Friday, April 19, 2024
HomeErlentHættulegasta bardagakona heims

Hættulegasta bardagakona heims

Cristiane Justino Venâncio, betur þekkt sem Cris ‘Cyborg’ Justino, er ein allra besta og ógnvænlegasta bardagakona heims. Í kvöld berst hún loksins sinn fyrsta titilbardaga í UFC en þessi umdeilda bardagakona er af mörgum talin ein besta bardagakona heims.

Cris ‘Cyborg’ Justino eða bara Cyborg eins og hún er alltaf kölluð er 32 ára brasilísk bardagakona. Cyborg var gift bardagamanninum Evangalista ‘Cyborg’ Santos og tók viðurnefnið Cyborg frá honum.

Hún þótti efnileg handboltakona en var boðið að koma og æfa MMA hjá Chute Box í Brasilíu. Chute Box bardagaklúbburinn í Brasilíu er goðsagnarkenndur og þekktur fyrir fáranlega harðar æfingar. Á þeim tíma voru nánast engar konur að keppa í MMA og var litið á stelpurnar sem æfðu í bardagaklúbbnum sem einhverjar stelpur í kærastaleit. Cyborg sýndi strax á hennar fyrstu æfingum að hún var ekkert þarna í leit að kærasta. Þjálfarar hennar sáu að hún væri grjóthörð og gaf hún strákunum ekkert eftir.

Foreldrar hennar urðu þó fyrir vonbrigðum þegar hún tilkynnti þeim að þetta yrði hennar lífsleið. Mamma hennar hafði alltaf vonast eftir að Cyborg yrði tannlæknir en Cyborg sannfærði móður sína um að hún gæti alltaf fjarlægt nokkrar tennur á nýja starfsvettvanginum í búrinu. Eftir tap í hennar fyrsta MMA bardaga hefur hún unnið alla 17 bardaga sína og er í dag ein virtasta og besta bardagakona heims.

Áður en Ronda Rousey varð andlit kvenna í MMA voru stærstu nöfnin þær Gina Carano og Cyborg. Þær Cyborg og Carano mættust í aðalbardaganum á Strikeforce bardagakvöldinu í ágúst 2009 en það var í fyrsta sinn sem konur voru í aðalbardaga kvöldsins á stóru bardagakvöldi.

Carano var á þeim tíma stærsta nafnið á meðan Cyborg var talin sú besta. Cyborg sigraði Carano með tæknilegu rothöggi í 1. lotu og varð fjaðurvigtarmeistari Strikeforce. Carano hætti í MMA eftir bardagann og hefur gert það ágætt í Hollywood síðan þá.

Cyborg hefur aldrei verið í vandræðum í búrinu en hefur strögglað eilítið utan búrsins. Þegar Ronda Rousey var á toppi ferilsins vonuðust aðdáendur eftir að sjá þær Cyborg og Rondu saman í búrinu. Vandamálið var hins vegar að Cyborg barðist (og gerir enn) í 145 punda fjaðurvigt en Ronda í 135 punda bantamvigt. Ronda hafði engan áhuga á að fara upp í fjaðurvigt en Cyborg reyndi að fara niður í bantamvigt.

Þær Ronda og Cyborg voru engar perluvinkonur og nýttu hvert tækifæri til að skjóta á hvor aðra. Ronda kallaði Cyborg „það“ og sagði að hún væri ekkert nema sterabolti sem liti út eins og karlmaður. UFC málaði Cyborg sem óvininn á meðan Ronda var góða stelpan með ljósu lokkana.

Samband Cyborg og UFC hefur verið afar stirt í langa tíð eða frá því Dana White, forseti UFC, sagði að Cyborg liti út eins og brasilíski bardagamaðurinn Wanderlei Silva í kjól. Skömmu eftir að UFC samdi við Cyborg grínaðist White og UFC lýsandinn Joe Rogan að Cyborg væri sú fyrsta til að skera af sér typpið til að ná vigt. Þau ummælu særðu Cyborg afar mikið og gera enn í dag er hún rifjar þau upp. Cyborg finnst ennþá eins og hún sé óvinurinn og óvelkomin í UFC

Ásakanir Rondu Rousey komu ekki upp úr þurru enda féll Cyborg á lyfjaprófi árið 2011. Hún féll svo aftur á lyfjaprófi í desember í fyrra en í lyfjaprófinu fannst lyf sem var á bannlista USADA sem sér um lyfjamál UFC. Cyborg fékk ekki bann þar sem í ljós kom að lyfið sem hún innbyrti var til að hjálpa henni að jafna sig á hræðilegum niðurskurði fyrir hennar síðasta bardaga. Þrátt fyrir að fá ekki bann var ímynd hennar svert.

Cyborg berst nefnilega að öllu jöfnu í 145 punda fjaðurvigt. UFC reyndi hins vegar að fá hana niður í 135 punda bantamvigt (í von um að hún myndi mæta Rondu) og létu því hana berjast í 140 punda hentivigt. Það gerði hún tvisvar en niðurskurðurinn var einfaldlega alltof erfiður og lífshættulegur. Cyborg kom heil úr bardaganum sjálfum en vegna niðurskurðarins þurfti hún að dvelja á spítala í 10 daga eftir bardagann.

Á morgun fáum við loksins að sjá hana í fjaðurvigt í UFC. Fjaðurvigt kvenna hefur verið skrítin í UFC þar sem aðeins einn bardagi hefur farið fram í þyngdarflokknum síðan hann var settur á laggirnar í upphafi árs. Þá mættust þær Germaine de Randamie og Holly Holm en de Randamie fór með sigur af hólmi og var fyrsti meistarinn í þessum nýja flokki.

Það entist hins vegar ekki lengi og var hún svipt titlinum eftir að hún neitaði að berjast við Cyborg. De Randamie hélt því fram að hún gæti ekki barist við „svindlara“ þar sem Cyborg hefur fallið á lyfjaprófi. Í augum aðdáenda vildi hún einfaldlega ekki fara í búrið með Cyborg.

Cyborg virðist vera ein af fáum í bardagaheiminum í dag sem vekur upp mikinn ótta hjá andstæðingunum. Það er svo sem alveg skiljanlegt enda valtar hún hreinlega yfir andstæðingana sína. 17 sigrar, 15 rothögg og 9 sigrar í 1. lotu gera hana að hættulegustu bardagakonu heims. Að meðaltali lendir hún 8,24 höggum á mínútu en til samanburðar lendir Donald Cerrone (sem berst einnig annað kvöld og er duglegur að sækja) 4,18 höggum á mínútu og Gunnar Nelson 2,01 höggum á mínútu.

Núna þegar Ronda Rousey virðist vera horfin á bak og burt er gott tækifæri fyrir Cyborg að verða stór stjarna. Hún er afar sigursæl, bardagar hennar eru skemmtilegir, hún nýtur mikilla yfirburða og svo er hún að klára bardaga sína en allt þetta elska bardagaaðdáendur að sjá. Hún er þegar mjög vinsæl meðal harðkjarna bardagaaðdáenda en hefur ekki náð til fólksins utan MMA heimsins líkt og Ronda Rousey gerði. Þar setur hún sökina á UFC og hefur sagt að ef hún væri bandarísk og með ljósa lokka hefði hún fengið sömu tækifæri og Ronda Rousey fékk.

Cyborg mætir Tonya Evingar í kvöld á UFC 214 um fjaðurvigtartitil kvenna. Þetta er einn af þremur titilbardögum sem eru á dagskrá en UFC 214 verður sýnt í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

Heimild: Bleacher Report

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular