Tuesday, April 23, 2024
HomeForsíðaHaraldur Þorsteinsson - Fyrsti Íslendingurinn til að fá svart belti í BJJ

Haraldur Þorsteinsson – Fyrsti Íslendingurinn til að fá svart belti í BJJ

mYnPBAO
Haraldur ásamt Marco Nascimento

Haraldur Þorsteinsson er fyrsti Íslendingurinn til þess að fá svart belti í brasilísku jiu-jitsu. Haraldur er 69 ára í dag og er búsettur í Kaliforníu í Bandaríkjunum. Hann fékk svart belti undir Marco Nascimento árið 2008 og stundar enn þann dag í dag Brasilískt jiu-jitsu.

Hvernig uppgötvaðir þú BJJ fyrst ?

Ég frétti fyrst af Gracie Jiu-Jitsu þegar út kom stutt grein um Helio Gracie í Íslensku dagblaði fyrir um það bil 45-50 árum. Í greininni var sagt frá sigrum hans gegn glímumönnum og hnefaleikamönnum. Í greininni kom einnig fram að hann hefði skorað á marga þungavigtar boxara svo sem stórstjörnur eins og Primo Carnera, Joe Louis og Ezzard Charles. Fyrir þá sem ekki vita þá er Helio Gracie einn af upphafsmönnum Gracie Jiu-Jitsu sem er í raun upphafið af því það sem Brazilian Jiu-Jitsu er í dag. Í greininni var útskýrt hvernig hann sigraði andstæðinga sína en það var gert með armlásum og hengingum. Í þessari sömu grein kom svo fram að Helio var ósigraður í hundruðum bardaga. Ég var mjög forvitinn við þessa lesningu en að fara einfaldlega til Brasilíu og æfa BJJ var ekki inn í myndinni.

Ég heyrði ekki af MMA íþróttinni fyrr en seint á árinu 1993. Vinnufélagi minn sagðist hafa horft á UFC 1 og maður að nafni Royce Gracie frá Brasilíu hefði unnið alla andstæðinga sína með hengingum og lásum. Ég kannaðist við Gracie nafnið frá greininni og fékk spóluna lánaða. Mér fannst áhugavert hvernig Royce sigraði andstæðinga sína á svo tignarlegan máta án þess að meiða eða skaða þá á nokkurn hátt. Það sem hreif mig líka var hvað BJJ var líkt Júdói sem ég hafði æft síðan 1966. Mig langaði að komast í Gracie Jiu-Jitsu skóla því júdó bylturnar voru farnar að hafa verulega mikil áhrif á mig líkamlega en ég hafði verið að glíma við meiðsli í neðra baki og í hægra hné.

Hvað ertu búin að æfa bardagalistir lengi?

Ég hef æft BJJ í 18 ár og Júdó í 17 ár. Ég æfði báðar íþróttirnar samhliða í 3 ár.

Hvað varstu lengi að fá svart belti?

Það tók mig um 13 ár.

Hvernig þróaðist BJJ saga þín?

Ég var búin að æfa BJJ í um það bil ár þegar ég kom í heimsókn í minn gamla Júdó klúbb á Íslandi. Ég sagði Bjarna Friðriksyni að ég hefði verið að stunda BJJ. Ég sýndi honum hvað ég hafði lært en annars fannst öllum BJJ líkjast Júdó. Ég var reyndar ekki komin langt í BJJ þjálfun á þessum tíma.

Ég ferðaðist oft til London í mínum heimsóknum til Íslands. Ég leitaði upp Syd Hoare sem ég þekkti frá fyrri tíð en hann var þjálfari í stærsta júdó klúbb í London. Ég sýndi þar nokkur BJJ brögð og aftur fannst flestum BJJ vera eins og júdó. Ég gaf Syd Hoare UFC spólur og eftir að hann hafði horft á þær skrifaði hann mér þar sem hann var orðlaus af hrifningu á frammistöðu Royce Gracie. Þar komst ég að því að BJJ var óþekkt í stærsta júdó klúbb í London en þetta átti sér stað árið 1996.

Ray Castle vinnufélagi minn sem hafði sagt mér frá UFC 1 var farinn að æfa Gracie Jiu-Jitsu í litlum klúbb í San Fransisco. Klúbburinn hét “Academy of Fightings Arts”. Roryon Gracie hafði rekið þennan klúbb um skeið. Ég tók eftir að það voru æfingabúðir til boða og ég ákvað að slá til en kennarinn hét Caique og var með 4. gráðu svart belti. Eftir kennslustundirnar var opið gólf og mér til mikillar furðu náðu margir mér í armlás þrátt fyrir langa júdó iðkun. Á þessum tímapunkti fann ég að þetta var eitthvað sem ég hafði gaman af og byrjaði að æfa reglulega. Þessi klúbbur hentaði mér þó ekki þar sem ég var í kvöldvinnu og ég leitaði af öðrum klúbb. Á þessum tímum voru aðeins tveir aðrir klúbbar sem ég fann í San Fransisco. Annar klúbburinn var rekinn af Carley Gracie í North Beach hverfinu en hinn var í Pleasant Hill og var rekin af Cesar Gracie sem margir kannast við úr MMA. Ég ákvað að byrja að æfa hjá Cesar Gracie þar sem ég losnaði við að keyra í gegnum miðborg San Fransisco.

Eftir að hafa æft þar hringdi ég í Cesar og fór í einkatíma hjá honum. Hann notaði oft David Terrel sér til aðstoðar. Cesar var fínn maður og góður kennari og glímdi ég talsvert við hann og David. Í eitt skiptið mætti Cesar ekki en Cesar var mikill aðdáandi á krossgátum og sat djúpt sokkinn í eina slíka á kaffistofu við hliðina á æfingaraðstöðinni.

Ég hitti marga þarna sem eru frægir í dag í MMA heiminum. Ég man eftir Nick Diaz en hann var 15-16 ára kannski á þessum tíma. Diaz var með blátt belti þá. David Terrel skar sig úr hópnum en hann var líklega bestur fyrir utan Cesar.

Þegar ég frétti af því að Charles Gracie væri að byrja með skóla í Daly City þá færði ég mig strax þangað þar sem hann var á leið minni í vinnuna og var með hádegistíma. Ég var í um 6 ár þar og fékk þar blátt og fjólublátt belti. Það var mjög gott að æfa hjá Charles og Oliver Reich. Það voru nokkrir sem höfðu fært sig yfir frá Carley Gracie til Charles útaf einhverjum ágreining en þar á meðal var fyrrverandi UFC dómarinn Josh Rosenthal en þeir stoppuðu stutt. Þeir fengu að setja upp dýnur hjá World Gym en ég var meðlimur þar og notfærði mér það líka.

Oliver Reich hætti svo 2003 hjá Charles og ég var við það að hætta í BJJ vegna meiðsla en þá fann ég skóla Marco Nascimento’s og hef verið þar síðan 2004. Marco er duglegur við að fá nýja menn og læra nýjungar en hann hefur menn eins og Andre Galvao, Robson Moura, Marcelo Garcia og Eddie Bravo. Klúbbur Marco Nascimento kemur undan af Pitbull BJJ en Adilson “Bitta” Lima er stofnandi hans og er heimsfrægur sjöttu gráðu svart belti. Hann kemur tvisvar til þrisvar sinnum á ári og þjálfar.

Ég hef oft þurft að stoppa æfingar vegna skurðaðgerða en ég hef þurft uppskurð á hné, öxl, háls, axlarskipti og svo þurfti að spengja upp mjóhrygginn á mér. Ég ætlaði að hætta eftir þessar aðgerðir en ég var alltaf komin af stað 2-4 mánuðum seinna.

Hvernig þróaðist BJJ í þinni tíð í íþróttinni?

Mér finnst BJJ hafa þróast talsvert. Þegar ég byrjaði var það einfaldara. Ég hef mest æft í gi svo ég þekki ekki no gi þróunina. Það hafa bæst við alls konar hengingar t.d Brabo og margar útgáfur af loop hengingum. Eddie Bravo hafði líka heilmikil áhrif á íþróttina þó hann æfði no gi. Ég held þó að framfarir síðustu ára gagnist MMA ekkert sérlega vel þar sem sumar af þessum aðferðum opna fyrir mörg högg eða spörk en það er líklegast hægt að deila um það endalaust.

Hvaða skoðun hefuru á MMA?

Ég hef fylgst bæði með UFC og PRIDE frá byrjun og hef ánægju af. Í byrjun voru dómararnir ekki nógu vel að sér í Jiu-Jitsu og þá sérstaklega hér í Bandaríkjunum. Mér fannst PRIDE dómararnir betri, þeir þekktu gólfglímuna betur og leyfðu mönnum að athafna sig á gólfinu áður en þeir voru aðskildir. Að mínu mati finnst mér ekki að eigi að aðskilja keppendur eins fljótt og þeir gera stundum þó það sé auðvitað misjafnt eftir dómörum. Þegar þetta er gert kemur gólfglímumaðurinn alltaf verr út.

Í sambandi samt við umræðu sem hefur átt sér um ofbeldi eða hversu hættuleg íþróttin er þá sé ég enga ástæðu fyrir að hún sé hættuleg eða ofbeldisfull. Ég hef þó alltaf verið hræddur við “neck cranks” og finnst að það mætti endurskoða þær reglur. Viðkvæmar slagæðar geta rifnað innan frá eins og gerðist við Brian Johnson á sínum tíma.

Hefuru tekið þátt í mótum í BJJ?

Ég hef tekið þátt í innanhús mótum en aldrei eitthvað á stóra sviðinu.

Hefuru æft með þekktum BJJ iðkendum eða MMA iðkendum?

Já, ég hef æft eða hitt menn eins og Nick Diaz, Cesar Gracie, Rickson Gracie, Royce Gracie, Renzo Gracie, Andre Galvao og Robson Moura.

Eitthvað sem þú vilt segja að lokum?

Að lokum vill ég fá að taka fram hversu miklu Sigurður H. Jóhannsson og hans félagar áorkuðu miklu þegar hnefaleikar voru bannaðir á Íslandi árið 1957. Þeir fóru út fyrir landsteinana til þess að fá að stunda bardagaíþróttir og komu júdóinu af stað 1958.

Brynjar Hafsteinsson
Brynjar Hafsteinsson
-Greinarhöfundur -Félagsfræðinemi HÍ -MMA-spekingur frá 1999 -Sparkboxari
RELATED ARTICLES

2 COMMENTS

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular