Thursday, March 28, 2024
HomeErlentHvað er framundan hjá Conor McGregor?

Hvað er framundan hjá Conor McGregor?

Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.
Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.

Nú þegar meira en vika er síðan Conor McGregor sigraði Nate Diaz á UFC 202 er vert að pæla í hvað sé framundan hjá Íranum. Nokkrir möguleikar eru í boði fyrir hann og lítum við nánar á þá.

Við vitum að Nate Diaz hefur engan áhuga á að mæta neinum öðrum en Conor McGregor næst. Það er þó ólíklegt að þriðji bardaginn fari fram strax enda hefur Conor öðrum hnöppum að hneppa þessa stundina. Auk þess hefur Dana White, forseti UFC, útilokað að þriðji bardaginn á milli þeirra fari strax fram. En hvað gæti verið framundan hjá Conor McGregor?

Titilbardagi í léttvigt: Léttvigtarmeistarinn Eddie Alvarez hefur augljóslega áhuga á að mæta Conor McGregor enda veit hann að það er sá bardagi sem gefur honum mestar tekjur. Hann hefur látið Conor heyra það í fjölmiðlum til að vekja áhuga á bardaganum en það er nokkuð ljóst að Conor hefur auga á léttvigtartitlinum.

conor mcgregor jose aldo
Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.

Fjaðurvigtarbardagi gegn Jose Aldo: Dana White sagði nýlega að Conor þurfi að taka ákvörðun um hvort hann ætli að verja fjaðurvigtarbeltið eða ekki. Conor virðist ekki vera sérstaklega spenntur fyrir því að mæta Jose Aldo aftur þessa stundina og gæti þurft að láta fjaðurvigtarbeltið af hendi. Conor vill þó vera bæði léttvigtar- og fjaðurvigtarmeistari á sama tíma og gæti farið einu sinni enn í fjaðurvigtina. Þó Conor hafi rotað Aldo á 13 sekúndum í desember væri samt gaman að sjá þá mætast aftur í aðeins lengri bardaga.

Hollywood: Eftir bardagann gegn Nate Diaz kvaðst Conor McGregor eiga marga valmöguleika framundan og sumir tengjast ekki einu sinni MMA. Verði næsta skref Conor utan MMA gæti Hollywood hugsanlega verið á næsta leyti. Conor landaði hlutverki í myndinni xXx: The Return of Xander Cage en hætti við hlutverkið eftir tapið gegn Diaz til að einbeita sér að seinni bardaganum. Michael Bisping fékk hlutverkið hans en nú gæti Conor viljað prófa sig áfram í Hollywood.

WWE: Conor lét fjölbragðaglímuheiminn heyra það í aðdraganda bardagans gegn Nate Diaz. Margar stórar stjörnur í fjölbragðaglímunni svöruðu honum fullum hálsi á samfélagsmiðlum og vakti þetta mikla athygli í Bandaríkjunum. Kannski var þetta allt aðdragandi að einhvers konar uppákomu hjá Conor í fjölbragðaglímunni. John Kavanagh, yfirþjálfari Conor, fannst það þó ólíklegt.

Floyd Mayweather: Bardaginn sem allir utan MMA eru að tala um. Ólíklegt að af þessu verði en aldrei hægt að útiloka neitt nú þegar Conor er ekki með neinn augljósan bardaga framundan.

Ekki er vitað hvenær Conor muni berjast næst í UFC en vonir standa enn til að hann berjist í New York í nóvember. UFC heldur til New York í fyrsta sinn í nóvember eftir að MMA var lögleitt í ríkinu í ár. UFC er búið að lofa risa bardagakvöldi í New York og gætum við fengið að sjá stærstu stjörnu UFC á bardagakvöldinu. Bardaginn gegn Diaz var langur og strangur og kannski ólíklegt að hann vilji fara strax aftur að undirbúa sig fyrir næsta bardaga.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular