Tuesday, April 23, 2024
HomeErlentMánudagshugleiðingar eftir UFC on Fox 17

Mánudagshugleiðingar eftir UFC on Fox 17

ufc on fox 17

Þá er síðasti UFC bardagi ársins að baki. Rafael dos Anjos stendur uppi sem meistarinn í léttvigt eftir sannfærandi sigur á kúrekanum Donald Cerrone. Hann ætti að vera á allra vörum en í staðinn eru allir að tala um skærbrosandi Íra sem var ekki einu sinni að berjast um helgina.

Eftir desember mánuð beinast allra augu og eyru að Conor McGregor. Hann er orðinn stærsta stjarna UFC, bardagamaður ársins með þrjá sigra og beltið í fjaðurvigt. Hann getur nú bókstaflega valið sér næsta andstæðing og gert hann ríkann. Menn keppast því um að skora á hann. Á laugadagskvöldið voru það Charles Oliveira, Nate Diaz og Rafael dos Anjos sem allir vildu berjast við hann. Stóra spurningin er því, hver verður sá heppni sem verður fyrir valinu?

Förum lauslega fyrir möguleikana. Conor McGregor gæti ákveðið að verja titilinn sinn í fjaðurvigt sem myndi sennilega þýða bardagi við Frankie Edgar frekar en annar bardagi við José Aldo. Það er spennandi kostur fyrir aðdáendur og myndi gera honum kleift að hreinsa út þyngdarflokkinn og þyngja sig svo upp léttvigt.

Annar góður valmöguleiki er að berjast við Nate Diaz sem sigraði Michael Johnson um helgina og ætti að skjótast upp á topp tíu á styrkleikalista UFC. Bardaginn yrði skemmtilegur fyrst og fremst út af þessum litríku persónuleikum sem myndu reyna að kjafta hvorn annan í kaf. Vandamálið er að Diaz á ekki skilið að fá svona stóran bardaga en upphitunarbardagi í léttvigt gæti verið góð hugmynd fyrir McGregor áður en hann skorar á meistarann.

Rafael-dos-Anjos-punches-Donald-Cerrone

Sá valmöguleiki sem er líklegastur og Conor McGregor virðist spenntastur fyrir er titilbardagi í léttvigt á móti Rafael dos Anjos. McGregor dreymir um að verða meistari í tveimur þyngdarflokkum á sama tíma eins og hann gerði í Cage Warriors árið 2012. Sá bardagi er hættulegur fyrir McGregor en það er ólíklegt að hann hafi miklar áhyggjur af því. Sennilega er ekki heilbrigt fyrir hann að halda áfram í fjaðurvigt svo nú er bara að bíða og sjá hvað hinn alræmdi gerir.

Fleiri bardagar fóru fram um helgina sem þarf aðeins að ræða. Junior dos Santos og Alistair Overeem mættust loksins eftir nokkrar misheppnaðar tilraunir. Báðir eru rotarar og báðir hafa dalað en flestir áttu von á að haka Overeem væri veikari og myndi færa dos Santos sigurinn. Það var hins vegar haka dos Santos sem sveik hann að lokum. Kannski var bardaginn stöðvaður aðeins of snemma en dos Santos var meiddur og í stórhættu.

074_Nathan_Diaz_vs_Michael_Johnson.0.0

Það höfðu ekki margir trú á Nate Diaz um helgina en hann gerði sér lítið fyrir og afgreiddi mann númer sex á styrkleikalista UFC. Diaz virkaði endurnærður og frískur eftir árs fjarveru og vonandi er þetta byrjunin að einhverju nýju og spennandi fyrir hann. Í viðtali eftir bardagann sagði hann Ariel Helwani að Joe Silva hefði sagt honum að bardagi við Conor McGregor væri í bígerð en hver veit hvað er til í því.

Annar bardagi sem er vert að nefna eftir helgina er til dæmis frábær sigur Charles Oliveira á Miles Jury. Það tók Oliveira aðeins þrjár mínútur að afgreiða Jury með fallegri „guillotine“ og hann ætti að fá stóran bardaga næst þegar hann stígur í búrið. Oliveira þarf bara að gjöra svo vel og ná vigt en hann hefur nú fjórum sinnum mistekist að ná fjaðurvigtartakmarkinu í UFC.

Eitt af því sem er ofarlega í huga eftir helgina er hversu gott ár fyrir MMA þetta hefur verið. Fyrir utan upprisu Conor McGregor höfum við séð marga stóra bardaga og mörg belti skipta um hendur. Við sáum Holly Holm sigra Rondu Rousey, við sáum Jon Jones fara í stríð við Daniel Cormier og Gunnar Nelson afgreiða Brandon Thatch með ótrúlegum hætti svo eitthvað sé nefnt. Takk fyrir okkur 2015.

Við munum gera árið ærlega upp á næstu dögum með skemmtilegum listum.

 

RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular