Friday, April 19, 2024
HomeErlentMánudagshugleiðingar eftir UFC 206

Mánudagshugleiðingar eftir UFC 206

UFC 206 fór fram á laugardaginn þar sem Max Holloway fór með sigur af hólmi gegn Anthony Pettis. Hér eru Mánudagshugleiðingarnar eftir UFC 206.

Max Holloway kláraði Pettis með tæknilegu rothöggi í 3. lotu en þetta var í fyrsta sinn á ferlinum sem Pettis er kláraður. Holloway er nú búinn að vinna tíu bardaga í röð sem er hreint út sagt ótrúlegt. Hann mætir Jose Aldo á næsta ári og verða beltin sameinuð en líklegast verður bardaginn á UFC 208 í febrúar.

Hvað gerðist fyrir Anthony Pettis? Þessi fyrrum léttvigtarmeistari er 6-5 í UFC og hefur tapað fjórum af síðustu fimm bardögum sínum. Það er í raun ótrúlegt að horfa upp á þetta gerast. Pettis leit út fyrir að vera með þetta allt. Geggjuð spörk, hættulegur í gólfinu, stöðugt að gera eitthvað óvænt en núna er hann eins og sprungin blaðra.

Hann hefur ekki litið vel út eftir að hann tapaði fyrir Rafael dos Anjos í mars 2015. Braut dos Anjos hann svona rosalega og hefur hann ekki jafnað sig eftir það eða hafa bara allir áttað sig á hvernig á að vinna Pettis?

Það er eitthvað að hjá Pettis og það að fara niður í þyngdarflokk var ekki að fara laga það. Það eina jákvæða við þetta tap hjá Pettis er að nú þarf hann ekki að kvelja sig lengur við að fara niður í fjaðurvigt en hann mun nú fara aftur upp í léttvigt.

Það er ómögulegt að vita hvað sé að hjá Pettis. Töpin hafa ekki öll verið með sama hætti þannig að það er ekki eins og hann sé bara með einn veikleika sem allir eru að nýta sér. Pettis þarf að fara í alvarlega naflaskoðun og vonandi getur hann snúið til baka betri.

Donald Cerrone hélt áfram að vera bara kúrekinn Cerrone. Bardagi hans og Matt Brown var mjög skemmtilegur og var erfiðari fyrir Cerrone en marga grunaði. Cerrone rotaði Brown í 3. lotu og óskaði svo eftir bardaga í Denver í lok janúar. Hann vill helst mæta Demian Maia en væri svo sem alveg til í hvern sem er – hann vill bara fá að berjast.

Cub Swanson og Doo Hoi Choi áttu svo einn allra besta bardaga ársins þegar þeir slógust eins og kundur og köttur í þrjár lotur. Þetta var gjörsamlega magnaður bardagi þar sem báðir sýndu ótrúlega hörku, hjarta og vilja til að halda áfram. Það er eiginlega ótrúlegt að Doo Hoi Choi skyldi hafa staðið öll þessi högg af sér. Hausinn hans var á fleygiferð um búrið eftir hverja bombuna á eftir annarri frá Swanson en á einhvern óskiljanlegan hátt stóð hann þetta allt af sér og fór allar þrjár loturnar.

Báðir eiga skilið gott frí eftir þetta stríð og þrátt fyrir að Choi skyldi hafa tapað eru aðdáendur ekkert síður spenntir fyrir honum.

Kelvin Gastelum ætti svo bara að halda sér í millivigtinni því þar hefur hann alltaf litið ótrúlega vel út. Þá getur hann haldið áfram að éta mexíkóska matinn sem hann elskar svo mikið og notað hraðann sinn til að vinna þessa stærri andstæðinga. Hann vill ennþá fá annað tækifæri í veltivigtinni og ætlar að breyta um lífstíl en það er í raun óþarfi. Jújú, vissulega er óþarfi að tútna svona mikið út á milli bardaga líkt og hann gerir en af hverju ekki að halda sér bara í millivigtinni á meðan það gengur vel? Hann talaði um að Vitor Belfort vanti andstæðing í Brasilíu og það væri fínn bardagi fyrir hann núna. Borðaði bara strákur og vertu í millivigtinni!

Að lokum má ekki gleyma ótrúlegu rothöggi Lando Vannata á laugardaginn. Mögnuð tilþrif og verður frábært að sjá hann aftur fljótlega. Að auki má ekki gleyma að Francis Ngannou barðist á föstudeginum og nældi sér í sinn fjórða sigur í jafnmörgum bardögum í þungavigt UFC og er hann svo sannarlega sá efnilegast í þungavigtinni í dag.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular