Saturday, April 20, 2024
HomeForsíðaInga Birna: Var kannski aðeins of kurteis í bardaganum

Inga Birna: Var kannski aðeins of kurteis í bardaganum

inga birna
Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson

Inga Birna Ársælsdóttir keppti á Evrópumótinu í Birmingham á dögunum. Þetta var fyrsti bardaginn hennar í MMA og naut hún reynslunnar til hins ýtrasta.

Inga keppti við hina finnsku Varpru Rinnen sem sigraði eftir dómaraákvörðun. „Eftir bardagann vissi ég að bardaginn hefði verið nokkuð jafn. Hún hafði samt haldið mér svolítið upp við búrið svo ég vissi í rauninni að ég hefði tapað á dómaraúrskurði. Ég gat samt ekki annað en brosað út af eyrum því þetta var það skemmtilegasta sem ég hef gert. Það eina sem ég hugsaði var í raunninni bara hvað þetta hefði verið frábær reynsla og ég gæti ekki beðið eftir að gera þetta aftur,“ segir Inga Birna.

Fyrir mótið var Sunna Rannveig eina íslenska konan sem hafði keppt í MMA og er Inga því aðeins önnur íslenska konan sem keppir í íþróttinni.

Finnska stelpan var sterkur keppandi enda stóð hún uppi sem sigurvegari í flokknum. „Mér leið rosalega vel allan tímann í bardaganum.  Ég var mjög róleg allan bardagann og þó svo bardaginn hafi farið allar þrjár loturnar hefði ég þess vegna getað farið þrjár lotur í viðbót. Þó svo ég komi meira frá glímubakgrunni leið mér vel alls staðar í bardaganum, hvort sem það var í gólfinu eða standandi.“

Eins og áður segir var þetta fyrsti bardagi Ingu í MMA og lærði hún gríðarlega margt af bardaganum. „Það sem ég lærði af bardaganum var í rauninni það hversu mikið mér finnst ég eiga heima inn í búrinu. Mér fannst frábært hversu vel mér leið og fannst ég hafa staðið mig vel miðað við fyrsta bardaga. Ég var bæði mjög létt í mínum flokk og fór á móti sterkum andstæðing en stóð mig vel. Eftirá að hyggja var frábært að fara allar þrjár loturnar og gat sýnt góða tækni og leið vel.  Það eina sem ég gæti sagt eftirá að hyggja að ég var kannski aðeins of kurteis í bardaganum en það er auðvitað bara partur af því að þetta sé mín fyrsta upplifun af þessu. Næst hleypi ég dýrinu í mér örlítið meira út,“ segir Inga og hlær.

„Það var virkilega skemmtilegt að vera á mótinu alla dagana og virkilega þægilegt og gott umhverfi. Enn og aftur sýndi það sig í þessu sporti hversu miklir íþróttamenn allir eru með því hversu gott andrúmsloft var á mótsstað. Frábært fyrir liðið okkar að fara á svona mót bæði fyrir okkur sem vorum að keppa og þjálfarana okkar. Ég er viss um að liðið okkar eigi eftir að styrkjast alveg heilan helling með þessa reynslu í bankanum og er það nú samt frábært fyrir.“

inga birna
Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson

Inga Birna hefur áður keppt í brasilísku jiu-jitsu og segir að spennustigið hafi verið ólíkt því sem hún þekkir úr glímunni. „Ég hef eytt miklum tíma og vinnu í andlegu hliðina hjá mér og fannst mér það hafa skilað sér virkilega vel. Spennan er öðruvísi að því leytinu til að þetta er auðvitað harðgerðara en BJJ og allt öðruvísi í raun og veru. Þú þarft að vera viðbúinn hverju sem er og eru margir þættir sem þú þarft að hafa æft vel. Auðvitað fann ég fyrir spennu fyrir bardagann og held ég að það væri mjög óeðlilegt að finna það ekki. Það er samt það sem er svo frábært við sportið er hversu mikið þú þarft að hlúa að og díla við andlegu hliðina. Um leið og spennan fór að koma ræddi ég það við liðsfélagana, þjálfara og maka. Með því að tala um það og deila tilfinningum nær maður að miðja sig aftur. Um leið og ég var kölluð inn í keppnina hvarf allt og ég var með fullkomna einbeitingu og ró.“

Það geta ekki allir sagst hafa keppt MMA bardaga en Inga ætlar ekki að láta þar við sitja. „Tilfinningin að keppa í MMA er engu lík, maður áttar sig ekki á því fyrr en maður prófar það. There is no turning back núna, þetta er bara það sem ég vil gera eftir að hafa prufað þetta. Get ekki beðið eftir að fara að æfa, bæta mig og koma sterkari til baka næst,“ segir Inga ákveðin.

Við þökkum Ingu kærlega fyrir viðtalið og hlökkum til að sjá hana keppa aftur í framtíðinni.

Sjá einnig:

Sunna Rannveig: Óraunverulegt að standa á verðlaunapallinum 

Bjarki Ómarsson: Langar strax aftur út að keppa

Pétur Jóhannes: Er að þessu til að skora á sjálfan mig

Hrólfur Ólafsson: Get gert svo mikið betur

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular