. Benson sigrar með „rear-naked choke“ í þriðju lotu.

Rashad-Evans-Glover-Teixeira

7. UFC on Fox 19, 16. apríl – Glover Teixeira gegn Rashad Evans (léttþungavigt)

Þegar Glover Teixeira hljóp í skarðið fyrir Shogun Rua gerði hann góðan bardaga að þýðingarmiklum bardaga. Teixeira er fjórði á styrkleikalista UFC og takist Evans að sigra skýst hann upp listann eins og bardaginn gegn Ryan Bader hafi aldrei gerst.

Spá: Teixeira er of stór biti fyrir Evans á þessum tímapunkti. Teixeira sigrar á tæknilegu rothöggi í annarri lotu.

pettis-vs-barboza

6. UFC 197, 23. apríl – Anthony Pettis gegn Edson Barboza (léttvigt)

Þessi gullmoli er eins og gamlárskvöld í apríl. Anthony Pettis og Edson Barboza munu láta spörkin fljúga eins og tívolíbombur þar til eitthvað gefur sig eða báðir haltra heim eftir þrjár erfiðar lotur. Annað hvort það eða Pettis dregur Barboza í gólfið þar sem hann ætti að vera betri.

Spá: Pettis er fjölhæfari bardagamaður, hann sigrar Barboza með „rear-naked choke“ í annarri lotu.

Rose_Namajunas_vs_Tecia_Torres.0.0

5. UFC on Fox 19, 16. apríl – Tecia Torres gegn Rose Namajunas (strávigt kvenna)

Hér er á ferðinni mjög spennandi bardagi í strávigt kvenna. Við vissum alltaf að Rose Namajunas væri góð en þær barsmíðar sem hún veitti Paige VanZant opnuðu augu margra. Hún mætir hér hinni grjóthörðu Tecia Torres sem er ósigruð og hefur litið frábærlega út undanfarið. Torres hefur aðeins sjö bardaga á bakinu en tveir af þeim sigrum voru einmitt gegn Paige VanZant og Rose Namajunas.

Spá: Það er erfitt að spá gegn síðasta sigurvegara þegar um annan bardaga er að ræða. Gerum það samt, Namajunas afgreiðir Torres með „armbar“ í þriðju lotu.

roth jds

4. UFC Fight Night 86, 10. apríl – Ben Rothwell gegn Junior dos Santos (þungavigt)

Síðasta tap Ben Rothwell var í janúar árið 2013 gegn Gabriel Gonzaga. Síðan þá er hann búinn að vera óstöðvandi og er nú farinn að sjá titilbardaga í hillingum. Í vegi honum stendur fyrrverandi meistari, Junior dos Santos, sem hefur virkað eins og skugginn af sjálfum sér undanfarið. Mun Rothwell halda áfram sigurgöngu sinni eða verður það dos Santos sem mun minna á sig með eftirminnilegum hætti? Rothwell hefur meðbyrinn með sér, vindur í seglum og allt það. Hann verður klárlega metinn líklegri til sigurs af veðbönkunum en það má ekki gleyma að dos Santos er aðeins 32 ára gamall og hann sigraði Stipe Miocic í hans næst síðasta bardaga.

Spá: Tökum sénsinn, dos Santos kemur á óvart og sigrar á stigum.

johnson-cejudo

3. UFC 197, 23. apríl – Demetrious Johnson gegn Henry Cejudo (fluguvigt)

Demetrious Johnson er nánast búinn að hreinsa út allan þyngdarflokkinn. Hinn ósigraði Henry Cejudo, sem vann gullverðlaun í glímu á Ólymplíuleikunum í Beijing árið 2008, stendur þó eftir sem síðasta hindrunin. Cejudo er mjög efnilegur en er hann nógu góður til að sigra meistara eins og Mighty Mouse?

Spá: Svarið er nei. Máttuga músin finnur leiðina að sigri, sennilega á stigum.

Nurmagomedov-Ferguson

2. UFC on Fox 19, 16. apríl – Khabib Nurmagomedov gegn Tony Ferguson (léttvigt)

Endurkoma Khabib Abdulmanapovich Nurmagomedov er einn af hápunktum mánaðarins, ef ekki ársins. Hann hefur ekki barist í tvö ár en í hans síðasta bardaga tók hann núverandi meistara í léttvigt, Rafael dos Anjons, í glímukennslu og sigraði sannfærandi. Hér mætir hann hinum hættulega Tony Ferguson sem er búinn að sigra sjö andstæðinga í röð. Þetta verður eitthvað.

Spá: Ferguson er góður en ekkert fær stöðvað Khabib sem sigrar á stigum og skorar næst á meistarann í léttvigt.

jones dc 2

1. UFC 197, 23. apríl – Daniel Cormier gegn Jon Jones (léttþungavigt)

Við skulum vona að þessi bardagi verði að veruleika en vandræðin halda áfram að elta Jon Jones. Þetta er hætt að vera fyndið, maðurinn þarf að fá sér einkabílstjóra. Þessi bardagi hefur allt, tveir af þeim allra bestu í sínum þyngdarflokki mætast. Fyrsti bardaginn var frábær, jafn og spennandi og sá sem tapaði er með beltið núna. Ofan á það eru þeir ekki beint bestu vinir. Það yrði mikil synd ef þessi bardagi klúðrast út af umferðarsekt eða öðru rugli.

Spá: Jon Jones endurheimtir beltið með látum, stöðvar DC í fjórðu lotu.

RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular