Friday, April 19, 2024
HomeForsíðaKolbeinn Kristins: Valgerður hefur engu að tapa

Kolbeinn Kristins: Valgerður hefur engu að tapa

Boxarinn Kolbeinn Kristinsson telur að Valgerður eigi góða möguleika í titilbardaga sínum á morgun. Valgerður mætir Katarinu Thanderz í aðalbardaga kvöldsins í Noregi annað kvöld.

Valgerður Guðsteinsdóttir (3-0) mætir hinni norsku Katarinu Thanderz (7-0) nú á laugardaginn og er barist upp á svo kallaðan „International title“ hjá WBC sambandinu. Beltið er það næststærsta sem hægt er að keppa um hjá WBC en WBC er eitt af fjórum stóru samböndunum í boxheiminum.

Kolbeinn Kristinsson (9-0) er einn af tveimur atvinnumönnum Íslands í boxi ásamt Valgerði. „Mér lýst bara drullu vel á þennan bardaga hjá Valgerði. Flott tækifæri og hún hefur engu að tapa en allt að vinna,“ segir Kolbeinn.

Kolbeinn hefur aðeins skoðað andstæðing Valgerðar en Katarina er talin sigurstranlegri hjá veðbönkum. „Já hún er mjög þétt, er rosa ástfangin af því að slá krók í magann. Hallar sér svolítið fram þannig að ef Valgerður gerir sitt game þá á hún á allan séns í heiminum.“

Aðdragandinn fyrir bardagann er stuttur en Valgerður hefur nýtt tímann vel og tekið rúmlega 30 sparr lotur. Kolbeinn segir að aukning á sparr lotum sé ein stærsta breytingin frá venjulegum æfingum árið í kring og æfingum fyrir bardaga. „Æfingarnar þegar þú ert kominn með bardaga snúast bara um sparra fullt. Koma þér í eins gott fight form og þú mögulega getur á þessum tíma og svo bara fara inn með því hugarfari að þú hefur engu að tapa. Öll pressan er á hinni stelpunni. Hin stelpan á að rota Valgerði af því að Valgerður kemur inn með stuttum fyrirvara. Og ef hún gerir það ekki lítur hún illa út þannig að Valgerður hefur bara allt að vinna.“

Kolbeinn hefur sjálfur ekkert barist síðan í apríl 2017 en von er á tilkynningu á næstu dögum. „Ég er kominn með bardaga í Finnlandi í maí, það er staðfest en verður greint nánar frá síðar. En vonandi fæ ég eitthvað fyrr. Vil bara berjast fullt og vonandi fæ ég eitthvað annað líka. Berja einhvern Finna í Finnlandi, það er fínt. Mögulegur bardagi í mars eða byrjun apríl er í loftinu, ef það dettur inn þá dettur það inn.“

Kolli Valgerður
Kolbeinn og Valgerður. Mynd: Dukagjin Idrizi.
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular