Wednesday, April 24, 2024
HomeForsíðaBjarki Pétursson: Verður spennandi verkefni

Bjarki Pétursson: Verður spennandi verkefni

Bjarki Pétursson keppir á FightStar bardagakvöldinu í London annað kvöld. Þetta verður hans annar bardagi í MMA en Bjarki hefur safnað ágætlega í reynslubankann eftir sinn fyrsta bardaga.

Bjarki ‘Big Red’ Pétursson (1-0) tók sinn fyrsta MMA bardaga í febrúar. Þá sigraði hann eftir dómaraákvörðun og gat hann varla hætt að brosa á meðan á bardaganum stóð. Hann skemmti sér konunglega allan tímann og fær nú að berjast aftur.

Að þessu sinni mætir hann Norbert Novenyi og er hann nokkuð áhugaverður andstæðingur. „Andstæðingurinn llinn er ósigraður (3-0) með karate stíl standandi en svo með nokkuð sterkt jiu-jitsu og wrestling. Pabbi hans vann gull á Ólympíuleikunum í wrestling einhvern tímann. Þannig að þetta verður spennandi verkefni,“ segir Bjarki um andstæðinginn.

Eins og svo oft áður átti Bjarki ekki að mæta Novenyi upphaflega heldur Felix Klinkhammer. Klinkhammer datt út eins og gerist svo oft og er Bjarki bara feginn því að fá einhvern andstæðing. „Að fá nýjan andstæðing svona rétt fyrir er í raun bara gott. Mig langar að berjast, þannig að það er bara flott að fá nýjan andstæðing fyrst að hinn meiddist.“

„Ég var alveg búinn að vera æfa mig fyrir hinn andstæðinginn í tvo mánuði en hann var glímugaur líka. Þannig að campið breyttist ekkert. Ég var búinn að skoða þennan og segja já við honum áður. En það varð ekkert úr þeim bardaga þá.“

Bjarki hefur fórnað miklu í undirbúningnum fyrir laugardagskvöldið en til þess að allt gangi upp fær hann góða aðstoð frá styrktaraðilum.

„Fyrir þetta camp þá hef ég nánast ekkert unnið í rúman mánuð og bara verið að einbeita mér að æfingum og fór þar á meðal til Akureyrar í nokkra daga að æfa í campinu sem var æðislegt! En til þess að fjármagna æfingaferðina á Akureyri og keppnisferðina til London þá ákvað ég að selja styrktarderhúfur. Fólk hefur almennt tekið vel í þær og er kominn alveg góður slatti af frábæru stuðningsfólki sem er með ‘BIG RED’ húfuna!“

„Eins og líf mitt er í dag, þá æfi ég eins og atvinnumaður einu sinni til þrisvar á dag, flest alla daga. Það er eitthvað sem ég gæti ekki án þess að hafa frábæra styrktaraðila og æðislega vinnuveitendur sem hafa sýnt því mikinn skilning hvað ég er að gera. Mér hefur gengið vel að fá styrktaraðila og ber ég þeim miklar þakkir.“

Bjarki er Ísfirðingur í húð og hár en býr í höfuðborginni núna. Bjarki fær frábæran stuðning frá sínu heimafólki sem fylgist vel með honum. „Ég er algjör Ísfirðingur ennþá og nota hvert tækifæri sem ég get til að fara heim á Ísafjörð og æfa með jiu-jitsu deild Harðar þar sem ég byrjaði að æfa bardagaíþróttir.“

„Það er líka svo magnað að hitta allt fólkið sitt og finna allan stuðninginn frá fólkinu heima. Heyrði einmitt að það hafi verið troðfullt á Húsinu [sportbar á Ísafirði] þegar ég barðist síðast, það er alveg magnað! Ég held að bardagakvöldið verði einmitt sýnt bæði á Húsinu og Edinborg á Ísafirði.“

Bjarki hefur tekið miklum framförum síðan hann barðist síðast og er mikill munur á honum í dag sem bardagamanni frá því hann tók sinn fyrsta MMA bardaga.

„Munurinn er helst sá að ég er búinn að vera vinna mikið í boxinu mínu og fengið þar hjálp hjá Villa Hernandez í Hnefaleikastöðinni og svo hjá honum Dodda [Þórði Bjarkar] í VBC. Einnig hef ég verið að skerpa upp á glímuna hjá mér hjá honum Valentin í Mjölni. Svo er ég nátturulega með frábæran hóp í kringum mig í RVKMMA! Svo tók ég boxbardaga og glímumót eftir síðasta MMA bardaga og hef verið að þróa stíllinn minn og læra betur inn á hvað hentar mér og hvað ekki út frá þeirri reynslu.“

Bardagi Bjarka og Novenyi fer fram í 83 kg hentivigt og er Bjarki ekki með neina sérstaka spá fyrir bardagann. „Ég er að gera það sem ég hef gaman af og njóta mín. Þannig að mér líður eins og sigurvegara! En til að vita hvernig bardaginn fer, þá verðið þið bara að fylgjast með á laugardaginn,“ segir Bjarki að lokum.

Hægt verður að kaupa streymi af bardaganum og munum við birta hlekk á bardagana þegar nær dregur.

Magnús Ingi: Hef klárað alla mína sigra og það er ekki að fara breytast núna

Leiðin að búrinu: Bjarki Þór Pálsson vs. Quamer Hussain

Þorgrímur Þórarinsson: Karóki miklu erfiðara en að stíga í búrið

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular