Friday, March 29, 2024
HomeErlentAugnmeiðsli tefja endurkomu Georges St. Pierre

Augnmeiðsli tefja endurkomu Georges St. Pierre

Georges St. Pierre hefur nú loksins sagt hvers vegna hann getur ekki barist fyrr en í nóvember. Kanadamaðurinn á við augnmeiðsli að stríða og getur ekki æft af fullum krafti fyrr en í haust.

Í mars á þessu ári tilkynnti UFC bardaga Georges St. Pierre (GSP) og Michael Bisping um millivigtartitilinn. UFC hætti svo við bardagann eftir að GSP greindi frá því að hann yrði ekki tilbúinn fyrr en í nóvember.

„Ef ég mætti ráða væri ég tilbúinn að berjast núna. Ástæðan fyrir töfinni er sú að ég hef átt í vandræðum með augað á mér. Það er skaddað,“ sagði GSP á ráðstefnu í Montreal á dögunum.

„Sjónin mín hefur ekki náð sér. Hún kemur til baka, þetta er bara minniháttar. Læknirinn krafðist þess að ég myndi ekki sparra fyrr en í september.“

Mikil óánægja ríkti meðal bardagaaðdáenda með bardaga GSP og Bisping, sérstaklega í ljósi þess að enginn vissi hvenær eða hvar bardaginn færi fram. UFC reyndi að setja bardagann á dagskrá í sumar en það var aldrei möguleiki fyrir GSP vegna meiðslanna.

„UFC vissi af þessu. Þeir vissu að ég gæti ekki barist um sumarið en þeir kröfðust þess að halda þennan blaðamannafund með Michael Bisping. Við vorum ekki spenntir fyrir því en við vildum fá bardagann. Það endaði á að vera ansi neikvætt þar sem svo langt var í bardagann.“

„En UFC vissi af þessu, allir vissu þetta. Þeir reyndu samt að pressa á mig að taka bardagann í júlí. Þess vegna fannst mér ég þurfa að segja opinberlega hvers vegna ég get ekki barist í sumar.“

Bisping greindi frá því á dögunum að hann ætti við hnémeiðsli að stríða og gæti ekki sjálfur barist fyrr en í haust. UFC tilkynnti svo í vikunni bráðabirgðartitilbardaga í millivigtinni á milli Robert Whittaker og Yoel Romero. Það er því óljóst gegn hverjum Bisping mun verja titilinn næst þegar hann snýr aftur og ólíklegt að það verði GSP eins og staðan er núna.

Á sama tíma hefur Dana White sagt að næsti bardagi GSP verði í veltivigtinni um beltið þar. „Ég hef alltaf sagt að ef ég myndi snúa aftur þyrfti það að vera bardagi sem gerir mig spenntan. Mig langaði að berjast við Michael Bisping þar sem ég vildi berjast við einhvern sem myndi upphefja mig. Ég er að taka mikla áhættu með því að snúa aftur. Ég er að setja arfleifð mína undir.“

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular