Thursday, April 25, 2024
HomeForsíðaFöstudagstopplistinn: 5 mestu jólasveinarnir í MMA

Föstudagstopplistinn: 5 mestu jólasveinarnir í MMA

Það styttist í jólin og er þetta síðasti Föstudagstopplisti ársins. Af því tilefni ætlum við að hafa listann jólalegan og tilnefna fimm mestu jólasveinana í MMA í dag.

Jólasveinana skilgreinum við sem vitleysinga, menn eða konur sem taka slæmar ákvarðanir og hafa oft hagað sér undarlega. Þetta eru ekki endilega lögbrjótar eins og War Machine heldur menn sem eru enn að berjast en eru kannski ekki skörpustu hnífarnir í skúffunni.

shit just got real5. Cody McKenzie

Cody McKenzie var aldrei að fara vera neinn heimsmeistari þegar hann kom í UFC eftir að hafa verið meðlimur í 12. seríu The Ultimate Fighter. Hann var með 11 sigra eftir “guillotine” hengingu áður en hann kom í UFC og það var í raun það eina sem hann var virkilega góður í. Í hans síðasta UFC bardaga sýndi hann kjánalega hegðun. Í bardaganum mætti hann í stórum körfuboltastuttbuxum sem voru enn með verðmiðanum á! McKenzie gleymdi keppnisstuttbuxunum sínum á hótelinu og stökk því út í næstu búð og keypti fyrstu stuttbuxurnar sem hann sá. Hann hefði nú getað tekið verðmiðann af fyrst hann var að fara að berjast fyrir framan milljónir manna. Eftir bardagann sást til hans baksviðs kastandi upp eftir að hafan fengið sér nokkra kalda. McKenzie var rekinn úr UFC fljótlega eftir þetta.

paul daley
Dómarinn rífur Paul Daley í burtu eftir að hann reyndi að kýla Josh Koscheck eftir að bardaginn var búinn.

4. Paul Daley

Hegðun hans utan búrsins hafa komið honum áður í vandræði en það er ekki ástæðan fyrir því af hverju hann er á þessum lista. Hann á eitt ótrúlegasta atvik í sögu UFC þegar hann reyndi að kýla Josh Koscheck eftir að bardaganum var lokið. Koshcheck hafði mikla yfirburði gegn Daley í bardaganum og hvíslaði ókvæð orð að honum um unnustu Daley. Daley var umsvifalaust rekinn úr UFC og sagði Dana White að hann myndi aldrei berjast aftur í UFC. Þetta var í maí 2010 og hefur Dana White staðið við orð sín. Þetta er að vissu leiti leiðinlegt þar sem Paul Daley gæti verið ágætis bardagamaður og hefði sennilega átt fínan feril í UFC ef hann hefði ekki verið svona mikill jólasveinn.

nick-diaz1

3. Nick Diaz

Það er aldrei lognmolla í kringum Diaz bræðurna. Ummæli þeirra og hegðun hafa skapað þeim miklar vinsældir. Eitt minnistæðasta atvikið á ferli Nick Diaz er þegar hann sigraði Takanori Gomi með “gogoplata” hengingu en síðar kom í ljós að Diaz var skakkur í bardaganum! Hann tók þátt í slagsmálunum í Strikeforce þegar Mayhem Miller (sem er annar jólasveinn en á við geðræn vandamál að stríða) og Cesar Gracie liðið slógust í beinni útsendingu í búrinu eftir bardaga Jake Shields. Diaz og Braulio Estima áttu að mætast í glímu í maí 2012 á World Jiu-Jitsu Expo en Diaz mætti ekki. Frægasta atvikið er þó þegar hann mætti ekki á blaðamannafund (í annað sinn) fyrir bardaga gegn Georges St. Pierre og var bardaganum aflýst. Í hans stað fékk Carlos Condit bardagann en síðar meiddist Georges St. Pierre.

nate-diaz

2. Nate Diaz

Það er auðvelt að setja Nate Diaz á þennan lista eftir framgöngu hans í síðustu viku. Hann barðist ekki í eitt ár þar sem hann var ósáttur með samninginn sinn og vildi fá betur borgað frá UFC. Hann snéri loks aftur í búrið í síðustu viku þar sem hann tapaði fyrir dos Anjos. Vikan fyrir bardagann gekk ekki þrautalaust fyrir sig en hann byrjaði á að mæta ekki á opnu æfinguna, náði svo ekki vigt á föstudaginn og gekk úr miðju viðtali við UFC sem sýna átti á bardagakvöldinu. Diaz var sektaður um 20% af launum sínum fyrir að ná ekki vigt og fékk að auki aðra sekt fyrir að ganga úr viðtalinu. Ansi undarleg hegðun fyrir mann sem vantar meiri pening. Það er óhætt að segja að þeir Diaz bræður séu jólasveinar en þó hrikalega skemmtilegir karakterar.

palhares 3

 

1. Rousimar Palhares

Hvar á maður að byrja með Palhares? Hegðun hans virðist alltaf koma á óvart en samt virðist þetta alltaf vera sama sagan. Hann hefur oft haldið uppgjafartaki óhóflega lengi og sleppur ekki fyrr en eftir endurteknar tilraunir dómarans til að fá hann til að sleppa takinu. Hann hefur áður fengið bann fyrir að halda fótalás of lengi og var rekinn úr UFC eftir að hann sleppti ekki uppgjafartaki á Mike Pierce þrátt fyrir ítrekaðara tilraunir dómarans til að stoppa bardagann. Vert er að minnast á fleiri jólasveinaatvik hjá honum eins og þegar hann stökk upp á búrið í miðjum bardaga (hélt að bardaginn væri búinn), þegar hann féll á lyfjaprófi og þegar Nate Marquardt rotaði hann eftir að Palhares sakaði hann um að vera of sleipur á löppunum. Hegðun hans er alltaf undarleg og er hann einn umdeildasti bardagamaðurinn í dag.

palhares

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular