Thursday, April 18, 2024
HomeErlentMichael Bisping: Mestar áhyggjur af því að komast ekki á barinn fyrir...

Michael Bisping: Mestar áhyggjur af því að komast ekki á barinn fyrir lokun

Michael Bisping var eðlilega svekktur eftir tapið gegn Georges St. Pierre í nótt. Bisping var kláraður af Georges St. Pierre í aðalbardaga kvöldsins á UFC 217 í nótt.

UFC 217 var hreinlega magnað bardagakvöld í Madison Square Garden í nótt. Michael Bisping tapaði millivigtartitli sínum til Georges St. Pierre í aðalbardaga kvöldsins. Kanadamaðurinn kýldi Bisping niður og kláraði hann svo með „rear naked choke“ í 3. lotu.

„Ég elska það sem ég geri. Ég er frá litlum bæ í Norð-Vestur Englandi, ég bjóst aldrei við að vera í aðalbardaga kvöldsins í Madison Square Garden. Ég skal hundur heita ef það síðasta sem ég geri er að vera svæfður í beinni útsendingu. Þetta var ekki mitt kvöld, en svona er þetta í íþróttum. Einn maður eða lið vinnur, einn maður eða lið tapar,“ sagði Bisping á blaðamannafundinum í gær.

Meistaratign Michael Bisping var umdeild en stóð yfir í 518 daga. Hans eina titilvörn var gegn Dan Henderson og nú mun bráðabirgðarmeistarinn Robert Whittaker mæta Georges St. Pierre.

„Mér finnst eins og ég hafi bara verið heimsmeistari í gær. Ég er hamingjusamur. Ég er stoltur af því sem ég hef áorkað í þessari íþrótt. Það er ég og það getur enginn tekið frá mér. Börnin mín héldu að ég yrði pirraðri eftir tapið. Auðvitað er ég pirraður. Ég er eyðilagður að innan. En á sama tíma skil ég hvað er mikilvægt í lífinu. Ég hef helgað lífi mínu íþróttinni en ég geri það fyrir börnin mín. Ég er að heyra að yfir milljón áhorf voru keypt. Það er ágætis sárabót.“

„Lífið heldur áfram. Einn maður vinnur á meðan annar tapar. Þú getur ekki grenjað yfir því. Vel gert hjá Georges, hann vann mig. Mér leið frábærlega á leið í búrið. Ég hélt í alvörunni að ég myndi valta yfir hann en ég gerði það ekki. Vel gert hjá honum.“

Þegar blaðamannafundinum lauk sagðist Bisping vera á leið á barinn til að drekkja sorgum sínum. „Ég hef mestar áhyggjur af því að komast ekki á barinn fyrir lokun.“

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular