Thursday, March 28, 2024
HomeErlentDaniel Cormier varð flökurt þegar hann fékk fréttirnar af lyfjaprófi Jon Jones

Daniel Cormier varð flökurt þegar hann fékk fréttirnar af lyfjaprófi Jon Jones

Daniel Cormier ræddi við The MMA Hour í gær um lyfjapróf Jon Jones. Cormier efast um að hann mæti Jones í þriðja sinn ef Jones reynist sekur um lyfjamisnotkun.

Jon Jones sigraði Daniel Cormier með rothöggi í 3. lotu er þeir mættust á UFC 214. Þar með tryggði hann sér léttþungavigtartitlinum sem hann var sviptur árið 2015.

Fyrir viku síðan bárust hins vegar fréttir af lyfjaprófi Jon Jones. Í lyfjaprófi Jon Jones sem tekið var daginn fyrir bardagann fundust anabólískir sterar. UFC hefur ekki tilkynnt hver ákvörðun þeirra verður en líklegast verður Jones sviptur titlinum og bardaginn dæmdur ógildur.

Cormier varð flökurt þegar hann fékk fréttirnar af Jones. Cormier segir að það hafi tekið hann langan tíma að jafna sig á tapinu á UFC 214 og voru því fréttirnar af lyfjaprófi Jones ennþá verri.

„Það tekur tíma að vinna úr stórum viðburði líkt og UFC 214. Ég hef upplifað þetta áður með Ólympíuleikana og NCAA útsláttarmótið. Það tekur tíma að komast yfir svona hluti. Það síðasta sem þú vilt eftir að þú kemst yfir svona er að láta draga sig aftur inn. Þetta var erfitt og tók allan daginn. Mér var flökurt,“ sagði Cormier sem var í fríi á Havaí þegar hann fékk fréttirnar. „Ég þurfti að fara upp á herbergi og liggjast þar sem mig svimaði. Þú veist ekki hvernig á að taka svona fréttum.“

Mikil óvissa ríkir í léttþungavigtinni sem stendur en rígur Jones og Cormier var einhver sá allra besti í UFC á síðustu árum. Svo virtist sem rígur Jones og Cormier væri á bak og burt eftir bardaga þeirra á UFC 214 en eftir lyfjamisferli Jones gætu þeir þurft að mætast aftur.

„Það sorglega við þetta allt er að ég myndi berjast við hann aftur. Ég bara veit ekki hvort það verði tími til þess,“ sagði hinn 38 ára gamli Cormier.

„Ef hann fær bann verð ég runninn út á tíma þar sem ég ætla ekki að berjast eftir fertugt og ég hef nú þegar gert mun betur en ég þorði að vona í upphafi ferilsins. Ef þetta er satt, eins og allt bendir til þar sem USADA eru frábærir í sínu fagi, mun ég sennilega renna út á tíma og síðasti bardagi okkar verður síðasta viðureign okkar. Það er sannleikurinn,“ sagði Cormier.

Ef Jones verður fundinn sekur um ólöglega lyfjanotkun mun hann fá að minnsta kosti tveggja ára bann. Jones og hans lið heldur því fram að anabólíski sterinn eigi uppruna sinn að rekja til fæðubótarefna sem hann tók. Ef hann verður sviptur titlinum mun Cormier líklegast aftur verða meistari.

„Þegar ég fékk beltið fyrst árið 2015 sögðu gagnrýnendur mínir að ég hafi fengið beltið gefins. Staðreyndin er hins vegar sú að ég vann beltið með því að berjast við Anthony Johnson. Í þetta sinn myndi ég fá beltið gefins vegna þess sem gerðist. Ég veit að við börðumst en ef hann er ekki að berjast heiðarlega, hvernig er það sanngjarnt gagnvart mér?“

„Ef, og ég held áfram að segja ef þar sem Jon á rétt á sinni málsmeðferð, það er sannað að hann hafi svindlað hefðum við aldrei barist og ég hefði haldið beltinu. Ef hann verður sviptur mun ég taka við titlinum og verð stoltur meistari eins og áður. Þar mun ég sýna fólki hvað það þýðir að vera meistari. Ef hann reynist saklaus mun ég finna leið til að komast aftur í titilbardaga gegn honum.“

Cormier ætlar ekki að berjast aftur fyrr en á næsta ári en í millitíðinni mun hann gegna skyldum sínum sem lýsandi hjá UFC.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular