Thursday, March 28, 2024
HomeErlentMánudagshugleiðingar eftir UFC Fight Night: Cyborg vs. Lansberg

Mánudagshugleiðingar eftir UFC Fight Night: Cyborg vs. Lansberg

cyborgUFC hélt bardagakvöld í Brasilíu á laugardaginn. Cris ‘Cyborg’ Justino fór létt með Linu Lansberg og kemur hún auðvitað fyrir í Mánudagshugleiðingunum.

Hvað á að gera við Cyborg? Þyngdarflokkurinn hennar er ekki til í UFC og hún berst í einhverri hentivigt sem erfitt er fyrir hana að komast í. UFC virðist ekki ætla að setja á laggirnar fjaðurvigt og er spurningin hvað UFC ætli að gera með eina bestu bardagakonu heims.

Ef hún á að halda áfram að rembast við þessa 140 punda hentivigt ætti hún að berjast við stærri nöfn en Linu Lansberg og Leslie Smith (með fullri virðingu fyrir þeim). Cyborg ætti að berjast við konur eins og Holly Holm, Mieshu Tate eða Cat Zingano í 140 pundunum. Það væru örugglega jafnari bardagar en bardagar hennar hafa verið hingað til í UFC. Best væri að hún gæti barist í 145 pundunum en bara spurning við hverja.

Renan Barao sigraði Phillipe Nover eftir dómaraákvörðun. Með sigrinum batt hann enda á tveggja bardaga taphrynu en sigurinn var aldrei í hættu. Þetta var fínasta frammistaða hjá Barao en eins og er er hann langt frá toppnum í fjaðurvigtinni. Bardagi gegn einhverjum utan topp 15 eins og Alex Caceres, Miles Jury eða Chas Skelly væri flott skref fyrir Barao svo hann geti haldið áfram að aðlagast nýjum þyngdarflokki.

nelsonroy_silvabigfoot_silvajason_usat_3x2_600

Antonio ‘Bigfoot’ Silva var rotaður af Roy Nelson. Silva er aðeins með einn sigur í síðustu átta bardögum og þar af eru sex töp allt eftir rothögg. Silva er þó ekkert á því að hætta og líður vel líkamlega. Hann á bara ekkert erindi við topp 20 bardagamenn í þungavigt UFC í dag og væri kannski ágætt ef hann myndi fá miklu léttari andstæðinga (þó Roy Nelson sé enginn heimsmeistari) ef hann ætlar að halda áfram. Kannski mun UFC losa hann undan samningi og þá gæti kannski Silva haft það gott í Rizin FF í Japan þar sem eftirlit með lyfjanotkun er eitthvað minna.

Francisco Trinaldo er með sjö sigra í röð í UFC. Það er næstlengsta sigurganga í léttvigt UFC í dag á eftir Tony Ferguson en samt hefur farið mjög lítið fyrir honum. Hann er fyrst núna að komast á topp 15 þrátt fyrir alla sigrana og það sýnir hve ótrúlega sterkur þyngdarflokkurinn er. Trinaldo ætti að fá topp 15 andstæðing næst og myndi áttundi sigurinn í röð gegn góðum andstæðingi vera stórt skref fyrir feril Trinaldo.

Erick Silva kláraði Luan Chagas með hengingu í 3. lotu í besta bardaga kvöldsins. Silva verður kannski aldrei einn af þeim bestu í veltivigtinni líkt og vonir stóðu til þegar hann kom fyrst í UFC en ljóst að hann verður alltaf í skemmtilegum bardögum.

Þetta var gott bardagakvöld og má sérstaklega hrósa Dominick Cruz fyrir að vera frábær sem lýsandi. Cruz er gríðarlega snjall og les leikinn mjög vel. Vonandi fáum við meira af honum sem lýsandi.

Næsta UFC bardagakvöld fer fram á laugardaginn þegar UFC heimsækir Portland. John Lineker og John Dodson mætast þá í aðalbardaga kvöldsins.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular