Thursday, March 28, 2024
HomeForsíðaJón Viðar: Gæti verið erfitt að halda Santiago niðri eins og gegn...

Jón Viðar: Gæti verið erfitt að halda Santiago niðri eins og gegn Rick Story

Jón Viðar Arnþórsson, formaður Mjölnis og einn af þjálfurum Gunnars, vonar að Gunnar klári þetta snemma annað kvöld. Gunnar mætir Argentínumanninum Santiago Ponzinibbio í aðalbardaga kvöldsins í Glasgow annað kvöld.

Gunnar hefur unnið tvo bardaga í röð og klárað þá báða í 2. lotu. Standandi hefur Gunnar litið mjög vel út í síðustu tveimur bardögum en eigum við von á að sjá eitthvað nýtt frá Gunnari gegn Ponzinibbio?

„Það gæti verið já,“ segir Jón Viðar og hlær. „Hann er búinn að vera að æfa svolítið skrokkhöggin, þannig að hann gæti alveg laumað inn grjóthörðu skrokkhöggi og væri gaman að sjá það. Annars er hann bara með svipað standup og hann hefur verið með. Mjög góða fótavinnu, góða fjarlægð, geðveikan hraða inn og blandar spörkunum með. Skrokkhöggin eru svona ágætlega ný og er hann búinn að slá nokkra niður á æfingum með þeim.“

Standandi mun Gunnar annað hvort halda sér alveg frá Ponzinibbio eða vera alla leið inni í „clinchinu“. „Það er ekkert sniðugt að vera þarna á milli eða í vasanum. Hann fýlar ekki að vera þar. Það getur hver sem er hitt óvart þar og það er alltaf svo mikil áhætta í þessu sporti með svona litla hanska. Miklu öruggara að halda sér alveg fyrir utan og vera snöggur inn eða alveg upp við andstæðinginn. Það svona svipað og við látum allt Keppnisliðið okkar gera, erum að vinna með eitt til tvö hröð högg inn í einu.“

„Það er svo stutt á milli höggann hjá Gunna. Hann tekur eitt ógeðslega hratt meira til að trufla og svo lendir aftari höndin bara örstuttu augnabliki seinna. Við æfum mikið að slá í hönd andstæðingsins og það var eitthvað sem hann gerði við Jouban þegar hann sló hann niður.“

Mike Brown, þjálfari Santiago Ponzinibbio, sagði við okkur fyrr í vikunni að hann sjái marga veikleika hjá Gunnari. „Ég og John Kavanagh vorum að tala um þetta í fyrradag og hlógum að þessu. Það væri gaman ef hann gæti nefnt einn. Algjört bull.“

Sjá einnig: Mike Brown – Sjáum marga veikleika hjá Gunnari

Santiago Ponzinibbio er hættulegur standandi, með þung högg í hröðum fléttum og góð lágspörk. Það eru þó ekki lágspörkin sem Jón Viðar hefur áhyggjur af ef bardaginn dregst á langinn. „Ef þetta dregst á langinn hef ég helst áhyggjur af scramblinu hans, hann er svo góður að komast hratt upp.“

„Ef þeir verða orðnir mjög sveittir í 3. eða 4. lotu gæti verið erfitt fyrir Gunna að halda honum niðri, þ.e.a.s. ef Gunni nær honum niður seint í bardaganum, sem er ekki sjálfssagt. Það gæti verið erfitt að halda honum niðri eins og gegn Rick Story. Ég hef mestar áhyggjur að þetta verði bara svitabað og vona því að hann klári þetta bara í lok 1. lotu eða byrjun 2. lotu.“

„Þetta gæti orðið mjög erfitt ef Gunni verður þreyttur við það að reyna að taka hann niður og þá fari Ponzinibbio að hitta og pressa Gunna. Gunni má bara ekki leyfa honum að skera búrið og króa sig af þar.“

Það er ekki bara Gunnar sem berst þessa helgi þar sem Sunna Rannveig Davíðsdóttir berst í Kansas í kvöld. Með Sunnu í för eru þeir Bjarki Þór Pálsson og Árni Ísaksson en þeir verða henni til halds og trausts í horninu í kvöld. Sunna mætir Kelly D’Angelo á Invicta FC 24 í kvöld og segir Jón Viðar að það sé erfitt að vera ekki í Kansas.

„Það er glatað að vera svona fjarri þessu, alveg illa glatað. Er aðeins búinn að tala við Bjarka Þór og hana líka en heyri í þeim rétt fyrir bardagann á eftir. En það gengur allt mjög vel enda eru þeir báðir frábærir, Bjarki og Árni. En mjög erfitt að vera ekki í horninu hjá henni, búinn að vinna með henni svo lengi. Ég efa að niðurskurðurinn hafi verið mikið mál hjá henni. Hún er orðin svo sjóuð í þessu, er búin að vera með flott matarplan síðustu þrjá bardaga og þetta er bara allt solid hjá henni.“

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular