Thursday, April 25, 2024
HomeErlentGæti Joanna Jedrzejczyk skemmt fyrir Rondu?

Gæti Joanna Jedrzejczyk skemmt fyrir Rondu?

jessica penneAnnað kvöld verður sögulegur viðburður í UFC þegar báðir kvennameistararnir verja beltin sín. Þær Ronda Rousey og Joanna Jedrzejczyk eru báðar ríkjandi meistarar og gríðarlega færar. Báðar hafa þær mikla yfirburði en á ólíkan máta.

Vinsældir Rondu Rousey hafa farið vaxandi á þessu ári. Bardaginn á morgun verður hennar þriðji á árinu en síðast sáum við hana rota Bethe Correia í fyrstu lotu. Gríðarlega margir horfðu á bardagann og þar á meðal voru margir aðdáendur í yngri kantinum.

Rousey er orðin stór fyrirmynd ungra stúlkna í Bandaríkjunum eins og sást á hrekkjavökunni en margar stelpur klæddu sig upp eins og bantamvigtarmeistarinn. Vitað er að foreldrar leyfa dætrum sínum að horfa á fyrirmyndina Rondu Rousey enda eru bardagarnir hennar yfirleitt nokkuð snyrtilegir. Bardagarnir hennar klárast á örskömmum tíma og er lítið um blóð og annað sem gæti valdið ungum áhorfendum óhug.

jessica penne 2

Það sama er þó ekki hægt að segja um Joanna Jedrzejczyk en hún berst á undan Rousey. Forvitin augu sem vilja sjá Rondu Rousey gætu einnig viljað sjá hinn kvennameistarann.

Bardagar Jedrzejczyk eru þó allt öðruvísi en bardagar Rondu Rousey. Jedrzejczyk er gríðarlega fær í Muay Thai og notar allt sitt vopnabúrið til að ganga frá andstæðingum sínum. Andlit Jessica Penne er hún mætti Jedrzejczyk var til að mynda eldrautt af blóði áður en dómarinn stöðvaði bardagann í 3. lotu. Það er eitthvað sem foreldrar vilja ekki að börnin sín sjái. Takist Jedrzejczyk að blóðga Valerie Létourneau jafn verulega og gegn Penne gæti það fælt aðdáendur Rousey frá næstu bardögum hennar.

Þannig gæti það skemmt fyrir Rousey ef ungir aðdáendur hennar sjá blóðugan bardaga Jedrzejczyk og foreldrar verða því síður tilbúnir til að leyfa krökkunum að horfa á Rousey. Eflaust eru þeir foreldrar sem hafa bara horft á Rousey bardaga ekki kunnugir um hve harðgerð þessi íþrótt getur orðið. Jedrzejczyk gæti sýnt það gegn Létourneau og þannig gert Rousey grikk.

UFC 193 fer fram annað kvöld en þar mætir bantamvigtarmeistarinn Ronda Rousey Holly Holm og strávigtarmeistarinn Joanna Jedrzejczyk mætir Valerie Létourneau.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular