Friday, April 19, 2024
HomeErlentMánudagshugleiðingar eftir UFC Fight Night: Rockhold vs. Branch

Mánudagshugleiðingar eftir UFC Fight Night: Rockhold vs. Branch

Á meðan Gennady Golvokin og Canelo Alvarez börðust í Las Vegas fór fram lítið UFC kvöld í Pittsburgh. Aðalbardagi kvöldsins var þýðingarmikill bardagi í millivigt á milli Luke Rockhold og David Branch.

Þetta kvöld var mjög skemmtilegt á heildina litið. Aðeins tveir af tíu bardögum kvöldsins fóru allar þrjár loturnar. Við fengum sjö rothögg og eitt uppgjafartak („arm triangle“). Það var mikið í húfi fyrir Luke Rockhold sem hafði ekki sést í búrinu í rúmt ár eftir skelfilegt tap gegn Michael Bisping. Annað tap gegn Branch hefði verið mjög slæmt og framan af leit út fyrir að það væri ekki svo ólíklegt. David Branch er ekki mjög þekktur en hann er ekkert grín enda hafði hann unnið ellefu bardaga í röð áður en hann mætti Rockhold.

Branch byrjaði þennan bardaga með látum, setti pressu á Rockhold og kom inn þungum höggum. Branch vann fyrstu lotuna og Rockhold virkaði áhyggjufullur. Í annarri lotu náði Rockhold þýðingarmikilli fellu, tók bakið á Branch og lét höggin dynja þar til dómarinn stöðvaði bardagann. Svo virðist sem að Branch hafi gefist upp en hvernig sem það var endaði þetta vel fyrir Rockhold sem tók svo upp á því að skamma George St. Pierre fyrir að stela bardaganum sínum.

Branch sýndi þó veikleikana hjá Rockhold. Rockhold lendir í vandræðum þegar pressað er á hann og hann fær ekki tækifæri á að nota spörkin sín. Hann er ekkert sérstakur í gagnárásum og munu örugglega margir framtíðar andstæðingar Rockhold horfa á 1. lotuna í þessum bardaga. Branch var með góða leikáætlun en er ekki í sama klassa og Rockhold. Rockhold hefur ekki oft verið í vandræðum á síðustu árum en þarna var hann í veseni með góðan en ekki heimsklassa andstæðing. Hugsanlega var Rockhold dálítið ryðgaður eftir langa fjarveru og erfiðari niðurskurð en oft áður.

Ef Rockhold er heilbrigður og vill berjast fljótlega eru nokkrir áhugaverðir kostir í stöðunni. Sennilega berst sigurvegarinn af bardaga Michael Bisping og George St. Pierre við Robert Whittaker snemma á næsta ári. Á meðan er gamla millivigtargengið á hliðarlínunni og getur barist innbyrðis. Þannig gætu Rockhold, Chris Weidman, Yoel Romero og Jacare Souza haldið lítið mót á meðan þeir bíða. Rockhold gegn Romero og Weidman gegn Jacare sama kvöld væri ekki það leiðinlegasta í heimi.

Þetta kvöld voru nokkrir aðrir áhugaverðir bardagar. Uriah Hall lifði af hræðilega fyrstu lotu á móti Krzysztof Jotko en rotaði hann svo í annarri. Kamaru Usman afgreiddi Sérgio Moraes mjög sannfærandi og sýndi að hann er ekki bara kæfandi glímumaður heldur rotari að auki. Usman gæti stokkið upp í topp tíu í þyngdarflokknum með þessari frammistöðu. Hann endurtók aftur og aftur fasann „I’m a problem“ eftir bardagann sem var skemmtilegt. Svo gæti farið að okkar maður þyrfti að leysa þetta vandamál einn daginn.

Gamli refurinn Hector Lombard var að standa sig vel gegn risanum Anthony Smith þar til frábær flétta frá Smith hitti beint í mark í þriðju lotu og gerði út af við Lombard sem verður fertugur á næsta ári. Vonbrigði kvöldins var fjarvera Thiago Alves en Mike Perry fékk nýliðann Alex Reyes í hans stað. Perry fór nokkuð létt með Reyes og virðist vera að byggja sig upp sem smá stjörnu þó svo hann virki hálf takmarkaður vitsmunalega séð.

Besti bardagi kvöldsins var svo á milli Gregor Gillespie og Jason Gonzalez. Þvílíkt stríð en að lokum var það glímustyrkur Gillespie sem gerði honum kleift að koma Gonzalez í gólfið og klára bardagann með uppgjafartaki. Frábær bardagi.

Aðeins um hnefaleika helgarinnar. Aðdáendur höfðu beðið eftir viðureign Gennady Golovkin og Canelo Alvarez um langt skeið og bardaginn olli ekki vonbrigðum. Báðir hlóðu í höggin og sýndu sínar bestu hliðar. Þó svo að engin dramatísk augablik hafi átt sér stað, þ.e. enginn varð vankaður eða sleginn niður, virtist ljóst að Golovkin hefði unnið fleiri lotur og ætti sigurinn skilið. Svo komu þessu skrítnu úrslit þar sem einn dómaranna gaf Alvarez tíu lotur af tólf, annar var með jafntefli og sá þriðji með eðlilegan tveggja lotu sigur Golovkin. Niðurstaðan var því jafntefli og enn einn dómaraskandallinn í boxinu. Frekar sorglegur endir á annars frábæru kvöldi.

RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular