Thursday, March 28, 2024
HomeErlent2017: Bardagamaður ársins

2017: Bardagamaður ársins

Þá er komið að því að velja bardagamann ársins. Valið var ekki eins erfitt og í fyrra en þeir fimm bestu voru þó áberandi bestir á þessu ári. Kíkjum á valið.

10. Darren Till

Klárlega nýliði ársins og átti gott ár. Vann þrjá bardaga og endaði árið á að rota Donald Cerrone. Sá sigur hefur gert hann að vonarstjörnu og fær hann líklegast enn stærri bardaga næst. Spennandi nafn og verður gaman að sjá hvað hann gerir á þessu ári.

9. Tyron Woodley

Einn óvinsælasti meistarinn í UFC. Vanalega myndu sigrar á Demian Maia og Stephen Thompson skila meiru en 9. sæti en báðir bardagar hans voru fremur leiðinlegir og Woodley of varkár til að eiga skilið hærra sæti. Það verður samt ekki tekið af honum að veltivigtin er einn erfiðasti þyngdarflokkurinn í UFC og alltaf afrek að verja þar titilinn tvisvar.

8. Cris ‘Cyborg’ Justino

Byrjaði á að vinna fjaðurvigtartitil kvenna í UFC og varði hann svo á síðasta bardagakvöldi ársins. Var líka lyfjaprófuð 13 sinnum á árinu, oft utan keppni án fyrirvara, og stóðst öll lyfjapróf. Samband hennar við UFC hefur batnað og má hún vera sátt með mjög gott ár.

7. Francis Ngannou

Var bara í búrinu í rúmar þrjár mínútur á síðasta ári en tryggði sér titilbardaga. Bardagi hans og Stipe Miocic verður einn mest spennandi þungavigtarbardagi í langan tíma og getur Ngannou verið mjög sáttur við árið. Hann varð líka talsvert stærra nafn á síðasta ári og var duglegur að koma sér á framfæri.

6. Volkan Oezdemir

Fyrir ári síðan vissi enginn hver hann var. Hann náði þremur frábærum sigrum á árinu gegn hátt skrifuðum mótherjum. Eftir að hafa komið inn með skömmum fyrirvara tókst honum óvænt að sigra Ovince St. Preux eftir dómaraákvörðun. Tvö rothögg á undir 60 sekúndum komu honum svo almennilega á kortið og eftir tvær vikur berst hann um léttþungavigtartitilinn. Magnað ár hjá honum!

5. Rafael dos Anjos

Margir voru á því að bestu dagar Rafael dos Anjos væru að baki. Hann fór úr léttvigt og upp í veltivigt og sýndi að hann er ennþá einn af þeim bestu. Sigraði tvo sterka veltivigtarmenn (Tarec Saffiedine og Neil Magny) áður en hann vann svo fyrrum meistarann Robbie Lawler. Hefur hugsanlega tryggt sér titilbardaga gegn Tyron Woodley og er hann sönnun þess að það þarf ekki alltaf að vera í léttari þyngdarflokki.

4. Max Holloway

Sigurganga hans ætlar engan endi að taka. Búinn að vinna 12 bardaga í röð og er stöðugt að bæta sig. Þetta ár tók hann Aldo tvisvar og var virkilega sannfærandi í báðum bardögum sínum.

3. Demetrious Johnson

Enn eitt klassískt ár hjá DJ. Tveir sigrar, báðir eftir armlás og er nú með flestar titilvarnir í sögu UFC. Er hann bætti metið kláraði hann Ray Borg og var það besta uppgjafartak síðasta árs og það kemur honum örlítið ofar en Max Holloway.

2. Rose Namajunas

Besta bardagakona síðasta ár. Byrjaði á að klára Michelle Waterson í apríl glæsilega. Sýndi flotta tilburði standandi þá og sparkaði karate-stelpuna niður. Fáir (undirritaður þar á meðal) höfðu trú á að Namajunas ætti mikinn séns gegn Joanna Jedrzejczyk og hvað þá að hún myndi rota þáverandi meistara. Átti bara geggjaða frammistöðu þegar hún kláraði Jedrzejczyk og verður gaman að fylgjast með henni á þessu ári.

Mynd: Kyle Terada-USA TODAY Sports

1. Robert Whittaker

Magnaður bardagamaður sem sýndi magnaða tilburði. Byrjaði á að rota Jacare Souza í apríl og vann svo bráðabirgðartitilinn eftir sigur á Yoel Romero. Í augum margra var hann þegar alvöru millivigtarmeistarinn eftir að hafa unnið tvo af þeim bestu en var loksins gerður að alvöru meistaranum eftir að GSP gaf beltið frá sér. Michael Bisping reyndi að espa hann upp í einhverja vitleysu þegar hann henti beltinu í gólfið eftir sigur Whittaker á Romero en Whittaker hélt bara áfram að vera heiðursmaður og hélt ró sinni. Þykir ekki stór í millivigtinni, enda keppti hann í veltivigt lengi vel, og er annað gott dæmi um bardagamann sem þarf ekki að vera stór í flokknum til að vera sá besti.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular