Thursday, April 18, 2024
HomeErlentKemur Conor öðruvísi til leiks eftir gjörbreyttar áherslur í æfingabúðunum?

Kemur Conor öðruvísi til leiks eftir gjörbreyttar áherslur í æfingabúðunum?

Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.
Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.

UFC 202 fer fram um helgina þar sem þeir Conor McGregor og Nate Diaz mætast í aðalbardaga kvöldsins. Eftir tapið í mars hefur Conor McGregor breytt ýmsu í sínum undirbúningi.

Upphaflega átti Conor McGregor að mæta Rafael dos Anjos á UFC 196 þann 5. mars. Dos Anjos meiddist hins vegar og kom Nate Diaz inn með aðeins 11 daga fyrirvara. Þrátt fyrir skamman fyrirvara tókst Diaz að sigra Conor með hengingu í 2. lotu. Nú þegar þeir mætast aftur er Conor staðráðinn í að ná fram hefndum.

Undirbúningurinn fyrir seinni bardagann gegn Nate Diaz hófst í Dublin, hélt áfram á Íslandi eins og frægt er orðið en síðustu vikur hefur liðið dvalið í Las Vegas. Upphaflega átti bardaginn auðvitað að vera á UFC 200 og því hefur undirbúningurinn staðið yfir í lengri tíma. Þann 5. júlí hélt liðið til Las Vegas þar sem Conor lét setja upp sérstaka æfingaaðstöðu fyrir sig og þá hefur hann einnig æft í aðstöðunni þar sem The Ultimate Fighter þættirnir eru teknir upp.

John Kavanagh og SBG liðið í Dublin hefur ávallt einbeitt sér að sínu og ekki æft með ákveðinn andstæðing í huga. Það hefur gagnast bardagaklúbbnum vel enda liðið þekkt fyrir það á Írlandi að koma inn með skömmum fyrirvara á hinum ýmsu bardagakvöldum þar í landi. Einnig hefur Conor nokkrum sinnum fengið nýjan andstæðing í UFC með skömmum fyrirvara svo sem Chad Mendes, Diego Brandao og áðurnefndan Nate Diaz.

Sú stefna hefur þó breyst hjá John Kavanagh fyrir þennan bardaga. Kavanagh var tilbúinn að breyta til fyrir þennan bardaga og láta æfingabúðirnar snúast um að undirbúa Conor sem best fyrir Nate Diaz. Nate Diaz hefur heldur aldrei þurft að hætta við að berjast sökum meiðsla í UFC. Conor hefur því fengið til sín ákveðna bardagamenn til að hjálpa sér við undirbúninginn.

conor dillon danis

Dillon Danis: Svartbeltingur í brasilísku jiu-jitsu undir Marcelo Garcia en Garcia er af mörgum talinn einn besti glímumaður allra tíma. Hinn 23 ára Danis var heimsmeistari brúnbeltinga áður en hann fékk svarta beltið í fyrra. Conor fékk Danis til sín í Dublin og hefur verið að æfa með honum í þó nokkra mánuði. Danis hefur einnig verið með liðinu í Las Vegas.

conor robbie hageman

Robbie ‘The Rabbit’ Hageman: Sparkboxari frá Hollandi sem hefur áður æft með Conor í Dublin. Conor fékk Hageman til sín dagana 8. til 28. júní og verður áhugavert að sjá hvort að Conor komi til með að nota ekta hollensk lágspörk gegn Diaz. Þess má geta að Hageman var þjálfaður af hinum goðsagnarkennda sparkboxara Ramon Dekkers og hefur barist víðs vegar um heiminn.

conor connor wallace

Conor Wallace: Tvítugi Írinn er sexfaldur Írlandsmeistari í boxi. Hann er hávaxinn og grannur og berst úr örvhentri stöðu og er það engin tilviljun að sú lýsing minnir einmitt á Nate Diaz. Wallace æfði bæði með Conor í Dublin og hefur dvalið í Las Vegas í æfingabúðunum þar.

Conor hefur fengið alla þessa menn til að aðstoða sig við undirbúninginn og auðvitað notað gömlu góða æfingafélagana. Samkvæmt heimildum MMA Frétta eru flestir æfingafélagar hans þessa dagana hávaxnir og berjast úr örvhentri stöðu. Þá hefur Conor lagt aukna áherslu á þolæfingar enda varð hann fljótt þreyttur í fyrri bardaganum en Diaz bræðurnir eru þekktir fyrir gríðarlega gott þol.

Önnur breyting á æfingabúðunum er sú að í þetta sinn er talsvert meira skipulag á hlutunum. Áður fyrr vaknaði Conor hvenær sem er, fór á æfingu, borðaði og æfði svo aftur þegar honum hentaði og oft afar seint á kvöldin. Núna er meira skipulag á æfingaplaninu.

Þessar æfingabúðir hafa ekki verið ókeypis en á blaðamannafundinum á föstudaginn sagði Conor að æfingabúðirnar hefðu kostað um 300.000 dollara.

En mun hann koma öðruvísi til leiks eftir allar þessar breytingar? Munu allar þessar breytingar skila árangri? Það er eitthvað sem við fáum ekki að vita fyrr en á laugardaginn þegar bardaginn fer fram.

UFC 202 fer fram á laugardaginn og hefst aðalhluti bardagakvöldsins kl. 2 á Stöð 2 Sport.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular