Thursday, March 28, 2024
HomeForsíðaBjarki Þór: Þessi gaur var ekkert kominn til að berjast

Bjarki Þór: Þessi gaur var ekkert kominn til að berjast

bjarki þór pálssonBjarki Þór Pálsson barðist sinn fyrsta atvinnubardaga á dögunum. Bardaginn stóð yfir í aðeins 23 sekúndur og var Bjarki fyrst um sinn afar ósáttur með bardagann. Við heyrðum í Bjarka og spjölluðum við hann um sigurinn, óvæntan andstæðing og styrktaraðila eins og Útfarastofu Íslands.

Eftir afar góðan árangur sem áhugamaður var loksins komið að fyrsta atvinnubardaganum. Bjarki var 11-1 sem áhugamaður en eftir að hafa sigrað Evrópumótið í nóvember var þetta rétti tíminn fyrir atvinnumennskuna.

Upphaflega átti Bjarki Þór að mæta Adam Szczepaniak en lítið var vitað um hann fyrir bardagann. Í raun sá Bjarki Þór hann aldrei. Hann sá engin myndbönd af honum, sá hann ekki í vigtuninni fyrir bardagann og sá hann ekki heldur þegar bardaginn átti að fara fram enda lét hann ekki sjá sig. Hvað gerðist?

„Ég var að hita upp fram á gangi að taka spretti. Rekst á gæja og hann kemur upp að mér og segist heita Michael og vera andstæðingurinn minn,“ segir Bjarki.

Bjarki skildi hvorki upp né niður enda átti hann að mæta manni að nafni Adam Szczepaniak. „Ég spurði tvisvar ‘Adam?’ en hann sagði alltaf ‘nei, Michael’ og ég skil ekkert. Þá segir hann mér að hann sé nýji andstæðingurinn minn. Ég fer til Jóns Viðars [forseta Mjölnis og einn af þjálfurum Keppnisliðsins] og spyr hvað sé í gangi. Allt í einu kominn með nýjan andstæðing og vissi ekkert um hann en ég vissi svo sem ekkert um hinn heldur. Ég vissi allavega að þessi gaur hefði aldrei náð 70 kg á vigtinni. Hann var í hettupeysu og virkaði eins og hann væri huge.“

Mótshaldarar voru greinilega ekkert að stressa sig á að láta Bjarka vita að hann væri kominn með nýjan andstæðing. Hálftíma fyrir bardagann fréttir Bjarki af þessu frá nýja andstæðingnum. „Jón Viðar fer að tjekka á þessu og þá hafði gaurinn bara hætt við. Hann hefur ekki fengið far eða eitthvað, bara þetta venjulega. Það var einmitt annar gæji á kvöldinu, Ben Forsyth frá SBG, sem lenti í því að hans andstæðingur mætti ekki. Og hann fékk ekkert að berjast.“

Bjarki fékk þó að berjast þó bardaginn hafi staðið stutt yfir. Michael kvaðst vera með 11 bardaga að baki þó hann hafi eflaust ekki átt heima í sama þyngdarflokki og Bjarki. „Ég get rétt ímyndað mér ef ég hefði ekki fengið að berjast. Allur undirbúningurinn og allur tíminn. Pabbi og bróðir minn voru líka búnir að eyða fullt af peningi til að koma þarna út og horfa á mig.“

Þessi óþekkti Michael var þó allan tímann kynntur sem Adam Szczepaniak. Bjarki var þó ekkert að fagna mikið eftir þennan stutta bardaga og var hann alls ekki sáttur þrátt fyrir sigurinn. „Þetta var allt ógeðslega sérstakt. Þessi gaur var ekkert kominn til að berjast. Þetta var bara einhver tunna en betra en ekki neitt. Eftir allan þennan undirbúning og svo klárast þetta svona fljótt. Ertu ekki að fokking djóka? Þegar ég gekk úr búrinu var ég ógeðslega pirraður og langaði bara að gráta.“

„Svo vorkenndi ég líka bara gæjanum. Fannst hann vera ömurlegur greyið. Ég veit ekki hvernig hann kom sér í þessar aðstæður,“ segir Bjarki og hlær. „En ég var mjög pirraður þá en ekki jafn pirraður í dag.“

Bjarki hefur strax fengið loforð um annan bardaga hjá Shinobi War bardagasamtökunum á þeirra næsta kvöldi í nóvember. „Þeir vilja vinna með nokkrum bardagamönnum og byggja þá upp. Gefa þeim alltaf aðeins erfiðari bardaga og byggja þá þannig upp. Þeir vilja fá mig í það og fá mig á þeirra kvöld. Ég er ánægður með það. Þetta er gott show, öll umgjörðin er flott og það er farið vel með okkur eins og alvöru íþróttamenn. Ég vil vera í samstarfi við þá þó þetta hafi gerst. Það er ekki þeim að kenna að gaurinn hafi hætt við og þeir náðu að redda mér bardaga með skömmum fyrirvara.“

Það er kannski ágætt að bardaginn hafi klárast svona snemma enda lenti Bjarki í smá slysi í upphituninni. Í upphitun með Árna Ísakssyni lenti Bjarki í því óhappi að skella nefi sínu á hné Árna er hann skaut í fellu. Nef hans bólgnaði og fékk hann strax blóðnasir. Bjarki gerði það sem hann gat til að fela þetta í ótta við að bardaginn yrði blásinn af. „Á leiðinni í búrið er ég að sjúga upp í nefið á fullu til að passa að blóðið leki ekki úr nösunum.“

Mynd: Sóllilja Baltasardóttir.
Mynd: Sóllilja Baltasardóttir.

Undirbúningur Bjarka var hans besti hingað til og gekk nánast allt fullkomlega upp. Bjarki barðist síðast í nóvember og vonaðist eftir að fá atvinnubardaga fyrr en það gekk ekki upp. „Ég hætti ekkert að æfa eftir EM. Í júní var ég að sjá að ég var ekkert að fara að keppa og þá hugsaði maður af hverju maður væri að æfa svona mikið þar sem maður var ekki einu sinni að fara að keppa. En það borgaði sig núna. Ég var að vinna með Sveinbirni Iura júdó kappa og mun halda áfram að vinna með honum. Mikið af júdó strákum í MMA og gott fyrir mig að eiga við öðruvísi glímumenn. Vann mikið með Igor [Gladun, glímumaður frá Úkraínu] líka og það hefur hjálpað mér rosalega. Vann líka með Bigga [Birgir Örn Tómasson] með Muay Thai og olnboga. Eiður Sigurðsson [BJJ-maður] kom á æfingar og við fengum bara drullugóða og geðveika stemningu á æfingum. Ótrúlega gaman.“

Bjarki var Íslandsmeistari unglinga í kraftlyftingum og var því afar hraustur þegar hann byrjaði í MMA. Bjarki byrjaði aftur að lyfta og styrkja sig fyrir þennan bardaga en það er nokkuð sem hann hefur ekkert gert undanfarin ár. „Ég fékk styrktarprófram frá Ingu Birnu og er að taka það svona einu sinni til tvisvar í viku og var í 100% formi fyrir þennan bardaga. Ég var 23 ára þegar ég byrjaði í þessu og var ógeðslega sterkur eftir kraftlyftingarnar og mér fannst ég þurfa að eyða allri minni orku í að læra tæknina þar sem ég átti svo langt í land með það. Ég lét hitt sitja á hakanum.“

„En núna kom einhver andi í mig og mig langaði að prófa aðeins að lyfta og ég fann bara hvað það var að gera mér gott á æfingum. Það var einhvern veginn að kveikja á líkamanum og ég var að breðgast hraðar við. Svo er ég að verða þrítugur í desember og eftir ákveðinn tíma fer maður að dala. Ég vil bara vera í ruddalega góðu fomi og vera tilbúinn í þetta þegar maður fer að dala.“

Mynd: Sóllilja Baltasardóttir.
Mynd: Sóllilja Baltasardóttir.

Niðurskurðurinn fyrir bardagann var einnig sá besti hjá Bjarka. Hann keypti matarprógram hjá næringarfræðingnum George Lockhart og kom það sér að góðum notum. „Þú skráir inn hve aktívur þú ert yfir daginn, hve mikið þú ert að æfa og hve lengi og þá kemur upp vikuplan fyrir þig. Hversu mikið af vatni þú átt að drekka milli máltíða, borða á tveggja tíma fresti og þess háttar. Síðan getur maður verið í stöðugu sambandi við hann og hann hugsar um þetta allt fyrir mig. Geðveikt þægilegt.“

„Ég fékk frá honum skýr skilaboð um hvað ég ætti að éta um leið og ég steig af vigtinni, hvað ég ætti að éta hálftíma eftir vigtun og hvenær ég mátti borða fyrstu máltíðina. Þetta var algjörlega það sem maður þurfti.“

„Ég þurfti bara að taka 1,7 kg af mér í baðinu. Þegar ég tók fyrsta niðurskurðinn minn í léttvigtina árið 2013 var ég 79 kg og með bumbu og þá tók ég 3 kg af mér í baðinu. Núna var 81 kg skorinn og tók ekki nema 1,7 kg af mér í baðinu. Þetta var bara algjör snilld.“

Bjarki skartaði auglýsingu frá Útfararstofu Íslands á stuttbuxunum í bardaganum en það er ekki oft sem við sjáum útfararstofu styrkja keppendur í MMA. Hvernig kom það til? „Fyrrverandi maður frænku Hörpu [kærasta Bjarka] á Útfararstofu Íslands. Ég tjekkaði á honum og hann var meira en til í að styrkja mig. Mér fannst það geðveikt, Útfararstofa Íslands á leiðinni í búrið!“

Bjarki tók viku í slökun eftir bardagann en er nú aftur farinn að æfa. Hann heldur til Spánar síðar í ágúst í frí og fer svo aftur í sömu rútínu. Honum var lofað bardaga í nóvember á næsta bardagakvöldi Shinobi en væri þó til í að keppa í millitíðinni.

„Ég er sjúklega mótiveraður og langar bara að fara strax að berjast. Mig langaði bara að berjast strax daginn eftir,“ segir Bjarki að lokum.

Styrktaraðilar Bjarka Þórs eru: RVK Hair, Macland, Kraftafl, Thermo Tec, Mjölnir, Réttskil, Drunk Rabbit, Útfararstofa Íslands, Irezumi Ink Iceland, Papco, Gló, Óðinsbúð, USN Iceland, Hairbond.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

1 COMMENT

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular