Thursday, April 25, 2024
HomeForsíðaMánudagshugleiðingar eftir UFC: Brown vs. Silva

Mánudagshugleiðingar eftir UFC: Brown vs. Silva

UFC Fight Night: Silva vs. Brown var frábært í alla staði og þá sérstaklega aðalbardagi kvöldsins. Þema kvöldsins voru óvænt úrslit en nokkuð var um að minni spámenn fóru með sigur af hólmi.

Brown Silva gif

Besti bardagi ársins?

Matt Brown og Erick Silva áttust við einum besta bardaga ársins. Matt Brown sigraði með tæknilegu rothöggi í 3. lotu þar sem báðir bardagamenn sýndu mikið hjarta. Silva byrjaði bardagann vel og náði öflugu sparki í maga Brown sem meiddi hann augljóslega. Silva reyndi að fylgja eftir með höggum í jörðinni og hefðu þessi högg sennilega stöðvað hvern sem er nema Matt Brown. “The immortal” hentar Matt Brown ákaflega vel enda virðist vera ómögulegt að klára hann þessa dagana. Um miðbik fyrstu lotu virtist Erick Silva vera gjörsamlega búinn á því en hann ofkeyrði sig gjörsamlega við það að reyna að klára Brown. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem þetta gerist fyrir Silva og verður hann að bæta þetta ef hann ætlar að komast ofar í veltivigtinni.

Erick Silva verður þrítugur í júní og getur varla talist efnilegur veltivigtarmaður lengur. Hann er þó gríðarlega skemmtilegur bardagamaður á að horfa en þarf að laga ýmsa hluti til að komast ofar í veltivigtinni. Hver veit nema hann nái góðri sigurgöngu (líkt og Matt Brown) og nái þannig að komast ofar í veltivigtinni einn daginn.

Hvað er framundan hjá Brown?

Hver hefði trúað því að árið 2014 væri Matt Brown nálægt titilbardaga í UFC? Um tíma leit ferill Brown ekki vel út og á einum tímapunkti tapaði hann þremur í röð í UFC. Núna hefur hann sigrað sjö bardaga í röð og þar af sex með rothöggi/tæknilegu rothöggi. Það er eitthvað sem fáir geta státað af.

Brown vill titilbardaga en ólíklegt er að UFC veiti honum þá ósk. Líklegast mætir hann Hector Lombard í gríðarlega mikilvægum bardaga þar sem sigurvegarinn myndi sennilega fá titilbardaga í veltivigtinni. Það gæti orðið rosalegur bardagi!

Óvænt úrslit

Það var nóg af óvæntum úrslitum þetta kvöld. Erik Kock tapaði óvænt gegn Daron Cruickshank, Zak Cummings kom öllum að óvörum og sigraði hinn efnilega Yan Cabral en óvæntast af öllu var þegar Johnny Eduardo rotaði Eddie Wineland.

Erik Koch hefur nú tapað þremur af síðustu fjórum bardögum og hefur hann verið kýldur niður eða rotaður í öllum töpum sínum. Hann er enn ungur, 25 ára gamall, en þetta boðar ekki gott fyrir mann sem var einn efnilegasti fjaðurvigtarmaður heims á sínum tíma og með mikið “hype” á bakvið sig.

Þeir Kyoji Horiguchi og Darrel Montague áttust við í skemmtilegum bardaga í fluguvigtinni. Horn Montague hefur verið gagnrýnt fyrir að hafa ekki stöðvað bardagann eftir aðra lotu. Þar var Montague mjög vankaður og gat varla gengið að horninu sínu og átti erfitt með að setjast á stólinn. Horiguchi endaði á að sigra eftir dómaraákvörðun en að margra mati tók Montague óþarfa refsingu í 3. lotunni.

eduardo wineland gif

Eddie Wineland og Johnny Eduardo áttust við í skemmtilegum bardaga í bantamvigtinni. Eduardo, sem er Muay Thai þjálfarinn Jose Aldo og Renan Barao hjá Nova Uniao, rotaði Wineland með hörðum hægri krók. Þetta var fyrsti bardagi Eduardo í tvö ár en hann hefur verið að glíma við meiðsli. Hann er þó ekkert unglamb lengur og mun UFC sennilega bara gefa honum skemmtilega bardaga þar sem hann er ólíklegur til að komast í titilbaráttu.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular