Thursday, March 28, 2024
HomeErlent5 mikilvægar spurningar fyrir bardaga kvöldsins

5 mikilvægar spurningar fyrir bardaga kvöldsins

UFC 207 fer fram í kvöld þar sem við fáum loksins að sjá endurkomu Rondu Rousey. Þetta verður fyrsti bardaginn hjá Rondu Rousey frá því hún tapaði fyrir Holly Holm í nóvember í fyrra og fyrsta titilvörn meistarans Amöndu Nunes.

Það má segja að hörð barátta sé framundan á mörgum vígstöðum bardagans. Mörgum spurningum er ósvarað og verður gífurlega forvitnilegt að sjá hvernig bardaginn spilast. Hér förum við yfir nokkrar spurningar sem gaman er að velta fyrir sér fyrir bardagann.

Hvernig er hugurinn hjá Rondu?

Eins og flestum ætti að vera kunnugt um hefur Ronda neitað að tala við fjölmiðla fyrir þennan bardaga. Enginn blaðamannafundur fór fram líkt og venjan er og hefur ekkert heyrst frá Rondu í nokkrar vikur fyrir þennan bardaga. Hún talaði ekki einu sinni við Joe Rogan í vigtuninni í gær.

Ronda hvarf gjörsamlega eftir tapið og hefur að margra mati tekið tapinu gegn Holm einstaklega illa. Hún hefur lítið talað opinberlega um Holm tapið og velta margir því fyrir sér hvernig andlegt ástand hennar sé. Er hún alveg búin að jafna sig á tapinu gegn Holly Holm og mun hún geta staðið af sér mögulega þung högg frá Nunes?

Með hvorri vinnur tíminn?

Báðar hafa klárað flesta bardaga sína í 1. lotu. Nunes hefur klárað 10 af 13 sigrum sínum í 1. lotu og Ronda hefur klárað 11 af 12 sigrum sínum í 1. lotu. Báðar virðast þreytast fljótt þegar líður á bardagann og þá sérstaklega Nunes. Amanda Nunes byrjar alltaf af miklum krafti en fjarar svo út líkt og við sáum í bardögum hennar gegn Valentinu Shevchenko og Cat Zingano. Í bardögunum var hún gjörsamlega búin á því í 3. lotu og átti til að mynda Cat Zingano ekki í miklum erfiðleikum með að komast í yfirburðarstöðu í gólfinu.

Í þau fáu skipti sem Ronda hefur ekki getað klárað bardagann í 1. lotu höfum við séð að það hægist verulega á henni í 2. og 3. lotu. Ronda byrjar alltaf af svo þvílíkum krafti að það er eðlilegt að hún mási og blási aðeins ef henni tekst ekki að klára bardagann strax. Miesha Tate fór í 3. lotu með Rondu er þær mættust í seinna skiptið og var ekki eins mikill kraftur í Rondu þá eins og í 1. lotu. Lappir hennar voru líkt og gúmmí í 2. lotunni gegn Holly Holm og er því erfitt að segja til um hvor muni hafa vinninginn endist bardaginn lengur en fimm mínútur.

Við höfum lítið fengið að sjá Rondu Rousey í 2. og 3. lotu (hvað þá 4. og 5. lotu) en hugsanlega hefur Ronda Rousey lært af tapinu gegn Holm. Kannski mun hún ekki setja alla sína orku í að klára bardagann strax og verður jafnvel örlítið þolinmóðari.

Getur Nunes lifað af á gólfinu með Rondu?

Ronda Rousey hefur klárað níu bardaga með uppgjafartaki og á hún bestu möguleika á að sigra með því að taka bardagann í gólfið. Fáir hafa staðist henni snúninginn í gólfinu og hafa allir níu sigrar hennar eftir uppgjafartök verið eftir „armbar“.

Amanda Nunes er þó svart belti í brasilísku jiu-jitsu og verður kannski ekki eins auðveld bráð í gólfinu. 50% af höggum Nunes í UFC hafa komið í gólfinu þegar hún er ofan. Er hún nógu góð í gólfinu til að lifa af lendi hún þar með Rondu og getur hún komist aftur upp? Það verður gríðarlega mikilvægt fyrir Nunes að standa strax aftur upp lendi hún snemma í gólfinu og þarf hún að halda olnbogunum ansi nálægt sér til að lenda ekki í „armbar“.

Kemst Ronda í clinchið?

Allir vita að Ronda er þekktust fyrir frábær júdó köstin sín en þannig nær hún öllum sínum fellum. Ronda skýtur aldrei í lappirnar (og eru slæm hné sögð vera ástæðan fyrir því) og eigum við eftir að sjá áhugaverða baráttu þeirra á milli í standandi glímu (clinch). Nunes reynir yfirleitt að spara orkuna með því að forðast langar „clinch“ baráttur eins og heitan eldinn. Í stað þess að berjast um undir- og yfirkróka reynir hún að koma sér úr clinchinu sem allra fyrst. Það gæti verið erfitt gegn andstæðingi sem er í algjörum sérklassa í „clinchinu“.

Þá hefur Nunes sýnt marga slæma ávana í „clinchinu“ þegar hún þreytist. En fer bardaginn það langt að þreytan eigi eftir að hafa áhrif? „Clinch“ baráttan á eftir að vera lykillinn að velgengni beggja í bardaganum.

Erfiðasta þrautin fyrir Rondu í kvöld er að minnka fjarlægðina og komast í „clinchið“. Til þess að komast í clinchið þarf hún að komast í vasann og þar getur Nunes kýlt hana. Þar er Nunes hættulegust og getur valdið miklum skaða þar sem Ronda er oft mjög opin fyrir höggum. Ronda pressar mikið en pressan er ekki nægulega vitsmunaleg og er hausinn grafkyrr og opinn fyrir gagnárásum.

Getur Ronda kastað Nunes eða getur Nunes komið sér nógu fljótt úr „clinchinu“?

Mun hornið skipta máli?

Amanda Nunes æfir hjá American Top Team (ATT) og er með alvöru lið með sér. Það sama er ekki hægt að segja um Rondu Rousey en eins og við fórum yfir í vikunni er þjálfari hennar gífurlega umdeildur. ATT hafa margoft barist í stórum bardögum með góðum árangri og er mikil reynsla í þjálfarateyminu þar. Nunes getur átt von á því að fá góð ráð í horninu frá þjálfurunum á milli lota. Í eina skiptið sem Ronda lenti í vandræðum gáfu þjálfararnir hennar engin gagnleg ráð og tókst þeim ekki að breyta um leikáætlun í miðjum bardaga þegar plan A var ekki að ganga upp.

Það gæti skipt sköpum fyrir báðar konur í þessum bardaga. Ef upprunalega leikáætlunin gengur ekki upp er eins gott að þær séu varaáætlun. Þar hefur Nunes sennilega vinninginn en kannski endist bardaginn það stutt að hornið mun ekki skipta máli.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular