Saturday, April 20, 2024
HomeForsíðaKókaín kannski ekki eina vandamál Jones

Kókaín kannski ekki eina vandamál Jones

jones_cormier vigtunSíðan þær fréttir bárust fyrr í vikunni að Jon Jones, léttþungavigtarmeistari UFC, hefði fallið á lyfjaprófi, hafa ýmsar sögur og hliðar á málinu komið upp. Það sem er alvarlegast er að Jones gæti verið sekur um meira en bara kókaínneyslu, ef marka má niðurstöður lyfjaprófa hans. Í tilraun til að greiða úr þessu flókna máli skulum við rekja söguna frá byrjun.

Merki um neyslu annars en bara kókaíns

Jon Jones kom heim frá Brasilíu til Albequerque í Nýju-Mexíkó snemma í desember og þann fjórða þess mánaðar gaf hann íþróttaeftirliti Nevada þvagsýni fyrir lyfjapróf. Tekin voru tvo próf, því hið fyrra var „þunnt“, en bæði voru jákvæð fyrir niðurbrotsefni kókaíns.

Þó mikið sé gert úr kókaínneyslunni, sem er vissulega áhyggjuefni, þá er það ekki endilega það fréttnæmasta í þessu máli. Það skiptir ekki síður máli hvernig tekið var á málinu og hvað annað kom í ljós í lyfjaprófunum.

Hlutfall testósteróns á móti epitestosteróni hjá Jones er mjög óeðlilegt. Í fyrsta prófinu var hlutfall testósteróns á móti epitesósteróni 0.29:1, en eðlilegt er að hlutfallið sé um 1:1, þó það sé ekki alveg algilt. Þetta hlutfall segir hvers mikið testósterón er í líkamanum í samanburði við epitestósterón, en ekkert um hversu mikið testósterón er beinlínis í líkamanum.

12.04 test 1
Þetta er fyrsta lyfjaprófið sem Jones tók 4. desember. Þetta var talið of “þunnt” sýni.
12.04 test 2
Hér er próf númer tvö frá 4. desember.

Svo lágt hlutfall testósteróns skýrist yfirleitt annað hvort af heilsufarsvandamáli (sem er ólíklegt í tilviki Jones, því hann er afburðaíþróttamaður) eða af því að líkaminn sé að venjast því að fá ekki utanaðkomandi testósterón.

Þeir sem nota testósterón í íþróttum nota það yfirleitt í skamman tíma í einu en á meðan minnkar eðlileg testósterónframleiðsla líkamans. Þegar notkuninni er hætt þarf líkaminn svo tíma til að vinna sig aftur upp í eðlilega testósterónframleiðslu og á meðan er hlutfall testósteróns í samaburði við epitestósterón lágt. Sumir ná eðlilegri testósterónframleiðslu aftur eftir nokkrar vikur, aðrir aldrei, en það fer eftir notkuninni.

Samkvæmt prófinu er testósterónmagn Jones 180ng/dl, en eðileg mörk fyrir fullorðinn karlmann eru milli 350- 1000 ng/dl. Fyrir afburðaíþróttamann er þetta því afar skrítin tala, hann nær ekki nema um helmingi af neðri mörkum eðlilegs magns. Miðað við aldur hans og afrek í íþróttum mætti ætla að hann væri með mikið magn testósteróns, frekar en að hann sé með náttúrulega lágt testósterón. Það er í það minnsta mjög óeðlilegt að þetta sé svo lágt.

Victor Conte þekkir lyfjanotkun í íþróttum vel segir að niðurstöðurnar séu grunsamlegar. Hann hafði m.a. þetta um málið að segja.

Frekari vísbendingar í seinna prófi

Þann 18. desember fór Jones aftur í lyfjapróf og í það skiptið fundust engin merki um kókaín. Framkvæmdastjóri íþróttaeftirlits Nevada-fylkis, Bob Bennett, heldur því fram að Jones hafi ekki verið prófaður fyrir kókaín í seinna skiptið og segir enn fremur að það hafi aldrei átt að leita að kókaíni í sýni Jones – það hafi verið mistök. Ástæðan er sú að samkvæmt reglunum sem UFC fylgir er kókaín ekki bannað nema það sé tekið 12 tímum fyrir eða eftir bardaga. Á skjölum frá seinna lyfjaprófinu stendur að leitað hafi verið að niðurbrotsefnum kókaíns en Bennett segir það skriffinskumistök.

Í þessu seinna prófi var hlutfall testósteróns í samanburði við epitestósterón enn lægra en áður og var 0.19:1. Þetta er ekki bara óeðlilega lágt, eins og fyrra prófið, heldur er líka um umtalsverða breytingu frá fyrra prófinu að ræða. Það er samt rétt að taka fram að þvagsýni er ekki áreiðanlegasta leiðin til að mæla testósterón, til þess þarf blóðsýni.

Það er líka athugavert að í þessu prófi var Jones með testósterónmagnið 490 ng/dl, sem er ekki óeðlilega hátt, en samt 2,7 sinnum hærra en hann hafði tveimur vikum fyrr. Á sama tíma hefur magn epitestósteróns líka hækkað frá 6.1 ng/ml í 27 ng/ml, sem er 4,4 sinnum meira en tveimur vikum fyrr. Það er algengt meðal íþróttamanna að epitestósterón sé hækkað til að fela aukningu á testósterónmagni og halda þannig hlutfallinu innan eðlilegra marka. Það er þó ómögulegt að segja hvort Jones sé sekur um það.

Ekkert athugavert?

Það er áhugavert að íþróttaeftirlit Nevada hafi ekki kannað þessar óeðlilegu tölur nánar. Leyfilegt hámarkshlutfall testósteróns í samanburði við epitestósterón er 6:1 svo það þarf mjög óeðlilega mikið magn testósteróns til að falla á prófi bara vegna hlutfallsins. En svona lágar tölur ætti líka að grandskoða því þær gefa sterka vísbendingu um ólöglega lyfjanotkun eða alvarleg veikindi, hið fyrra er líklegra þegar kemur að íþróttamönnum sem keppa á hæsta stigi.

Íþróttaeftirlitið gæti framkvæmt CIR próf (Carbon Isotope Ratio) á sýnum sem þeir hafa geymt frá því í desember. Það ætti að geta skorið úr um það hvort Jones notaði ólögleg lyf til að auka testósterón. Slík próf eru dýr og yfirleitt bara framkvæmd þegar jákvæðri svörun á lyfjaprófi er mótmælt. Það eru því ekki góðar líkur á að þetta verði gert.

Mikið í húfi og hann braut ekki reglur

Á Þorláksmessu fékk íþróttaeftirlit Nevada niðurstöðurnar úr lyfjaprófinu sem framkvæmt var 4. desember og sýndi það niðurbrotsefni kókaíns. UFC var tilkynnt um niðurstöðurnar, en Jones fékk sjálfur ekki að vita af þessu fyrr en tveimur dögum eftir bardagann þegar UFC lét hann vita.

Tæknilega séð braut Jones ekki reglur um lyfjanotkun því prófið fór fram utan keppnis og afþreyingarlyf eru ekki bönnuð þar. „Í keppni“ er skilgreint sem tímabilið 12 tímum fyrir og eftir bardagann. Því var ekkert gert til að stöðva bardagann.

Jones og Cormier voru svo prófaðir aftur kvöldið sem bardaginn fór fram, en niðurstöður prófsins hafa ekki enn verið birtar.

Það er skiljanlegt að bæði UFC og íþróttaeftirlit Nevada vilji fela þessar niðurstöður. Engar reglur voru brotnar svo UFC þarf ekki að bregðast við og þetta lítur illa út. Það vildi til að blaðamaður óskaði eftir skjölunum frá þessum lyfjaprófum en það eru opinber gögn. Án þess hefði þetta kannski aldrei komið í ljós.

Byrjun ársins 2015 er mikilvæg fyrir UFC. Lánshæfismat Zuffa, fyrirtækisins sem á UFC, var nýlega lækkað, risa samningur við Reebok er að fara í gang á árinu og margar stærstu stjörnur UFC hafa lagt hanskana á hilluna eða verið frá vegna meiðsla. UFC vill því ekki neikvæða umfjöllun um stærstu stjörnuna sína.

Íþróttaeftirlit Nevada og UFC eru með sterk innanbúðartengsl og auk þess hefur íþróttaeftirlitið hag af því að fæla UFC ekki frá með því að vera of strangir. Því fleiri viðburði sem UFC heldur í Nevada, þeim mun meiri tekjur skapar það fyrir íþróttaeftirlit Nevada. UFC getur vel haldið viðburði sína annars staðar en í Las Vegas ef íþróttaeftirlitið gerir þeim erfitt fyrir.

Regluverk WADA og hegðunarreglur UFC

Jones braut þó augljóslega hegðunarreglur UFC. Þrátt fyrir það virðist UFC ekki ætla að refsa Jones á neinn hátt, þvert á móti sagðist Dana White, forseti UFC, stoltur af því að Jones hefði farið í meðferð.

Eins og áður sagði braut Jones ekki neinar aðrar reglur fyrst hann gerðist ekki sekur um neyslu afþreyingarlyfs á keppnistíma né notkun ólöglegra lyfja til að bæta frammistöðu sína. En mjög oft fylgja keppnisbönn, sektir og ógildingar á bardögum í kjölfar falls á lyfjaprófi og því hafa margir furðað sig á því að þetta hafi engar afleiðingar aðrar en þær að hann fer í meðferð.

Allt virðist það velta á því að hann var utan keppni þegar hann notaði afþreyingarlyf. Vegna þess gæti verið að það hafi einfaldlega ekki verið lagaleg stoð fyrir því að banna honum að keppa. Þessu hefur m.a. verið haldið fram af Kevin Iole,  blaðamanni Yahoo Sports, en hann fjallaði fyrstur um lyfjapróf Jones. Iole segir:

„Íþróttaeftirlitið í Nevada gerði ekkert af því að það hafði ekki lagalegan rétt til að gera neitt. Punktur. Nevada fylgir reglum WADA (World Anti-Doping Agency) og í reglum þess fyrir árið 2015 er gerður skýr og mikilvægur greinamunur á prófum utan keppni og í keppni.“

Iole segir einnig að þar sem Jones var utan keppni átti ekki að mæla niðurbrotsefni kókaíns í þessu prófi og það hafi líklega verið mistök, eins og Bennett benti á. Hann var samt prófaður á sama hátt tvisvar sinnum 4. desember, þannig að sömu mistök voru gerð tvisvar.

Það stendur hins vegar í reglum varðandi bardagaleyfi í Nevada að íþróttaeftirlitinu sé frjálst að svipta bardagamann keppnisleyfi „fyrir sakir sem eftirlitið telur nægar“ (e. for cause deemed sufficient by the Commission). Þetta er loðið orðalag en virðist vissulega bjóða þann möguleika að taka af honum keppnisleyfið ef áhugi væri fyrir hendi.

Dana White segist ekki heldur hafa haft rétt til að aflýsa bardaganum. Jones hafi verið með samning, heill heilsu og tilbúinn til að berjast. White segir að UFC hefði brotið á Jones ef það hefði aflýst bardaganum. Þar sem hann féll ekki á lyfjaprófi vegna frammistöðubætandi lyfja hafi ekki verið ástæða til að stoppa bardagann. Ef svo hefði verið hefði allt verið stoppað.

Þar að auki hefði UFC tapað gríðarlegum tekjum og reitt marga aðdáendur til reiði ef þessum risabardaga hefði verið aflýst með stuttum fyrirvara.

dana white

Munur á Jones og séra Jones

Það virðist sem UFC hafi einfaldega ekki áhuga á að refsa stærstu stjörnunni sinni, þó þeir gætu það vel af því að hann braut greinilega hegðunarreglur UFC, sem banna m.a. lyfjamisnotkun. Ef Jones reynist sekur um ólöglega lyfjanotkun vegna frammistöðubætandi lyfja fyrir bardagann gæti bardaginn gegn Cormier verið dæmdur ógildur.

Það væri fróðlegt að vita hver niðurstaðan hefði verið ef um minna þekktan bardagamann væri að ræða. Þá hefði íþróttaeftirlitið kannski reynt að svipta hann keppnisleyfi og/eða UFC refsað viðkomandi fyrir brot á hegðunarreglunum. En Jones sleppur og í bili virðist hann í nokkuð góðum málum. Hann fer í meðferð, tekur smá hlé og kemur svo aftur þegar málin hafa róast. En ef í ljós kemur að hann hafi notað ólögleg lyf til að bæta frammistöðu sína gætu hlutirnir breyst hratt og hann verið sendur í langt keppnisbann.

Jones hefur ekki verið gripinn með ólögleg frammistöðubætandi lyf í blóðinu en það er hægt að sjá hugsanleg merki slíkra lyfja í þvagsýni. Ef farið er eftir regluverki WADA þá er mun alvarlegra að hann sé að nota ólögleg lyf til að bæta frammistöðu sína en kókaín til afþreyingar. Kókaínneysla er vissulega áhyggjuefni, en það væri enn verra ef stærsta stjarna UFC yrði uppvís að ólöglegri steranotkun.

Heimild: Subject MMA

Oddur Freyr Þorsteinsson
Oddur Freyr Þorsteinsson
Greinahöfundur á MMAFréttir.is
RELATED ARTICLES

1 COMMENT

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular