Friday, March 29, 2024
HomeForsíðaMánudagshugleiðingar eftir UFC: Fight Night 33

Mánudagshugleiðingar eftir UFC: Fight Night 33

UFC Fight Night: Hunt v Bigfoot
Mynd: Bradley Kanaris

Um nýliðna helgi fór fram virkilega skemmtilegt UFC bardagakvöld í Brisbane í Ástralíu. Þar er skemmst frá því að segja að Mark Hunt og Antonio Silva áttust við í rosalegum bardaga og Shogun rotaði James Te Huna með nákvæmum vinstri krók.

Mark Hunt og Antonio Silva háðu einn eftirminnilegasta þungavigtarbardaga í sögu UFC. Hvað getur maður sagt eftir svona bardaga? Bardaginn var úrskurðaður jafntefli en að margra mati átti Hunt sigurinn skilinn. Í svona bardaga er erfitt að segja að einhver hafi tapað þar sem báðir sýndu ótrúlegt þrek og baráttuvilja, og þá sérstaklega í seinni lotunum. Það var í raun lygilegt að Antonio Silva gæti staðið í fimmtu lotu en hann var gjörsamlega búinn á því.

Shogun rotaði James Te Huna með frábærum vinstri krók í fyrstu lotu. Shogun hefur greinilega lært eitthvað af box þjálfaranum Freddie Roach en Shogun æfði hjá honum í nokkrar vikur fyrir Chael Sonnen bardagann. Einhverjir halda því fram að gamli góði Shogun sé kominn aftur en einn flottur sigur er ekki nóg til að sannfæra undirritaðan. Þó hann sé aðeins 32 ára gamall hefur hann barist sem atvinnumaður í 10 ár og það tekur sinn toll á líkamann. Auk þess hefur hann aldrei verið þekktur fyrir að berjast varlega heldur hefur hann haldið sama árásargjarna stílnum sínum allan ferilinn. Það væri gaman að sjá Shogun og Lil Nog mætast næst, þ.e.a.s. ef Lil Nog nær að haldast heill, en þeir áttu upphaflega að mætast síðasta sumar.

James Te Huna er ekki tilbúinn fyrir topp 10 andstæðing eins og er og þarf að vinna sig aftur upp. Hann hefur nú tapað tveimur bardögum í röð og er fátt sem bendir til að hann verði einn af þeim bestu í UFC eins og margir höfðu spáð fyrir. Það sama má í raun segja um Ryan Bader. Þó Bader hafi sigrað sannfærandi um helgina er hann einhvern veginn ekki nógu góður fyrir þá allra bestu í þyngdarflokknum. Hann er klárlega á topp 10 í léttþungavigtinni en mun sennilega aldrei sigra þá allra bestu. Hann og Phil Davis gætu mæst í áhugaverðri rimmu.

Soa Palalei rotaði Pat Barry í fyrstu lotu en þessi 37 ára gamli Ástrali á aldrei eftir að verða heimsmeistari en gæti verið skemmtilegur prófsteinn fyrir efnilega þungavigtarmenn. Pat Barry er með bardagaskorið 5-7 í UFC og gæti verið látinn fara úr UFC eftir tvö töp í röð. Honum hefur aldrei tekist að sigra tvo bardaga í röð í UFC en hann má eiga það að hann er skemmtilegur og á dyggan aðdáendahóp.

Tveir nýliðar þreyttu frumraun sína í UFC og sigruðu báðir sannfærandi. Alex Garcia rotaði Ben Wall eftir 43 sekúndur og Justin Scoggins sigraði eftir tæknilegt rothögg í lok fyrstu lotu. Garcia er 26 ára og berst í veltivigtinni en hann æfir hjá Tristar í Kanada. Áður en hann samdi við UFC var hann talinn einn efnilegasti veltivigtarmaðurinn utan stóru bardagasamtakanna. Scoggins berst í hinni þunnskipuðu fluguvigt og er sjálfur sannfærður um að hann sé besti fluguvigtarmaður heims í dag. Hvort þessi 21 árs glímumaður geti staðið við stóru orðin þarf að koma í ljós en hann er ósigraður og hefur klárað alla bardaga sína nema einn.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular