Friday, March 29, 2024
HomeForsíðaMánudagshugleiðingar eftir UFC 174

Mánudagshugleiðingar eftir UFC 174

UFC 174 fór fram á laugardagskvöldið og verður ekki lengi í minnum haft. Bardagarnir voru ekkert sérstakir en Demetrious Johnson varði titilinn sinn mjög örugglega og Rory MacDonald minnti rækilega á sig.

Fyrirfram var ekki búist við að Ali Bagautinov ætti mikla möguleika gegn Demetrious Johnson. Sú varð raunin og var meistarinn aldrei í hættu. Hann hefur nú varið fluguvigtartitil sinn fjórum sinnum og er einfaldlega kóngurinn í fluguvigtinni. Bardaginn var ekkert sérstaklega fjörugur og hafa borist fregnir af því að áhorfendur hafi byrjað að yfirgefa höllina eftir 3. lotuna. Það verður þó ekkert tekið af Johnson sem var einfaldlega betri en Bagautinov á öllum vígstöðum bardagans á meðan Bagautinov átti engin svör við meistaranum. Bagautinov má þó eiga það að hann getur tekið við höggum og fékk ótrúlega mikinn fjölda af hnjáspörkum í skrokkinn.

UFC 174
Rory MacDonald reynir axarspark á Woodley.

Rory MacDonald sýndi af hverju fólk var svo spennt fyrir honum fyrir nokkrum árum síðan þegar hann sigraði Tyron Woodley örugglega eftir dómaraákvörðun í gær. Woodley komst aldrei af stað og MacDonald stjórnaði bardaganum frá fyrstu mínútu. MacDonald er frábær í að núlla út ógnir andstæðinga sinna og átti Woodley engin svör við því. Woodley sóttist eftir titilbardaga fyrir bardagann en þarf nú að fara aftar í röðina eftir þetta tap.

Brendan Schaub og Andrei Arlovski áttust við í ömurlegum bardaga. Fyrstu tvær loturnar voru jafnar þar sem báðir gerðu nákvæmlega ekki neitt en í 3. lotu náði Brendan Schaub fellu og var það í raun það eina sem gerðist í bardaganum. Eftir bardagann var Schaub ósáttur og fannst hann eiga skilið að sigra en Dana White var ekki á sama máli og að hans mati átti hvorugur sigurinn skilið. Eitthvað gæti hafa brotnað í kjafti Schaub þar sem hann var með stóra kúlu á kinninni eftir bardagann. Það var engu líkara en að hann hafi verð með borðtenniskúlu upp í sér en myndir af Schaub má sjá hér að neðan.

Ryan Bader sigraði Rafael Cavalcante örugglega eftir dómaraákvörðun en bardaginn var fremur einsleitur, Bader náði fellu og stjórnaði bardaganum í gólfinu. Frábær leikáætlun hjá Bader og góður sigur fyrir hann. Ovince St. Preux sigraði Ryan Jimmo eftir að Jimmo hafði einhvern veginn brotið á sér höndina. Ekki er enn vitað í dag hvað olli brotinu en St. Preux sigraði bardagann og er nú búinn að sigra fjóra bardaga í röð í UFC. Hann heldur áfram að sigra bardaga með óvenjulegum hætti og verður gaman að sjá hvernig hann sigrar næst.

Á heildina litið var þetta frekar leiðinlegt bardagakvöld og það var eins og það vantaði einhverja orku í andrúmsloftið. Þetta var allt frekar einsleitt og bardagarnir lítið spennandi. Vonandi er þetta lognið á undan storminum því tæpar þrjár vikur eru í UFC 175 en það verður eitt mest spennandi bardagakvöld ársins.

MMA: UFC 174-Arlovski vs Schuab schaub2

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular