Thursday, March 28, 2024
HomeForsíðaEgill Øydvin Hjördísarson: Tapið veitir mér innblástur til að bæta mig

Egill Øydvin Hjördísarson: Tapið veitir mér innblástur til að bæta mig

Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson
Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson

Egill Øydvin Hjördísarson er einn af átta Íslendingum sem kepptu á Evrópumótinu í MMA þriðju vikuna í nóvember. Egill segir að mótið hafi verið gífurlega lærdómsrík reynsla.

Egill er að verða á meðal reyndari bardagamönnum í Keppnisliði Mjölnis en fyrir keppnina hafði hann keppt þrívegis í MMA á erlendri grundu og sigrað í öll skiptin.

Á fyrsta degi mótsins mætti Egill Tékkanum Robin Kvarda sem hann sigraði eftir aðeins 49 sekúndur með D’arce hengingu en það uppgjafartak er í sérstöku uppáhaldi hjá honum. „Það mætti segja að D‘arce sé mitt signature move, ég sé þetta bara frá öllum sjónarhornum,” segir Egill.

Á öðrum degi barðist hann við Tencho Karanev frá Búlgaríu sem sigraði bardagann með „guillotine” hengingu. Aðspurður hvort um var að ræða hengingu eða „crank” segir Egill: „Hann var virkilega sterkur líkamlega en vantaði mikið upp á tæknina. Hann skellti höndunum yfir kjálkann á mér og kreysti bara af alefli. Ég hélt að tennurnar ætluðu að gefa undan og vörin væri að skerast í tvennt á tönnunum, sem varð til að ég tappaði.”

Egill fékk lítinn tíma til undirbúnings fyrir mótið, mistök sem hann hyggst ekki endurtaka. „Lærdómurinn sem ég dreg er að fara ekki óundirbúinn á mót aftur. Ég ákvað með fjögurra daga fyrirvara að keppa og ég var nýkominn úr meiðslum. Ég vissi ekki alveg hvar ég stóð tæknilega og hvernig þolið var og það hafði talsverð áhrif á hvernig ég hugsaði og hvaða trú ég hafði á sjálfum mér. Ég hef fulla trú á því að ef ég hitti aftur þennan mann eftir fullar æfingabúðir muni ég jarða hann.”

Bardagar Egils eru gjarnan í styttri kantintum. Þriðji bardaginn hans á ferlinum endaði með rothöggi frá Agli eftir sjö sekúndur og það tók hann aðeins 49 sekúndur að sigra Tékkann fyrrnefnda. „Ég held að þetta sé tilviljun. Ég er mjög explosive og notfæri mér hvert tækifæri sem ég fæ og fer oftast vel undirbúinn í bardaga.”

Andlegur undirbúningur fyrir bardaga er ekki síður mikilvægur en líkamlegur. „Ég reyni að vera eins rólegur andlega og ég get og hugsa ekki of mikið. Heldur vera bara í flæðinu. Ég ímynda mér fullt af aðstæðum þar sem ég lendi í vandræðum og sé fyrir mér hvernig ég myndi losa mig úr þeim en þegar kemur að því að fara keppa reyni ég að treysta á tæknina og hafa tóman hug.”

Það eru ótal tól sem menn geta tileinkað sér í MMA. Egill segist kunna vel við að taka eitt fyrir í einu og læra það þá vel. „Ég fæ svona dellu fyrir einhverjum tæknilegum hlutum svo sem hvernig á að nota mjaðmirnar til að fá meiri þunga í högg. Svo þegar ég tel mig hafa náð því sem ég stefni á breyti ég um markmið.”

Mynd: Páll Bergmann.
Mynd: Páll Bergmann.

Áhugamannaferill er fyrst og fremst til að fá reynslu fyrir atvinnumennsku. Það getur verið mikilvæg reynsla að taka þátt í mótum eins og Evrópumótið þar sem þú getur þurft að berjast oft við ólíka andstæðinga. „Ég tel að Evrópumótið sé frábært mót til að fá að finna fyrir mikilli pressu og þurfa að aðlagast andstæðingum. Þetta er líka mjög gott á þann veg að þarna eru margir bardagar í boði á stuttum tíma. Allir bardagar eru góðir til að finna hvernig þér líður í búrinu og ef ég á að segja satt frá myndi ég segja að tapið á EM hafi gefið mér virkilega mikinn innblástur til að bæta mig.”

Egill hefur tekið stekið stefnuna á atvinnumennsku líkt og fleiri í Keppnisliði Mjölnis. „Ég mun fara í atvinnumennsku eflaust seinnipart næsta árs ef allt gengur upp, stefnan er tekin á Heimsmeistaramótið í MMA í Vegas og ef mér gengur vel þar er ekkert sem stöðvar mig í að taka næsta skrefið. Ég mun berjast eins lengi og ég hef gaman af þessu og líkaminn leyfir.”

Að lokum var freistandi að spyrja Egil hvern hann myndi berjast við úr UFC ef hann mætti velja einn andstæðing. „Michael Bisping, ég tel mig geta staðið ágætlega í honum,” segir Egill að lokum.

Bjarki Ómarsson: Langar strax aftur út að keppa

Sunna Rannveig: Óraunverulegt að standa á verðlaunapallinum 

Pétur Jóhannes: Er að þessu til að skora á sjálfan mig

Hrólfur Ólafsson: Get gert svo mikið betur

Inga Birna: Var kannski aðeins of kurteis í bardaganum

RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular