Thursday, March 28, 2024
HomeErlentMánudagshugleiðingar eftir UFC 214

Mánudagshugleiðingar eftir UFC 214

UFC 214 fór fram á laugardaginn og var þetta frábært bardagakvöld. Jon Jones sigraði Daniel Cormier í aðalbardaga kvöldsins en nóg var um að vera á kvöldinu.

Jon Jones er kominn aftur. Bardagi hans og Daniel Cormier var einfaldlega frábær enda tveir heimsklassa bardagamenn á ferð. Cormier byrjaði vel og var staðan 1-1 hjá tveimur dómurum þegar í 3. lotu var komið en þá kláraði Jones þetta bara.

Jon Jones er bara með of mörg vopn í vopnabúrinu. Hann getur klárað menn á svo marga máta enda einn besti bardagamaður allra tíma. Hann virðist líka hafa þroskast aðeins sem manneskja eða þannig lítur það út á yfirborðinu. Einhvern veginn er maður samt að bíða eftir næsta skandal hjá honum en vonandi nær hann að halda sér á beinu brautinni. Á laugardaginn minnti hann okkur á hversu ógeðslega góður hann er og það viljum við fá að sjá.

Eftir bardagann er helst talað um mögulega bardaga gegn Alexander Gustafsson og Brock Lesnar. Lesnar fengi ekki að berjast í UFC fyrr en eftir sex mánuði en við viljum sjá Jones berjast aftur á þessu ári. Lengi hefur verið beðið eftir því að þeir Jones og Gustafsson mæti aftur þar sem fyrri bardagi þeirra var geggjaður. UFC hefur reynt að setja endurat þeirra á dagskrá en ekki gengið upp. Núna er fullkominn tími til að sjá þá mætast aftur.

Daniel Cormier er í erfiðri stöðu núna. Hann er með tvö töp fyrir núverandi meistara og spurning hvað hann ætlar að gera. Það er einhvern veginn til lítils að vinna fyrir hann í léttþungavigtinni þar sem ansi margt þarf að breytast til að hann fá annan séns gegn Jones. Eina von Cormier á að fá titilbardaga á næstunni er að Jones lendi í öðrum skandal og verði sviptur titlinum. Það er því erfitt að sjá hinn 38 ára gamla Cormier halda áfram að berjast í léttþungavigtinni þegar hann er svo langt frá titilbardaga eins og staðan er núna.

En hlutirnir geta verið fljótir að breytast og kannski vill Cormeir bara taka sér langa pásu og sjá hvernig staðan í léttþungavigtinni verður þá. Hann þarf svo sem ekkert að berjast. Hann hefur náð frábærum árangri í MMA heiminum eftir að komið seint inn. Svo er hann kominn með þægilega innivinnu sem sérfræðingur á Fox og lýsandi. Kannski ákveður hann að fara aftur upp í þungavigtina og reyna fyrir sér þar ef Cain Velasquez heldur áfram að vera jafn mikið meiddur.

Tyron Woodley heldur áfram að vera vinsælasti meistarinn eftir sigur hans á Demian Maia. Bardagar hans eru einfaldlega ekki nógu spennandi fyrir áhorfendur og gerist ekki nógu mikið í hans bardögum. Hann spilar þetta mjög skynsamt og tekur eins litla áhættu og hann getur sem er alveg skiljanlegt. Þannig heldur hann sér sem meistari og þénar vel sem meistari. Hann virðist vera mjög klár íþróttamaður en ekki hreinræktaður bardagamaður eins og Robbie Lawler, Donald Cerrone og Carlos Condit sem dæmi.

Hann verður samt að fara að hætta að bulla eins og hann gerir stundum. „Ef Georges St. Pierre berst ekki við mig verð ég sjálfkrafa besti veltivigtarmaður allra tíma,“ sagði Woodley eftir bardagann.

Nei Woodley, bara nei. Þannig virkar þetta ekki. Það gerir þig ekki sjálfkrafa besta veltivigtarmann allra tíma þó að 36 ára goðsögn vilji frekar fara upp um flokk í stað þess að berjast við þig. Svona hlutir gera Woodley enn óvinsælli en hann er en kannski er það viljandi. Maður var farinn að fýla Woodley ágætlega fram að þessum bardaga þar sem hann neitaði að tjá sig um Georges St. Pierre og Conor-Floyd bardagann og vildi bara einbeita sér að Maia.

Demian Maia er sennilega ekki að fara að fá titilbardaga aftur í UFC. Titilbardaginn hans gegn Anderson Silva var ekki góður bardagi og sömuleiðis bardaginn um helgina. Það er erfitt að horfa á hann þegar hann nær ekki bardaganum í gólfið. Hann var samt alls ekki svo slæmur standandi en Woodley var hraðari og höggþyngri og gerði mun meiri skaða. Hinn 39 ára Maia segist samt ekkert vera á leiðinni að hætta, því miður fyrir andstæðinga hans í veltivigtinni.

Cris ‘Cyborg’ Justino var mjög yfirveguð og róleg gegn Tonya Evinger. Hún var ekkert að missa sig í einhverju tryllingskasti heldur var hún bara þolinmóð og valdi höggin vel. Tonya Evinger var samt grjóthörð og entist lengur en flestir bjuggust við. Hún var þó vonsvikin með sjálfa sig fyrir að hafa ekki klárað fimm lotur en hún átti einfaldlega ekki séns og ógnaði Cyborg lítið sem ekkert. Vonandi fær hún samt sitt tækifæri í bantamvigt UFC þar sem hún á fremur heima.

Nú hefst enn einu sinni leit að næsta andstæðingi Cyborg. Holly Holm hefur verið nefnd til sögunnar en það væri stór bardagi. Það væri samt bara enn einn andstæðingur Cyborg úr bantamvigtinni en það er bara það eina sem er í boði sem stendur.

Bardagi Donald Cerrone og Robbie Lawler stóð svo sannarlega undir væntingum. Bardaginn var geggjaður rétt eins og við vonuðumst eftir. Robbie Lawler virðist aldrei ætla að verða búinn sem er hreinlega magnað. Eftir að GSP datt úr veltivigtarmyndinni aftur er enginn augljós áskorandi fyrir meistarann Tyron Woodley. Robbie Lawler gæti því fengið titilbardaga aftur enda finnst bardagaaðdáendum ekki leiðinlegt að horfa á hann berjast.

Volkan Oezdemir heldur endalaust áfram að koma á óvart. Hann er núna 3-0 í léttþungavigt UFC og er kominn ansi nálægt titilbardaga. Hann er samt svo hljóðlátur að það fer fremur lítið fyrir honum. Við höfum eiginlega ekki séð svona byrjun á UFC ferli í langa tíð. Ef hann væri með kjaft eins og Conor McGregor væri hann nú þegar orðinn mjög stór og myndi sennilega fá titilbardaga á undan Gustafsson. Síðustu bardagar hans hafa verið svo stuttir að maður veit ekki ennþá nógu mikið um hann sem bardagamann. Þetta er samt gott fyrir þyngdarflokkinn að fá smá nýtt blóð inn.

Þetta frábæra bardagakvöld stóðst allar væntingar (þó Maia og Woodley hafi valdið vonbrigðum) á heildina litið og fengum við að sjá alla stóru bardagana. Næstu helgi fer fram lítið bardagakvöld í Mexíkó þar sem þeir Sergio Pettis og Brandon Moreno mætast í aðalbardaga kvöldsins.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular