Friday, March 29, 2024
HomeErlentHverjir eru möguleikar Conor og UFC?

Hverjir eru möguleikar Conor og UFC?

conor mcgregor go bigEins og við greindum frá áðan hefur Rafael dos Anjos dregið sig úr bardaganum gegn Conor McGregor vegna meiðsla. UFC er eflaust í þessum töluðu orðum að velta fyrir sér hvað skal gera með Conor McGregor og UFC 196 en hér eru möguleikarnir.

UFC 196 er eftir aðeins nokkra daga og því knappur tími til stefnu fyrir UFC að finna nýjan andstæðing. Hér höfum við þó útlistað þá möguleika sem eru í stöðunni fyrir Conor McGregor að okkar mati.

Donald Cerrone: Að margra mati er þetta líklegasti andstæðingur McGregor ef hann berst á UFC 196. Cerrone sigraði Alex Oliveira á sunnudagskvöldið eftir aðeins hálfa lotu og ætti því að vera nokkuð ferskur. Bardaginn fór hins vegar fram í veltivigt og spurning hvort fyrirvarinn sé of stuttur fyrir léttvigtarbardaga. Þeir Cerrone og McGregor gætu kannski mæst í hentivigt (e. catchweight). Cerrone virðist þó alltaf vera til í bardaga og báðir hafa þeir verið duglegir að drulla yfir hvorn annan í fjölmiðlum.

Umboðsmaður Cerrone hefur sagt að hann sé til í að mæta Conor McGregor á UFC 196.

Nate Diaz: Vandræðagemlingurinn Nate Diaz þykir einnig líklegur andstæðingur fyrir McGregor. Diaz hefur, líkt og Cerrone, átt í orðaskiptum við McGregor á samfélagsmiðlum og í fjölmiðlum og gæti verið skemmtilegur kostur. Diaz er einn af þeim fáu sem gæti staðið McGregor jafnfætis þegar kemur að skítkasti í garð andstæðingsins og gætu blaðamannafundirnir orðið áhugaverðir ef UFC setur Diaz í bardagann. Eins og með Cerrone er óvíst hvort að Diaz gæti komist í 155 punda léttvigtartakmarkið með svona skömmum fyrirvara.

Frankie Edgar: Einhverjir vilja sjá Frankie Edgar fá sitt tækifæri gegn McGregor. Edgar á að margra mati skilið að fá titilbardaga gegn honum í fjaðurvigtinni en hann hefur sigrað fimm bardaga í röð. Samkvæmt umboðsmanni hans er Edgar hins vegar meiddur og gæti ekki barist.

Jose Aldo
Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.

Jose Aldo: Fyrrum fjaðurvigtarmeistarinn Jose Aldo vill ólmur fá annan bardaga gegn McGregor eftir að hafa verið rotaður af honum eftir aðeins 13 sekúndur í desember. Hann virðist þó ekki vera týpan til að taka bardaga með skömmum fyrirvara og verður að teljast ólíklegur kandídát þessa stundina.

Mun UFC bíða með McGregor? Versti kosturinn er hins vegar sá að UFC ákveði að fresta bardaga McGregor og dos Anjos og Írinn skemmtilegi verði því ekki á UFC 196. McGregor er stærsta peningamaskína UFC og var búist við að McGregor og dos Anjos hefðu skilað inn miklum tekjum í kassann fyrir UFC. Kannski vill UFC ekki hætta á að McGregor tapi og ætli því að setja McGregor á hilluna þangað til dos Anjos verður heill.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular