Friday, April 19, 2024
HomeForsíðaEiður Sigurðsson keppir á heimsmeistaramótinu í BJJ

Eiður Sigurðsson keppir á heimsmeistaramótinu í BJJ

Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.
Eiður með sigur í úrslitaglímunni á Mjölni Open 10. Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.

Eiður Sigurðsson úr Mjölni keppir á heimsmeistaramótinu í brasilísku jiu-jitsu um helgina. Mótið er firnasterkt og keppa margir af fremstu glímumönnum heims á mótinu.

Eiður verður þriðji Íslendingurinn sem keppir á heimsmeistaramótinu (Worlds). Áður höfðu þeir Gunnar Nelson og Bolli Thoroddsen keppt en Eiður verður fyrsti Íslendingurinn til að keppa fyrir hönd íslenskt félags.

Mótið fer fram í Long Beach í Kaliforníu og fer mótið fram á fimm dögum. Eiður keppir á föstudaginn í -88,3 kg flokki fjólublábeltinga. Mótið er gríðarlega stórt en tæplega 70 manns eru skráðir í flokkinn hans.

Við heyrðum í Eiði í gær en hann er nú staddur í Kaliforníu. „Ég hef ekki verið að æfa fyrir þetta mót sérstaklega, bara að glíma mikið við fólkið í Mjölni og síðan að drilla með Ómari Yamak. Ég breytti til fyrir um átta mánuðum síðan og byrjaði í styrktarþjálfun hjá Mark Kislich og byrjaði einnig að fara reglulega til Einar Carls nuddara. Það hefur hjálpað mér mikið,“ segir Eiður.

Eiður er margverðlaunaður á mótum hérlendis og sigrað til að mynda Íslandsmeistaramótið tvisvar, Mjölni Open, Sleipnir Open og opinn flokk á Grettismótinu 2013. Þá náði hann þriðja sæti á Rome Open árið 2013. „Ég hef alltaf verið mjög stressaður fyrir mót erlendis og ekki glímt góðar glímur. Ég ætla að breyta því núna. Ég ætla að sýna mína bestu frammistöðu, læra af þessu og hafa gaman.“

Við óskum Eiði góðs gengis en hér að neðan má sjá myndbrot frá síðasta heimsmeistaramóti.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular