Thursday, March 28, 2024
HomeErlentBesti kvennabardagi allra tíma í kvöld?

Besti kvennabardagi allra tíma í kvöld?

UFC 219 fer fram í kvöld þar sem þær Holly Holm og Cyborg mætast í aðalbardaga kvöldsins. Barist er um fjaðurvigtartitil kvenna og má segja að þetta sé einn áhugaverðasti kvennabardagi í sögu UFC.

Fjaðurvigtarmeistarinn Cris ‘Cyborg’ Justino er meistarinn í skrítnasta þyngdarflokki UFC. Fjaðurvigt kvenna (145 pund) er eiginlega ekki til (enda aðeins tveir bardagar farið fram í flokknum hingað til) en UFC bjó til þennan þyngdarflokk svo Cyborg gæti barist í UFC. Raunin er sú að afskaplega fáar konur berjast í fjaðurvigt og er Cyborg langt á undan samkeppni sinni.

Í öllum þremur bardögum sínum í UFC hefur hún verið að mæta konum sem að öllu jöfnu berjast í bantamvigt (135 pund). Annað kvöld mætir hún Holly Holm sem berst einnig vanalega í bantamvigt. Holm er auðvitað fyrrum meistari á meðan aðrir andstæðingar Cyborg í UFC eru ekki einu sinni meðal 10 bestu í bantamvigtinni.

Holly Holm er auðvitað þekktust fyrir að vera sú fyrsta til að vinna Rondu Rousey á sínum tíma. Holm rotaði Rondu og varð þar með bantamvigtarmeistari kvenna. Hún náði þó ekki að halda beltinu og tapaði titlinum til Mieshu Tate í hennar fyrstu titilvörn. Hún tapaði svo tveimur bardögum í viðbót áður en hún komst aftur á sigurbraut í sumar.

Cyborg hefur verið sigurstranglegri í öllum sínum bardögum í UFC til þessa og er engin undantekning á því í þetta sinn. Holly Holm er því í kunnuglegri stöðu frá Rondu bardaganum – gegn ríkjandi meistara sem notið hefur mikilla yfirburða. Holm gæti þó alveg endurtekið leikinn frá Rondu bardaganum og væri það risastórt afrek. Holm væri þar með fyrsta konan til að vinna belti í tveimur mismunandi þyngdarflokkum í UFC og einnig sú eina sem unnið hefur tvær af bestu bardagakonum allra tíma.

Bardaginn er áhugaverður fyrir margar sakir ef litið er á afrek beggja en einnig afskaplega áhugaverður ef litið er á bardagastíl þeirra.

Krafturinn í Cyborg

Cyborg er ein höggþyngsta bardagakonan, ef ekki sú höggþyngsta, í MMA í dag. Hún er með 16 rothögg í 18 sigrum og hefur rotað 12 andstæðinga í röð. Hún er líka alltaf stærri og sterkari en andstæðingurinn og sker mikið niður til að komast í fjaðurvigt.

Gagnársásir Holm

Eitt af bestu vopnum Holly Holm eru gagnárásir hennar. Ronda Rousey fékk ítrekað gagnhögg í sig í bardaga þeirra og gæti þetta verið vopn sem mun hugsanlega nýtast vel gegn Cyborg.

Pressa Cyborg

Cyborg hefur alltaf verið aggressív og sækir að andstæðingnum strax frá fyrstu sekúndu. Hún setur mikla pressu strax og vill helst hafa andstæðinginn nálægt búrinu. Hún er líka mjög sterk í „clinchinu“ þar sem hún raðar inn olnbogum og hnéspörkum. Holly Holm verður að passa sig að láta ekki Cyborg klemma sig upp við búrið.

Hliðarspörk Holm

Holly Holm æfir hjá Greg Jackson og Mike Winkeljohn rétt eins og Jon Jones. Holm hefur alltaf verið með góð hliðarspörk – annað hvort í skrokkinn eða rétt fyrir ofan hnéð. Þetta er eitt af aðalsmerkjum þjálfarans Mike Winkeljohn og hafa bæði Holm og Jones notað þetta vopn með góðum árangri. Holm gæti notað hliðarspörkin til að halda Cyborg vel frá sér.

Fellurnar hjá Cyborg

Þó Cyborg sé afar sterk standandi er hún líka mjög öflug í gólfinu. Cyborg er brúnt belti í brasilísku jiu-jitsu og er klárlega betri glímukona en Holly Holm. Það gæti verið góð taktík hjá Cyborg að nota fellurnar við og við gegn Holly Holm. Holm virkar oft á tíðum óörugg í gólfinu og var svæfð gegn Mieshu Tate á sínum tíma.

Hreyfanleiki Holm

Þegar Holly Holm er komin með bakið of nálægt búrinu býr hún sér til gott pláss og hringsólar frá andstæðingnum. Holm leyfði Rondu ekki að klemma sig nálægt eða upp við búrið og þarf hún að vera vel á tánum gegn Cyborg. Hreyfanleikinn og fótavinnan gekk vel eftir gegn Rondu Rousey en Cyborg er með betri og tæknilegri pressu en Ronda.

Holm ducking Ronda

Lágspörkin hjá Cyborg

Cyborg hefur alltaf verið með góð lágspörk og gæti það verið gott vopn gegn Holm og hennar hreyfanleika. Ef Holm étur mörg lágspörk gæti það haft mikil áhrif á hraða og hreyfanleika hennar enda verður öll fótavinna erfiðari ef lappirnar eru farnar að gefa sig. Það gæti verið sérstaklega gott vopn ef bardaginn dregst á langinn.

Háspörkin hjá Holm

Holly Holm hefur bara klárað tvo bardaga í UFC en báða bardagana hefur hún klárað með háspörkum. Þrjá bardaga utan UFC kláraði hún með háspörkum og er þetta einfaldlega hennar hættulegasta vopn.

holly holm ronda rousey ko

Það eru því margar breytur sem gera þetta að afar áhugaverðum bardaga. Þetta gæti orðið mjög tæknilegur og flottur bardagi og getum við hreinlega ekki beðið eftir kvöldinu!

Fyrsti bardagi kvöldsins hefst kl 0:30 í kvöld (aðfaranótt sunnudags) en aðalhluti bardagakvöldsins hefst kl 3 og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular