Friday, March 29, 2024
HomeForsíðaNokkrar ástæður til að horfa á UFC 185

Nokkrar ástæður til að horfa á UFC 185

UFC 185

UFC 185 fer fram í Dallas annað kvöld. Þetta er langbesta bardagakvöld mánaðarins og kvöld sem minnir á gömlu UFC kvöldin sem voru drekkhlaðin af spennandi bardögum. Lítum yfir helstu ástæður til að missa ekki af þessu kvöldi.

  • Tveir titilbardagar: Það gerist ekki oft að við fáum tvo fimm lotu titilbardaga sama kvöld. Báðir bardagarnir eru auk þess áhugaverðir og keppendurnir hafa ekki mæst áður. Við fáum fyrstu titilvörn Carla Esparza gegn hinni ósigruðu Joanna Jędrzejczyk sem er með frábært Muay Thai og gæti ógnað meistaranum. Svo fær Rafael dos Anjos loksins tækifæri til að berjast um titil eftir 17 bardaga á sjö árum í UFC.
  • Showtime: Þegar Anthony Pettis berst er loftið alltaf aðeins rafmagnaðra en venjulega. Hann er nú búinn að klára síðustu fjóra andstæðinga sína með miklum tilþrifum og alltaf með mismunandi hætti. Það verður því gaman að sjá hverju hann lumar á í pokahorninu að þessu sinni.
  • Johny Hendricks rotar Martin Kampmann
    Johny Hendricks rotar Martin Kampmann

    Karlmenn mætast í veltivigt: Bardagi Johny Hendricks og Matt Brown hefði hæglega getað orðið titilbardagi. Það eina slæma við hann er að hann er ekki fimm lotur. Báðir eru grjótharðir naglar sem geta rotað eða lúbarið flesta aðra í þyngdarflokknum. Þetta eru alvöru menn með mikið testósterón. Þess má til gamans geta að Matt Brown var með hlaðvarp sem hét „Legit Man Shit“. Það er nánast útilokað að þetta verði leiðinlegur bardagi.

  • Bombur munu fljúga í þungavigt: Það hefur lítið farið fyrir bardaga Roy Nelson og Alistair Overeem en þetta er samt bardagi sem enginn mun vilja missa af. Báðir hafa tapað fleiri bardögum en þeir hafa unnið undanfarið en það skiptir ekki öllu máli. Þessir reynsluboltar eru ólíkir í útliti en báðir geta rotað og líkur eru á að annar liggi í valnum áður en þremur lotum lýkur.
  • Fullt af minni en áhugaverðum spámönnum: Fyrir utan ofangreindar stjörnur eru kunnugleg nöfn út um allt bardagakvöldið. Til að mynda er Sergio Pettis að berjast í bardaga sem verður bara sýndur á Fight Pass. Ross Pearsson og Sam Stout munu líka berjast, við hvorn annan meira að segja. Auk þeirra leynast kallar eins og Daron Cruickshank, Jared Rosholt og Chris Cariaso sem skoraði á Demetrious ‘Mighthy Mouse’ Johnson í september. Meira en nóg til að halda okkur við efnið áður en stóru nöfnin stíga á svið.
  • Fylgstu með: Það er þó nokkuð af efnilegum bardagamönnum á bardagakvöldinu svo sem fyrrnefndur Sergio Pettis, Henry Cejudo og Joseph Duffy. Cejudo og Pettis hafa áður barist í bantamvigt en eru nú báðir á leið niður í fluguvigt. Cejudo er gullverðlaunahafi í ólympískri glímu og er einn besti glímumaðurinn sem keppt hefur í UFC. Írinn Duffy er síðasti maðurinn til að vinna Conor McGregor en hann er einnig með sigur á Norman Parke á ferilskránni. Það verður því gaman að sjá hversu góður Duffy er annað kvöld.

Fyrsti bardagi kvöldsins hefst á Fight Pass kl 22:30 að íslenskum tíma. Aðalhluti (e. main card) UFC 185 er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 3 og hefst útsendingin kl 2.

RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular