Thursday, March 28, 2024
HomeErlentEr Floyd-Conor vitleysan að breytast í eitthvað sem gæti í alvörunni gerst?

Er Floyd-Conor vitleysan að breytast í eitthvað sem gæti í alvörunni gerst?

Vitleysan í kringum mögulegan boxbardaga Conor McGregor og Floyd Mayweather varð aðeins raunverulegri um síðustu helgi þegar Dana White, forseti UFC, lagði fram tilboð til beggja. Er boltinn í alvörunni farinn af stað?

Dana White bauð Floyd Mayweather og Conor McGregor 25 milljónir dollara hvor í viðtali í þættinum The Herd. White segist vera eini maðurinn sem getur gert þennan bardaga að veruleika.

Þó Floyd hafi hreinlega gert grín að 25 milljón dollara tilboði Dana White má segja að umræðan hafi breyst við þetta óformlega tilboð Dana White. Núna er þetta ekki lengur bara bull hjá Floyd og Conor til að halda nafninu sínu í umræðunni. Núna er fólk á bakvið tjöldin að skoða hvort þetta sé raunverulega hægt.

Það er þó langur vegur framundan til þess að bardaginn geti farið fram en það má segja að boltinn sé farinn löturhægt af stað. Það vilja sennilega allir aðilar (Floyd, Conor, UFC og WME-IMG) láta þetta verða að veruleika en það verður gríðarlega erfitt að gera alla sátta.

25 milljónir dollara tilboð væri tækifæri lífs síns fyrir alla en fyrir Floyd Mayweather er þetta hreinlega móðgandi. Floyd mun vilja fá að minnsta kosti 100 milljónir dollara fyrir bardagann og Conor mun ekki sætta sig við neitt mikið minna. Conor er sá eini sem Floyd vill mæta ef Floyd snýr aftur í boxið og Conor er sá eini sem er nægilega stórt nafn til þess að gefa Floyd 100 milljón dollara bardaga.

Conor McGregor er auðvitað á samningi við UFC og bardagasamtökin munu ekki leyfa gullkúnni sinni að berjast risabardaga annars staðar án þess að vera annað hvort viðloðin bardagann eða fá stóran hluta af kökunni. Nýju eigendur UFC, WME-IMG, keyptu UFC fyrir 4,2 milljarða dollara síðasta sumar og þurfa talsverðar tekjur til að borga niður skuldir. WME-IMG mun ekki horfa framhjá svona peningavél sem þessi bardagi yrði.

Við höfum ekki hugmynd um hvernig þetta myndi ganga. Dana White talaði um á föstudaginn að þeir myndu setja saman titilbardaga og stóra bardaga á kvöldið líkt og á UFC 205 í New York til að gefa aðdáendum eitthvað meira en bara einn stóran bardaga. Myndum við þá kannski sjá 10 MMA bardaga og einn boxbardaga á sama kvöldi í UFC? Færi boxbardaginn þá fram í búri eða væri boxhringur til staðar við hliðina á búrinu?

Í hvaða þyngd færi bardaginn fram í? Báðir hafa barist í nokkrum þyngdarflokkum en Floyd hefur í gegnum ferilinn barist allt frá 59 kg og upp í 69,9 kg. Conor hefur auðvitað barist í fjaðurvigt (65,7 kg) og upp í veltivigt (77,1 kg).

Hvar yrði svo bardaginn sýndur? Bardaginn yrði auðvitað á Pay Per View bardagakvöldi en væri það UFC Pay Per View eða hjá Showtime eins og síðustu bardagar Floyd?

Hvers konar lyfjapróf myndu báðir ganga í gegnum?

Mun íþróttasamband Nevada (NSAC, Nevada State Athletic Commission) samþykkja bardagann? Conor McGregor er 0-0 sem atvinnuboxari á meðan Floyd er 49-0. Undir öllum eðlilegum kringumstæðum væri það einhliða og ósanngjarn bardagi á pappírum. Írinn fékk keppnisleyfi í boxi í Kaliforníu í fyrra en er ekki með leyfi í Nevada fylki.

Eins og áður segir er langur vegur framundan en kannski, bara kannski, er boltinn farinn mjög hægt af stað. Við vitum það þó að þetta verður ekkert spennandi bardagi nema það verði einhver bráðabirgðar (e. interim) titill í húfi.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular