Friday, April 19, 2024
HomeErlentHverjir eru líklegastir til sigurs á ADCC?

Hverjir eru líklegastir til sigurs á ADCC?

Abu Dhabi Combat Club eða ADCC glímumótið fer fram núna um helgina, 23.-24. september. ADCC er talið eitt sterkasta uppgjafarglímumót heims og haldið annað hvert ár en hér förum við aðeins yfir mótið um helgina.

Að þessu sinni er mótið haldið í Espoo í Finnlandi en síðast fór mótið fram í Brasilíu. Það er erfitt að fá þátttökurétt á mótinu enda aðeins pláss fyrir þá 16 bestu í hverjum þyngdarflokki fyrir sig.

Af sætunum 16 í hverjum flokki velur ADCC átta keppendur og býður þeim á mótið. Þau eru valin vegna afreka sína, vinsælda og stíls í glímuheiminum. Gunnari Nelson var til að mynda tvisvar boðið á mótið árin 2009 og 2011. Keppt er um hin átta sætin þar sem í hverri heimsálfu eru haldnar tvær undankeppnir og fær sigurvegari þessa keppna farmiða á lokamótið.

Öll uppgjafartök á mótinu eru leyfð, sem gerir mótið virkilega spennandi og eykur skemmtanagildið. Reglurnar eru hannaðar þannig að keppendur þurfa ekki að einblína jafn mikið á stigin til að vinna heldur að „klára“ glímuna sem gerir mótið áhorfendavænna. Glímurnar eru tíu mínutur í heildina, fyrstu fimm mínúturnar eru stigalausar („sub only“) en stigin byrja að telja seinni fimm mínuturnar af glímunni.

Á laugardeginum er keppt í öllum þyngdarflokkum en keppt er í opnum flokki á sunnudeginum ásamt úrslitum hvers þyngdarflokks fyrir sig.

Hér að neðan má sjá stutta umfjöllun um hvern flokk fyrir sig, hverjir eru taldir sigurstranglegastir og hverjir gætu komið á óvart.

Karlar -66 kg

Þessi flokkur er fullur af hæfileikaríkum keppendum og mun bjóða upp á mjög tæknilegar glímur. Það verður gaman að fylgjast með hvernig núverandi meistara Rubens Charles ‘Cobrinha’ mun ganga á móti framtíðarstjörnum íþróttarinnar. Cobrinha vann Rafael Mendes í úrslitunum árið 2013 en Mendes hefur lengi verið talinn „pund fyrir pund“ besti glímumaður heims. Cobrinha tók svo aftur flokkinn árið 2015.

Einnig er vert að nefna menn eins og Augustu Mendes, Paulo Miyao, Bruno Frazatto og 10th planet stjörnuna Geovanny Martinez sem er svart belti undir Eddie Bravo. Geovanny Martinez hefur mjög óhefðbundinn og áhorfendavænan glímustíl en hann hefur verið að gera það gott í glímuheiminum undanfarið.

Sigurstranglegastir: Rubens Charles ‘Cobrinha’, Augustu Mendes, Paulo Miyao, Bruno Frazatto

Vert að fylgjast með: Geovanny Martinez, AJ Agazarm

Úrslit frá 2015:

Gull – Rubens Charles ‘Cobrinha’
Silfur – Bruno Frazatto
Brons – Augustu Mendes

Karlar -77 kg

Einn sterkasti flokkurinn í ár. Inniheldur menn eins og Garry ‘The Lion Killer’ Tonon, Lucas Lepri, JT Torres og DJ Jackson. Garry Tonon er ein skærasta stjarnan í glímuheiminum í dag og er virkur keppandi á mótum sem líkjast ADCC þar sem öll uppgjafartök eru leyfð. Hann er margfaldur Eddie Bravo Invitational (EBI) meistari, IBJJF Heimsmeistari brúnbeltinga án galla (Nogi) og á að baki fjölmarga sigra í ofurglímum (e. super fights). Hann æfir hjá Renzo Gracie Academy og er meðlimur í svo kallaða ‘Danaher Death squad’ en er það hópur af mönnum sem John Danaher þjálfar. Nafn hópsins byrjaði bara sem grín en endaði á að festast við þá. Meðlimir þessa hóps hafa sópað að sér verðlaunum undanfarið og er John Danaher einna þekktastur fyrir fótalásakerfið sem hann hefur þróað og hefur virkað vel fyrir marga keppendur hans.

Davi Ramos tók flokkinn árið 2015 en hann mun ekki keppa í ár þar sem hann er að einblína á MMA feril sinn. Davi Ramos vann Lucas Lepri í úrslitunum í fyrra en Lucas Lepri keppir aftur í ár og er mjög liklegur til að næla sér í gullið. Hins vegar er ekki hægt að horfa framhjá mönnum eins og JT Torres og DJ Jackson sem geta stolið senunni.

Sigurstranglegastir: Lucas Lepri, Garry Tonon, Dj Jackson, JT Torres.

Vert að fylgjast með: Felipe Cesar, Enrico Cocco

Úrslit frá 2015:

Gull – Davi Ramos
Silfur – Lucas Lepri
Brons – Gilbert Burns

Davi Ramos klárar Lucas Lepri 2015.

Karlar -88 kg

-88 kg flokkurinn er vægast sagt svakalegur og inniheldur menn með afar fjölbreytta glímustíla sem gerir flokkinn ennþá áhugaverðari. IBJJF stjarnan Leandro Lo mun keppa á ADCC í fyrsta sinn en hann hefur unnið til fjölda verðlauna á stigasniðnum mótum í galla. Það verður spennandi að sjá hvernig honum gengur á móti bestu uppgjafarglímumönnunum án gallans.

Það er annar maður að keppa í fyrsta sinn á ADCC, Gordon Ryan, en hann er æfingafélagi og lærlingur Garry Tonon. Gordon er 23 ára og algjört undrabarn í íþróttinni, aðeins búinn að æfa í 5 ár og kominn í hóp þeirra bestu. Gordon vann núverandi ADCC meistara, Yuri Simoes, í glímu án stiga í fyrra en Yuri mun keppa í -99 kg flokki þetta árið.

Það er erfitt að spá fyrir um hver endar uppi sem sigurvegari í flokknum en menn eins og Keenan Cornilous, Rustam Chsiev, Romulo Barral og Xande Ribeiro eru allir líklegir. Gordon Ryan hefur unnið mörg þessi nöfn á seinustu tveimur árum en til gamans má geta að þá kepptu hann og Keenan glímu með engum tímamörkum þar sem Gordon endaði á að ná Keenan í fótalás („heelhook“) eftir 90 mínútna glímu.

Sigurstranglegastir: Leandro Lo, Gordon Ryan, Rustam Chsiev

Vert að fylgjast með: Keenan Cornelius, Xande Ribeiro, Romulo Barral

Úrslit frá 2015:

Gull – Yuri Simoes
Silfur – Keenan Cornelius
Brons – Rustam Chsiev

Karlar -99 kg

Sigurvegarinn frá því í fyrra, Rodolfo Vieira, hefur snúið sér að MMA og mun ekki keppa í ár. Þrátt fyrir það eru fullt af stórum nöfnum þarna. Eins og áður kom fram keppir Yuri Simoes í þessum þyngdarflokki og er hann sigurstranglegastur í ár. Joao Assis (ADCC meistari 2013), Filipe Pena og Rafael Lovato Jr. munu hins vegar allir veita honum harða samkeppni. Sigurvegari fyrri undankeppnarinnar sem haldin var í Suður-Ameríku, Mahamed Aly, er 23 ára og á hraðri uppleið í íþróttinni. Það verður gaman að fylgjast með hvort hann nái að stríða þessum reynslumeiri glímumönnum. Þá má ekki gleyma Jake Shields en hann fékk boð á mótið. Jake Shields er gríðarlega sterkur glímumaður af gamla skólanum með rosalega góða pressu og reynslumikill. Hann hefur verið að æfa í Renzo Gracie Academy hjá John Danaher undanfarið og er alltaf líklegur til afreka.

Sigurstranglegastir: Yuri Simoes, Rafael Lovato Jr., Felipe Pena, Joao Assis

Vert að fylgjast með: Mahamed Aly, Jake Shields

Úrslit frá 2015:

Gull – Rodolfo Vieira
Silfur – Felipe Pena
Brons – Joao Assis

Karlar +99 kg

Það er alltaf gaman að horfa á flokkinn með stóru strákunum. Uppröðunin er ekki af verri endanum þetta árið. Meistarinn frá 2015, Orlando Sanchez, mætir aftur, margfaldur IBJJF heimsmeistari Marcus ‘Buchecha’ Almeida snýr aftur eftir að hafa verið meiddur síðast og sigurvegari opna flokksins á ADCC 2013 Roberto ‘Cyborg’ Abreu tekur þátt.

Buchecha og Cyborg kepptu í úrslitum opna flokksins árið 2013 í rosalegri glímu en þeir eru góðir félagar og æfa oft saman. Joao Gabriel Rocha, silfurverðlaunahafi opna flokksins 2015, átti að keppa en þurfti því miður að hætta við vegna hálsmeiðsla. Þá verður áhugavert að fylgjast með Vinny Magalhaes en hann er mikill renyslubolti. Vinny keppti á sínum tíma í UFC og er þekktur fyrir að hafa eitt hættulegasta „guardið“ í MMA þar sem að hann er mjög liðugur og fljótur að sækja í uppgjafartök þaðan.

Sigurstranglegastir: Orlando Sanchez, Marcus ‘Buchecha’ Almeida, Roberto ‘Cyborg’ Abreu

Vert að fylgjast með: Vinny Magalhaes, Tom DeBlass, Victor Honório

Úrslit frá 2015:

Gull – Orlando Sanchez
Silfur – Jared Dopp
Brons – Vinny Magalhaes

Konur -60 kg

Það er erfitt að nefna eitthvað annað nafn en meistarann frá 2015, Mackenzie Dern. Hins vegar hefur hún verið að eiga við meiðsli að stríða og fór í aðgerð á hné á árinu sem gæti haft áhrif á frammistöðu hennar. Hún er tvöfaldur IBJJF heimsmeistari í galla, ADCC meistari og IBJJF heimsmeistari án gallans svo eitthvað sé nefnt. Bianca Basilio, 21 árs svartbeltingur vann undankeppnina í Suður-Ameríku, en hún er gríðarlega efnileg og gæti stolið senunni. Aðrar sem eru líklegar til afreka eru Beatriz Mesquita, Michelle Nicolini og Rikako Yuasa.

Sigurstranglegust: Mackenzie Dern

Vert að fylgjast með: Bianca Basilio, Beatriz Mesquita, Michelle Nicolini, Rikako Yuasa

Úrslit frá 2015:

Gull – Mackenzie Dern
Silfur – Michelle Nicolini
Brons – Tammi Musumeci

Konur +60 kg

Þarna er eiginlega bara ein sem kemur til greina sem sigurvegari og er það Gabi Garcia. Meistarinn frá því í fyrra, Ana Laura Cordeiro, keppir ekki og eru Marysia Malyjasiak og Talita ‘Treta’ Nogueira líklegastar til að veita Gabi einhverja samkeppni.

Sigurstranglegust: Gabi Garcia

Vert að fylgjast með: Marysia Malyjasiak og Talita ‘Treta’ Nogueira

Úrslit frá 2015:

Gull – Ana Laura Cordeiro
Silfur –Jessica Oliveira
Brons – Gabi Garcia

Einnig eru þrjár ofurglímur en þar mætast fyrrum ADCC meistarar og goðsagnir úr bardagaheiminum.

Andre Galvao gegn Claudio Calasans
Chael Sonnen gegn Leo Vieira
Renzo Gracie gegn Sanae Kikuta

Það ætti enginn alvöru glímuáhugamaður að láta þetta mót framhjá sér fara en hægt verður að horfa á mótið inn á Flograppling.com. Til að horfa þarf að gerast áskrifandi af FloGrappling en það kostar 20 dollara á mánuði eða 150 dollara ársgjaldið. Ekki þarf að borga aukalega fyrir ADCC mótið.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular