Thursday, March 28, 2024
HomeForsíðaJón Viðar: Andstæðingur Egils sagðist ekki vera með far

Jón Viðar: Andstæðingur Egils sagðist ekki vera með far

Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.
Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.

Þeir Bjarki Ómarsson og Hrólfur Ólafsson börðust í Liverpool í gær. Upphaflega áttu bardagarnir að vera þrír en andstæðingur Egils mætti ekki. Við fengum að heyra í Jóni Viðari Arnþórssyni og fá nánari útskýringu á bardögunum og óheppni Egils.

Jón Viðar, forseti Mjölnis og einn af þjálfurum Keppnisliðs Mjölnis, er staddur í Liverpool þar sem bardagarnir fóru fram.

Bjarki Ómarsson kláraði sinn bardaga eftir aðeins 19 sekúndur. „Gaurinn sem hann fór á móti var svolítið villtur. Bjarki tók sér nokkrar sekúndur í að finna sig í búrinu,“ segir Jón Viðar.

„Bjarki feikaði lágspark með hægri og sparkaði svo hátt með vinstri sem hitti vel. Þetta er spark sem hann er búinn að vera að æfa. Hann fylgdi því svo eftir með hringsparki sem lenti ekki alveg clean, lenti með kálfanum. En gæjinn missti jafnvægið við það og skaust aftur fyrir sig, góður kraftur í sparkinu og svo kláraði Bjarki bardagann með höggum í gólfinu. Bjarki er mjög góður að sparka og frábært að sjá hann ná svona spörkum í bardaga.“

Þetta var tíundi bardagi hins 21 árs Bjarka og var hann að vonum ánægður með þetta. „Bjarki er alveg í skýjunum með þetta. Hann var pínu stressaður fyrir bardagann en var mjög ánægður í gær eftir bardagann.“

Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.
Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.

Hrólfur Ólafsson mætti sterkum andstæðingi í gær og tapaði eftir dómaraákvörðun. „Þetta var bara drullu góður bardagamaður sem Hrólfur mætti. Maður sá það strax. Bróðir hans er í UFC [Leon Edwards] og hann var töluvert stærri og þyngri en Hrólfur,“ segir Jón Viðar.

„Hrólfur fann strax að hann var mjög höggþungur og sterkur. Hrólfur náði haussparki  í 1. lotu og tók hann svo niður. Hann var kominn með rear naked choke þegar lotan kláraðist. Hann hefði ekki þurft nema nokkrar sekúndur í viðbót, þá hefði hann klárað þetta. Hrólfur heyrði að hann var að kafna og var við það að fara að tappa út þegar bjallan hringdi.“

„Í 3. lotu fékk Hrólfur yfirhandar vinstri sem vankaði hann smá. Hrólfur ætlaði að skjóta inn í fellu en gæjinn sá það og stökk með flying knee. Hrólfur reyndi að halda áfram en tókst ekki. Hnéð fór beint framan í andlitið á honum. Hann er samt í þokkalegu standi í dag, með smá hálsríg en alltaf erfitt að tapa.“

„Hrólfur ætlar aftur niður í 77 kg flokkinn. Þetta eru of stórir gæjar þarna í millivigtinni [84 kg]. Hrólfur stóð sig mjög vel samt en þetta er örugglega einn erfiðasti andstæðingurinn sem við höfum fengið í amateur.“

Egill vonsvikinn.
Egill vonsvikinn.

Egill Øydvin átti líka að keppa í gær en eins og við greindum frá í gær ákvað andstæðingurinn að mæta ekki. „Þegar við mættum í höllina í gær tilkynntu þeir [aðstandendur bardagakvöldsins] okkur að andstæðingurinn myndi ekki mæta. Hann hringdi í þá fyrr um daginn og var eitthvað að spurja hvort Egill væri nokkuð góður. Spurði hvort hann væri að æfa með Conor og virtist hafa áhyggjur. Þá sagðist hann allt í einu ekki komast. Hann væri ekki með far en hann býr í klukkutíma fjarlægð frá höllinni. Þeir sögðu honum bara að taka leigubíl og að þeir myndu borga hann en hann hefur ekkert látið heyra í sér síðan þá. Hann var bara skíthræddur og hætti við.“

„Það er ekkert grín að lenda í svona. Egill er búinn að vera í svakalegum niðurskurði undanfarnar vikur. Það er búið að borga flug út og hótel, hann þurfti að fá frí í vinnunni og auðvitað mikil vinna á bakvið einn svona bardaga. Það er ömurlegt að lenda í svona.“

„Síðar um kvöldið fréttum við að því að hann væri búinn að bóka annan bardaga eftir tvær vikur gegn andstæðingi sem Egill vann í fyrra.“

„Egill var brjálaður þegar hann frétti þetta. Shinobi bauð honum pening en Egill afþakkaði. Hann vildi bara fá að berjast,“ segir Jón Viðar að lokum. 

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular