Thursday, March 28, 2024
HomeErlentDonald Cerrone: Sigur gerir lítið fyrir mig

Donald Cerrone: Sigur gerir lítið fyrir mig

Donald Cerrone mætir Darren Till á UFC bardagakvöldinu í Póllandi á laugardaginn. Margir ráku upp stór augu þegar þessi bardagi var fyrst tilkynntur en Donald Cerrone er sama um allt það. Hann vill bara berjast.

Donald ‘Cowboy’ Cerrone er í 6. sæti á styrkleikalista UFC í veltivigtinni og hátt skrifaður meðal bardagaaðdáenda. Andstæðingur hans, Darren Till, er aftur á móti fremur óþekktur, með aðeins fjóra bardaga í UFC (þrír sigrar og eitt jafntefli) og ekki á topp 15 á styrkleikalistanum. Cerrone er þó alveg sama þó Till sé ekki jafn hátt skrifaður og hann enda segir hann styrkleikalista UFC ekki skipta neinu máli.

„Styrkleikalistinn skiptir engu máli. Eins og þetta hefur verið undanfarið ár skiptir styrkleikalistinn engu máli. Allir eru hissa á að kúrekinn taki bardaga gegn einhverjum sem er ekki á topp 15 en einhver sem berst um titilinn getur barist við hvern sem er svo lengi sem það er góður bardagi. Styrkleikalistinn virðist hafa skipt máli í fyrra en ekki núna og ég þurfti bara andstæðing,“ segir Cerrone.

Cerrone er einn af þeim bardagamönnum sem segist vera alltaf til í að berjast við hvern sem er, hvar sem er og hvenær sem er. Hann hefur ítrekað sýnt að það eru ekki orðin tóm enda margoft boðist til að stíga inn með afar skömmum fyrirvara.

„Margir segjast vera til í að berjast hvar og hvenær sem er en það er ekki satt. Þeir segja það bara opinberlega en þegar þeir fá símtalið koma fullt af afsökunum. Það gerir mig brjálaðan!“

„Er það skynsamlegt fyrir ferilinn að taka þennan bardaga? Sennilega ekki. Þetta gerir ekkert fyrir mig en gerir helling fyrir Darren ef hann vinnur. Hann gæti tekið hástökk upp með sigri en sigur hjá mér gerir lítið fyrir mig. En til hvers að vera gæjinn sem segist vilja berjast hvar og hvenær sem er ef ég ætla svo að gera undantekningar? Ef ég segi eitthvað svona verð ég að standa við það.“

Bardagakvöldið á laugardaginn fer fram í Gdansk í Póllandi en þetta verður í fyrsta sinn sem hann berst utan Norður-Ameríku í UFC og WEC. Vanalega ferðast hann um á húsbílnum sínum og gistir þar síðustu dagana fyrir bardagann en í þetta sinn þarf hann að gista á hótelherbergi sem er ansi óvenjulegt fyrir hann.

„Þið fattið þetta ekki, mér er sama hvar ég berst. Ég væri alveg til í að vera í fyrsta bardaga kvöldsins, þetta þarf ekki að vera aðalbardaginn. Pólland, pay per view, mér er alveg sama. Þetta skiptir engu máli, þetta er það sem ég elska að gera. Það er gaman að vera hér í Póllandi, labba um og skoða allt. Síðan fæ ég að berjast og gera það sem ég elska.“

 

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular