Friday, March 29, 2024
HomeForsíðaBolamótið: Kynning á seinni glímum kvöldsins

Bolamótið: Kynning á seinni glímum kvöldsins

Bolamótið verður haldið í fyrsta sinn á morgun. Hér rennum við aðeins yfir seinni fjórar glímur mótsins.

Í gær renndum við yfir fyrstu fjórar glímurnar á Bolamótinu en nú skoðum við næstu fjórar glímur. Á morgun, laugardag, förum við svo yfir aðalglímu kvöldsins á milli Sighvats og Tom Breese.

Karlotta lengst til hægri.

Karlotta Brynja Baldvinsdóttir (blátt belti) vs. Alex Coleman (fjólublátt belti)

Karlotta Brynja er 19 ára glímukona frá Mosfellsbæ sem æfir hjá VBC í Kópavogi. Karlotta byrjaði að æfa brasilískt jiu-jitsu haustið 2014 og á fjóra Íslandsmeistaratitla að bakia – tvo í unglingaflokki og tvo í fullorðinsflokki. Þá tók hún silfur í opnum flokki á Mjölnir Open 2017 og gull árið á undan á Mjölnir Open unglinga. Karlotta hafði áður keppt í karate, kúluvarpi og sleggjukasti.

Áhugaverð staðreynd: Karlotta lenti í þriðja sæti í sleðahundakeppni á Mývatni (husky hundar að draga sleða) þegar hún var 12 ára.

Alex Coleman. Mynd: Imhotep 4k.

Bandaríska glímukonan Alex Coleman kemur sérstaklega til landsins fyrir Bolamótið. Alex byrjaði að æfa brasilískt jiu-jitsu árið 2013 og æfir hjá Standard BJJ og Globetrotters. Alex tók gull í gi og nogi á Pan Americans leikunum í fyrra í þungavigt en hún hefur verið fjólublátt belti í eitt ár. Alex er 27 ára gömul og æfði blak í háskólanum og hefur einnig tekið þátt í snjóbrettakeppnum.

Áhugaverð staðreynd: Þetta verður fyrsta heimsókn hennar til Íslands!

Europeans BJJ

Ómar Yamak (brúnt belti) vs. Magnús ‘Loki’ Ingvarsson (brúnt belti)

Ómar Yamak (Mjölnir) er fimmfaldur Íslandsmeistari í brasilísku jiu-jitsu og hefur unnið til margra verðlauna á öðrum glímumótum hér á landi og erlendis. Ómar er einn tæknilegasti glímumaður landsins en á dögunum náði hann 3. sætinu á Evrópumeistaramótinu í Poirtúgal í sínum flokki.

Áhugaverð staðreynd: Ómar æfði skák í grunnskóla og fór á Norðurlandamót skólasveita í skák sem varamaður. Mótið var haldið „in the middle of nowhere“ í Danmörku og tóku Ómar og hans félagar 2. sæti. Ómar keppti ekki eina skák á mótinu en ferðin var engu að síður áhrifamikil í hans lífi.

Magnús Ingi Ingvarsson.

Magnús Ingi Ingvarsson (RVK MMA) er 7-3-1 sem áhugamaður í MMA en hann byrjaði að fikta við BJJ þegar hann var unglingur en hóf æfingar á fullu í lok árs 2011. Magnús hefur mikla reynslu úr MMA og tók m.a. silfur á Evrópumeistaramótinu 2016 en hann hefur klárað alla sigrana sína. Þá hefur hann náð góðum árangri á glímumótum að undanförnu en hann var í 2. sæti á London Warriors Cup Open mótinu í fyrra og var í 3. sæti í sínum flokki á Íslandsmeistaramótinu. Þá var hann í íshokkí í sjö ár og var Evrópumeistari unglinga í réttstöðulyftu árið 2010, þá 16 ára með 200 kg.

Áhugaverð staðreynd: Magnús þótti efnilegur í samkvæmisdansi en áhuginn var ekki nægur.

Þeir Ómar og Magnús hafa einu sinni mæst áður í keppni en það var á innanhúsmóti í Mjölni fyrir þó nokkuð mörgum árum síðan þegar báðir voru blátt belti. Það reyndist vera hörku glíma þar sem Magnús var að vinna á stigum þar til Ómar náði „triangle“ hengingu þegar 30 sekúndur voru eftir.

Davíð Freyr til hægri á myndinni.

Davíð Freyr Guðjónsson (blátt belti)  vs. Bjarki Þór Pálsson (fjólublátt belti)

Daði Steinn Brynjarsson er því miður veikur og getur ekki keppt á móti Bjarka Þór eins og til stóð. Davíð Freyr úr VBC kemur því í stað þjálfara síns og mætir Bjarka Þór. Davíð er 22 ára Kópavogsbúi og byrjaði að æfa haustið 2014. Hans besti árangur er 2. sæti á Íslandsmeistaramótinu 2015 og 3. sæti á Mjölnir Open í fyrra. Davíð var í karate í 12 ár þar sem hann var nokkrum sinnum Íslandsmeistari og tók 3. sæti á Norðurlandamóti. Hann hætti svo í karate þegar hann byrjaði í BJJ.

Áhugaverð staðreynd: Davíð er með mikla fóbíu fyrir skartgripum og sérstaklega þeim sem eru úr málmi.

Mynd: Sóllilja Baltasardóttir.
Bjarki Þór Pálsson er einn besti bardagamaður þjóðarinnar. Bjarki Þór er 4-1 sem atvinnumaður og var 11-1 sem áhugamaður. Bjarki byrjaði að æfa bardagaíþróttir í september 2010 og var Íslandsmeistari 2016, tók silfur á Swedish Open 2015 og á fjölda annarra verðlaun á glímumótum hér heima. Þá var hann Íslandsmeistari í kraftlyftingum 2010 og átti Íslandsmet í unglingaflokki í réttstöðulyftu.

Áhugaverð staðreynd: Bjarki Þór keppti í samkvæmisdansi þegar hann var 11 ára. Hann var í „the zone“ á mótinu og var sannfærður um að hann væri að fara að vinna þetta. En allt kom fyrir ekki og var Bjarki gríðarlega svekktur. Tárin streymdu niður kinnarnar og er hann nýfarinn að geta stigið á dansgólfið aftur eftir áfallið 1998.

Bjarki og Davíð hafa aldrei mæst áður.

Bjarni Kristjánsson vs. Halldór Logi Valsson

Mjölnismennirnir Bjarni Kristjánsson og Halldór Logi Valsson mætast í næstsíðustu glímu kvöldsins. Upphaflega átti Halldór Logi að mæta Eiði Sigurðssyni en því miður meiddist Eiður. Bjarni Kristjánsson hefur æft BJJ frá 2007 og keppt á mörgum glímumótum síðan þá. Þá er hann 2-2 sem áhugamaður í MMA. Bjarni er helst þekkastur fyrir að æla í ruslafötur á járnunum í glímunni og fyrir gælunafnið „slob“ sem hann fékk frá hetjum á Instagram.

Áhugaverð staðreynd: Bjarni vann einu sinni stærðfræðikeppni og fékk í verðlaun bol sem á stóð „Við reiknum“. Það eru veglegustu verðlaun sem Bjarni hefur fengið.

Halldór Logi Valsson er einn færasti glímumaður landsins. Halldór byrjaði að æfa árið 2011 og er margfaldur Íslandsmeistari. Þá hefur hann einnig unnið Grettismótið og Mjölni Open nokkrum sinnum. Halldór nennir ekki að telja upp árangurinn og segir að hann sé bara geggjaður. Áður en hann fór í glímuna var hann goðsögn í fótboltanum.

Áhugaverð staðreynd: Halldór Logi var á topp 10 á Andrésarleikunum á skíðum á sínum tíma.

Þeir Halldór og Bjarni hafa aldrei mæst í keppni.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular