Wednesday, April 24, 2024
HomeErlentGegard Mousasi: Fannst eins og hann vildi ekki halda áfram

Gegard Mousasi: Fannst eins og hann vildi ekki halda áfram

Gegard Mousasi sigraði Chris Weidman í gær á UFC 210. Bardaginn endaði með umdeildum hætti en Mousasi er tilbúinn til að mæta Weidman aftur.

Mousasi náði inn tveimur hnéspörkum í 2. lotu. Dómarinn Dan Miragliotta taldi að seinna hnéð hefði verið ólöglegt þar sem Weidman var með báðar hendurnar á gólfinu. Miragliotta gerði hlé á bardaganum og ætlaði að gefa Weidman fimm mínútur til að jafna sig.

Miragliotta skipti þó um skoðun eftir að hafa yfirgefið búrið og sagði að höggið hefði verið löglegt. Læknirinn sagði Weidman óhæfan til að keppa og var Mousasi úrskurðaður sigurvegari eftir tæknilegt rothögg.

„Þegar upp er staðið var ég að berjast. Ég virði Weidman og vil ekki tala illa um hann en það er ekki mér að kenna ef þú ætlar vera klár og nýta þer reglurnar. Ég er að berjast. Ef þú vilt setja hendurnar á gólfið svo ég ég geti ekki hnjáað þig..við erum að berjast, ekki reyna að nýta þér reglurnar. Ég er að berjast og þetta var löglegt þegar upp er staðið,“ sagði Mousasi á blaðamannafundinum eftir bardagann.

Ólöglegt er að veita spark eða hnéspark í höfuð á liggjandi andstæðing í UFC. Þegar bardagamenn eru með báða lófana í gólfinu teljast þeir vera liggjandi samkvæmt nýju reglunum. Í gömlu reglunum (sem eru enn við lýði í sumum fylkjum) er nóg að vera með aðra höndina í gólfinu. Nýju reglurnar voru í gildi í gær en endursýningin sýndi að Weidman var ekki með báða lófa í gólfinu þegar Mousasi hnjáaði Weidman.

„Ég sem ekki reglurnar. Þetta var löglegt og mér fannst eins og hann vildi ekki halda áfram. Ég held að allir hafi séð það, hann langaði ekki að halda áfram. Hvernig er það mér að kenna? Mér er skítsama, ég vann. Ég fýla Weidman, hann er erfiður andstæðingur en hann vildi ekki berjast. Ég fann að hann var að þreytast. Mér fannst eins og hann væri að leita að leið úr bardaganum og fannst eins og hann gæti kannski gert það ef ég yrði dæmdur úr leik.“

Weidman vill fá endurat gegn Mousasi og er hann tilbúinn í það. „Ég er til í að mæta honum aftur. Ég er að elta titilinn þegar upp er staðið.“

Þetta var þó síðasti bardaginn hans á samningi hans við UFC og getur hann nú rætt við önnur bardagasamtök. Mousasi, sem er fæddur í Íran en alist upp í Hollandi, vill vera áfram í UFC en vill fá almennilega borgað.

„Ég ætti að fá vel borgað. Allir þessir menn sem ég er að vinna fá betur borgað en ég. Hvað er málið? Er það  út af þjóðerni mínu? Þarf ég að lita hárið á mér ljóst? Hvað er málið?“

„Ég er einn af þeim bestu og ætti að fá borgað eins og einn af þeim bestu. Það er ekkert að mér. Borgið mér bara það sem ég á skilið, ég er sanngjarn maður. Ég er ekki að biðja um að fá meira en ég á skilið. Haldiði að ég geti ekki unnið Bisping? Get ég ekki talað eins og Bisping?“

Það veltur því allt á UFC hvort að þeir Mousasi og Weidman verði látnir mætast aftur þar sem báðir virðast vera til í það.

„Það veltur á UFC. Ef þeir vilja láta okkur mætast aftur, af hverju ekki að gera það í Hollandi? Áhorfendur voru á hans bandi núna en ef hann berst við mig í Hollandi væru þeir með mér. Hann reyndi að vera klár og nýta sér reglurnar til að fá mig dæmdan úr leik. Ég held að allir hafi séð það. Ekki kenna mér um.“

Mousasi vildi augljóslega ekki fagna eftir sigurinn í búrinu og bað þjálfara sína um að halda ró sinni. „Ég var ekki í góðu skapi. Svona vildi ég ekki vinna. Þetta er þó sigur. Stundum fæst sigur í knattspyrnu með marki úr vítaspyrnu. Það er sigur. Ég tek sigrinum en eins og ég sagði, hann vildi ekki berjast og það er ekki mér að kenna.“

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular