Tuesday, April 23, 2024
HomeForsíðaFightStar: Bjarki með sigur eftir klofna dómaraákvörðun í frábærum bardaga

FightStar: Bjarki með sigur eftir klofna dómaraákvörðun í frábærum bardaga

Bjarki Ómarsson er kominn með sinn fyrsta sigur sem atvinnumaður. Bjarki sigraði Mehmosh Raza eftir klofna dómaraákvörðun í frábærum bardaga.

Eftir 11 áhugamannabardaga tók Bjarki Ómarsson skrefið í atvinnumennskuna í kvöld. Hans fyrsti bardagi var á FightStar 13 í kvöld gegn Mehmosh Raza (4-1 fyrir bardagann) í fjaðurvigt.

Bjarki byrjaði vel með nokkur flott spörk standandi og var afslappaður. Raza virtist hitta með hægri krók og fór Bjarki þá beint í fellurnar. Raza varðist vel en Bjarki fór í nokkrar mismunandi fellur og náði að enda ofan á. Þar var hann með góða stjórn og kom nokkrum olnbogum inn. Fyrsta lotan klárlega sigur fyrir Bjarka.

Önnur lota var jafnari en Bjarki skaut snemma í fellu. Í þetta sinn náði hann ekki að halda Raza niðri og var Raza farinn að verjast fellutilraunum Bjarka mjög vel. Raza náði sjálfur fellu og komst ofan. Báðir með fellur í lotunni og því mun jafnari lota en sú fyrsta.

3. lota var afar hörð barátta. Bjarki náði fellunni aftur en eftir smá „clinch“ og stöðubaráttur komst Raza ofan á. Bjarki fékk nokkur góð högg í sig í gólfinu og var Raza að stjórna Bjarka nokkuð vel. Bjarki náði þó að komast aftur upp og stóðu þeir síðustu mínútuna. Þar var Bjarki með nokkur mjög góð spörk sem voru að hitta en Raza var harður í horn að taka og stóð allt af sér.

Báðir voru eflaust fegnir þegar bardaganum lauk. Bardaginn var frábær skemmtun og mjög jafn. Dómararnir voru ekki sammála hver ætti að vera krýndur sigurvegari en svo fór að Bjarki Ómarsson vann eftir klofna dómaraákvörðun (tveir dómarar gáfu Bjarka sigurinn, einn dómari gaf Raza sigurinn).

Bjarki er núna 1-0 á atvinnumannaferlinum eftir sigur á reynslumeiri og flottum andstæðingi. Þetta var kærkominn sigur fyrir Íslendinga enda höfðu íslensku bardagamennirnir tapað öllum þremur bardögum sínum fram að sigrinum hjá Bjarka.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular