Friday, March 29, 2024
HomeForsíðaBrynja Finnsdóttir: Hugurinn skiptir gríðarlega miklu máli

Brynja Finnsdóttir: Hugurinn skiptir gríðarlega miklu máli

Brynja F
Mynd: Brynjar Hafsteins.

Brynja Finnsdóttir átti gríðarlega góðu gengi að fagna á Íslandsmeistaramótinu í brasilísku jiu-jitsu sem fram fór nýlega. Brynja sigraði bæði sinn flokk og opinn flokk kvenna en við ræddum við Brynju um Íslandsmeistaramótið í skemmtilegu viðtali.

Brynja æfir hjá Fenri á Akureyri en auk þess að æfa brasilískt jiu-jitsu kennir hún Bardagahreysti. „Ég æfi 5-8x í viku. Með glímunni æfi ég bardagahreysti í Fenri af fullum krafti. Þar vinnum við mikið með ketilbjöllur og æfingar gerðar með eigin líkamsþyngd. Ég held að sú þjálfun hjálpi mér mjög mikið í glímunni. Svo reyni ég að fara einu sinni í viku í yoga og færi oftar ef ég hefði tíma,“ segir Brynja.

Þegar Brynja bjó í Reykjavík æfði hún í Mjölni en var mest í Víkingaþrekinu (bæði sem kennari og iðkandi). „Það var ekki fyrr en í júlí á þessu ári að ég fór að æfa BJJ með breyttu og bættu hugarfari. Ég fór fyrst á grunnnámskeið í Mjölni fyrir um 4 árum  og hef síðan þá tekið nokkrar tarnir þar sem ég hef æft í nokkrar vikur í senn. Það var svo ekki fyrr en ég ákvað að setja enga pressu á sjálfa mig og gera þetta bara fyrir gleðina sem ég fór  ‘all in’.“ Það hefur svo sannarlega skilað sér þar sem Brynja varð tvöfaldur Íslandsmeistari um nýliðna helgi og sigraði sinn þyngdarflokk á Grettismótinu nú í haust.

Þær Brynja og Sunna Rannveig Davíðsdóttir áttu lengstu glímu mótsins þegar glíma þeirra fór í tvíframlengingu. „Ég var mjög mjög þreytt, sérstaklega í gripunum, eftir fyrstu framlenginuna. Það var svekkjandi að ná ekki kastinu áður en tíminn var úti en ég hugsaði svo sem ekki mikið um það þá.  Ég ákvað bara strax að negla á næstu 2 mínútur. Þetta var klárlega erfiðasta glíma sem ég hef háð hingað til og Sunna er að mínu mati ein flottasta glímukona landsins. Ég var því hrikalega sátt með sjálfa mig eftir glímuna,“ en Brynja sigraði glímuna eftir dómaraúrskurð.

Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.
Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.

Glíman stóð yfir í heilar 10 mínútur og var mikil stemning meðal áhorfenda. En var erfitt að peppa sig upp í næstu glímu eftir svo langa og erfiða glímu? „Nei í raun ekki. Ég var kominn í gírinn og spennt fyrir því að fá að glíma meira. Orð Jóa kærasta míns [Jóhann Ingi Bjarnason] hjálpuðu mér líka mikið þegar hann benti réttilega á að það væri ólíklegt að næsta glíma og mögulega glímur yrðu jafn langar og erfiðar og glíman á móti Sunnu.“

Þetta var fyrsta Íslandsmeistaramót Brynju og að eigin sögn lærði hún margt af mótinu. „Ég fór með það hugarfar að óttast ekki andstæðinginn og gera mitt óháð því hver stæði á móti mér. Mér fannst það takast vel og ég fann og lærði að hugurinn skiptir gífurlega miklu, sérstaklega þegar þreytan fer að síga á. Ég lærði líka að það er í lagi að nota meiri þyngd í ýmsum stöðum á mótum, s.s ‘crossface’, sem er eitthvað sem ég forðast að gera á æfingum af ótta við að meiða æfingafélagann.“

Brynja stefnir á að keppa á Evrópumeistaramótinu í Lisbon í janúar á næsta ári líkt og fleiri Íslendingar og verður gaman að sjá hvernig henni mun vegna þar. Við þökkum Brynju fyrir þetta skemmtilega viðtal og óskum henni velfarnaðar á Evrópumótinu.

Brynja heldur úti BJJ-bloggi og bendum við áhugasömum á að kíkja á það hér.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular