Friday, March 29, 2024
HomeErlentAbner Lloveras um TUF, æfingarnar með Santiago Ponzinibbio og dvölina á Íslandi

Abner Lloveras um TUF, æfingarnar með Santiago Ponzinibbio og dvölina á Íslandi

Abner Lloveras er 34 ára bardagamaður sem dvaldi hér á landi í nokkrar vikur á dögunum. Þar var hann einn af æfingafélögum Gunnars Nelson og aðstoðaði hann með undirbúninginn fyrir bardagann gegn Santiago Ponzinibbio.

Spánverjinn Abner ‘Skullman’ Lloveras (20-9) er helst þekktastur fyrir að vera í 22. seríu The Ultimate Fighter þar sem evrópskir bardagamenn börðust gegn bandarískum bardagamönnum. Þeir Conor McGregor og Urijah Faber voru þjálfararnir í seríunni en Lloveras datt út í 8-manna úrslitum eftir umdeilda dómaraákvörðun.

Lloveras hefur verið kallaður „Skullman“ í áratug en vinum hans fannst hann líta út eins og beinagrind á vigtinni eftir niðurskurð og festist nafnið þannig við hann. Hann býr og æfir í Barcelona en ferðast einnig mikið og æfir víðs vegar um heiminn. Nýlega hélt hann til Dublin þar sem hann æfði hjá SBG undir handleiðslu John Kavanagh.

„Ég þekkti Artem [Lobov] og Sergey [Pikulskiy, einn af þjálfurunum í TUF] og alla þjálfarana frá TUF. Okkar kemur vel saman og þeir vita að ég er alvöru bardagamaður. Ég er ekki í þeim bransa að byggja upp bardagaskrorið mitt og hef aldrei tekið auðvelda bardaga til að reyna að byggja upp bardagaskorið“, segir Abner er við hittum hann í Mjölni eftir góða æfingu.

„Artem er svipaður og ég. Hann berst hvar sem er, hvenær sem er og við hvern sem er. Okkur kemur vel saman og mig hefur lengi langað að fara til Dublin og ákvað að skella mér þangað í ár. Það var frábært, frábær reynsla og ég hefði átt að gera þetta miklu fyrr. Það var frábært að æfa með þeim og svo fékk ég þetta tækifæri til að koma hingað til Reykjavíkur og það var líka frábær ákvörðun. “

Abner var hæst ánægður með dvölina hér á Íslandi og hefur notið æfinganna. „Ég segi við alla vini mína að þetta er ein besta reynsla sem ég hef upplifað sem bardagamaður. Ég hef ferðast mikið í gegnum ferilinn. Æft í Bandaríkjunum, Dubai með Team Nogueira, Barcelona og svona en þetta er frábært. Ég er núna partur af SBG og er mjög ánægður með að fá þetta tækifæri frá Kavanagh, Halla [Nelson] og Gunnari. Eitt það besta sem ég hef upplifað sem bardagamaður.“

Abner hefur barist sem atvinnumaður í 13 ár og er með mikla reynslu. MMA bardagamenn frá Spáni eru ekki á hverju strái og segir hann að MMA senan þar hafi verið lítil sem engin en nú sé hún ört vaxandi.

„Þetta er alltaf að stækka á Spáni. Ég vinn á sjónvarpsstöð og stöðin er farin að sýna UFC, WSOF og ONE FC. Mun fleiri sjá þetta núna en þetta er stór með mikið áhorf. MMA á Spáni á enn langt í land með að ná öðrum löndum eins og Englandi en þetta er á hraðri uppleið.“

„Það eru margir efnilegir á uppleið en það eru ekki margir eftir af minni kynslóð, af gamla skólanum. Við erum fáir, sumir hættu og fengu sér aðra vinnu til að afla betri tekna, en ég hef séð marga unga og efnilega bardagamenn sem eru á uppleið.“

Erfitt í TUF

Eins og áður segir var Abner í 22. seríu TUF. Það er einstök reynsla að vera í húsi með 17 öðrum bardagamönnum í sex vikur þar sem er ekkert sjónvarp, ekkert lesefni, enginn sími og einfaldlega ekkert að gera.

„Þetta var óvænt reynsla. Ég var 32 eða 33 ára á þessum tíma og var sá elsti í húsinu. Ég bjóst ekki við því en þetta var mjög góð reynsla en þetta var líka mjög erfitt. Ég barðist þrjá bardaga á einum mánuði. Ég skar niður frá 80 kg í 70 kg þrisvar á einum mánuði og var gjörsamlega búinn á því fyrir síðasta bardagann. Skrokkurinn var ekki í standi til að berjast en ég gaf ekkert eftir.“

„Ég á dóttur og hún var tveggja mánaða þegar ég fór í þáttinn, það var mjög erfitt. Ég hugsaði um hana á hverjum degi og hvernig hún var að þroskast og stækka á hverjum degi án þess að ég gæti séð það. Mjög erfitt en mjög góð reynsla líka.“

Abner Lloveras

Líkt og svo margir byrjaði Abner í bardagaíþróttum til að læra að verja sig. „Á Spáni slást ungir strákar mikið. Ef þú ferð út á lífið ferðu að óttast slagsmálin, allt getur gerst hvenær sem er. Vinir mínir fóru að æfa box og sparkbox og þá fengu þeir frið. Ég byrjaði því að æfa líka, byrjaði að boxa til að vera öruggur með mig ef eitthvað slæmt myndi gerast. Svo sá ég UFC og fílaði það og fór því að keppa og elska bardagalistir.“

Það má sjá á andliti Abner að þetta er reynslumikill bardagamaður. Nefið hans er kengbogið eftir mörg nefbrot og mörg högg. „Ég var bara að opna ísskápinn og hurðinn skall á nefinu,“ segir Abner og grínast með skakkt nefið.

„Ég er með 40 bardaga í ólympískum hnefaleikum og var í landsliðinu í boxi, 2-0 sem atvinnumaður í boxi og með 20 sparkbox bardaga. Auk þess er ég með 43 bardaga í MMA og nefið hefur því fengið nokkur högg.“

„Ég sparraði líka alltof mikið á mínum yngri árum. Gunnar gerir það einmitt ekki, hann tekur flæðið á þetta. Ég var ekki með bestu þjálfarana til að byrja með en æfingarnar snérust oft um að láta þjálfarann berja sig og læra þannig. Þetta er andlit bardagamanns, ég læt laga nefið þegar ferlinum lýkur.“

Barcelona gegn Real Madrid

„Ég var áður í fótbolta mjög lengi, ég gat spilað allar stöður en var ekkert sérstakur,“ segir Abner og hlær en hann er mikill Barcelona aðdáandi enda er það hans heimaborg.

Hans næsti bardagi fer fram í Miami á bardagakvöldi sem kallast Combate Clasico. Tveimur dögum seinna spila Barcelona og Real Madrid í Miami og er bardagakvöldið partur af þessum vináttuleik liðanna tveggja. Á bardagakvöldinu mætast svo bardagamenn sem styðja annað hvort Real Madrid eða Barcelona.

Abner er mjög spenntur fyrir því að mæta Real Madrid aðdáenda en hann mætir landa sínum Javier Fuentes. „Það hefur mikla þýðingu fyrir mig að keppa fyrir hönd Barcelona. Ég hef gert margt á mínum ferli sem ég er stoltur af en þetta verður eitt af því besta sem ég hef gert. Ég hef stutt Barcelona frá því ég var lítill strákur og er harður Barcelona stuðningsmaður. Ef ég næ að vinna Real Madrid stuðningsmann þá verður það tvöföld ánægja fyrir mig,“ segir Abner og hlær.

Æfði með Santiago Ponzinibbio

Abner hefur tekið þátt í undirbúningi Gunnars fyrir bardaga hans í Glasgow gegn Argentínumanninum Santiago Ponzinibbio. Hann er í þeirri einstöku aðstöðu að hafa æft með báðum köppum.

„Ég var að þjálfa í bardagaklúbbi Nogueira bræðranna, Team Nogueira, í Dubai. Santiago var í Team Nogueira í TUF: Brazil og var orðinn partur af liðinu. Þegar Minotauro [Big Nog] Nogueira var að undirbúa sig fyrir bardagann gegn Roy Nelson æfðu þeir þar í Dubai. Þar var Santiago meðal annars og Ricardo Arona og fleiri bardagamenn.“

„Santiago hugsar vel um sig. Það var mikið drama í bardagaklúbbnum á þeim tíma en hann tók engan þátt í því. Hann mætti bara á æfingar, gerði sitt og var alltaf tilbúinn til að hjálpa öðrum ef þess þurfti. Vinalegur, alltaf brosandi og mjög einbeittur á það sem hann er að gera. Honum var alveg sama um eitthvað drama, hann var bara að gera sitt með bros á vör.“

„Hann er mjög einbeittur. Brassarnir voru að baktala aðra og með drama en hann var bara rólegur og naut þess að æfa. Hann hélt sér frá dramanu en núna er hann hjá American Top Team og er að standa sig mjög vel.“

Santiago Ponzinibbio er með svart belti í brasilísku jiu-jitsu rétt eins og Abner og glímdu þeir í Dubai. „Það eru mörg svört belti í Dubai en hann er svona meðalmaður meðal svartbeltinganna þar. Ég sparraði ekki við hann í MMA en glímdi við hann. Hann er mjög sterkur, enginn heimsmeistari á gólfinu en mjög góður. Samt ekkert í líkingu við Gunnar. Að æfa með Gunnari er eins og að láta valtara fara yfir sig, fram og til baka. Ég hélt ég væri góður glímumaður áður en ég glímdi við Gunna.“

Abner segir að bardaginn gegn Santiago verði harður enda er Argentínumaðurinn hörku bardagamaður. „Þetta verður harður bardagi en í gólfinu er munurinn á milli þeirra ekki sambærilegur. En allir vita það. Santiago veit það og mun reyna að halda þessu standandi.“

„Það getur allt gerst, þetta er bardagi. En ég vona að Gunnar standi sig jafn vel standandi og hann gerði gegn Alan Jouban. Ef Gunni getur meitt hann standandi eins og hann gerði gegn Jouban getur hann klárað Santiago.“

Eins og áður segir hefur Abner notið tímans á Íslandi og kann afar vel við sig hér. „Við höfum æft mjög vel. Ég er ekki að reyna að gera neitt heimskulegt gegn Gunna þannig að hann meiðist, ég er ekki að reyna að sanna eitt. Ég er hér til að hjálpa honum og hef ekkert að sanna.“

„Gunni sagði mér að stundum koma menn og æfa með honum og reyna að sanna sig, henda í þung högg og svona. En ég er hér til að hjálpa honum og vona að ég hafi hjálpað eins vel og ég gat. Þetta er búin að vera frábær reynsla að æfa með honum hér.“

„Ég hef fylgst með honum í mörg ár og hann er einn af topp 10 bestu bardagamönnum heims og einn besti glímumaðurinn í UFC. Það er búið að vera frábært að kynnast honum og vonandi kem ég aftur hingað fljótlega.“

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular