Thursday, March 28, 2024
HomeErlentNokkrar ástæður til að horfa á UFC 220

Nokkrar ástæður til að horfa á UFC 220

UFC 220 fer fram um helgina í Boston. Þar munu stóru strákarnir etja kappi en hér eru nokkrar ástæður til að horfa á bardagakvöldið.

Besti þungavigtarbardagi í langan tíma

Í rauninni gætum við haft bara eina ástæðu til að horfa á þetta bardagakvöld. Aðalbardagi kvöldsins verður algjör veisla enda er barist um þungavigtartitilinn í UFC. Francis Ngannou og Stipe Miocic eru sennilega tveir bestu þungavigtarmenn heims í dag og höfum við ekki séð svona góðan þungavigtarbardaga síðan Junior dos Santos og Cain Velasquez voru upp á sitt besta.

Stipe Miocic hefur rotað fimm andstæðinga í röð, Ngannou hefur klárað alla sex bardaga sína í UFC og er óhætt að segja að hér mætast stálin stinn. Eitt högg getur breytt öllu og því er mikið í húfi, og þá sérstaklega fyrir meistarann. Getur Miocic bætt metið yfir flestar titilvarnir í þungavigt UFC eða fáum við nýjan og spennandi meistara í Francis Ngannou? Kemur í ljós um helgina og er þess virði að vaka fyrir!

Hvernig kemur DC til baka eftir rothöggið gegn Jones?

Fyrsti bardagi Daniel Cormier eftir tapið gegn Jon Jones verður gegn Volkan Oezdemir um helgina. Cormier tapaði beltinu til Jones en þar sem Jones féll á lyfjaprófi var hann sviptur titlinum og Cormier aftur gerður að meistara. Cormier var rotaður í fyrsta sinn á ferlinum í fyrra og verður áhugavert að sjá hvernig hinn 38 ára Cormier kemur til baka eftir það.

Lítið er vitað um Volkan Oezdemir en hann hefur klárað síðustu tvo bardaga sína á undir 60 sekúndum. Oezdemir er höggþungur og hefur klárað marga bardaga í 1. lotu. Hann er með undarlega þung högg í „clinchinu“ (eins og sást gegn Jimi Manuwa) og verður áhugavert að sjá hvort hann nái að valda DC einhverjum vandræðum þar. Þessi titilbardagi er eilítið að falla í skuggann á aðalbardaganum en ætti að verða áhugaverður bardagi enda léttþungavigtarbeltið í húfi.

Kemst Almeida aftur á sigurbraut?

Í fyrsta bardaganum á aðalhluta bardagakvöldsins mætast þeir Thomas Almeida og Rob Font. Almeida er alltaf skemmtilegur, hvort sem hann sigrar eða tapar, enda með 17 sigra eftir rothögg. Þessi bardagi gæti orðið stórskemmtilegur.

Annað stríð hjá Homasi og Alhassan?

Þeir Sabah Homasi og Abdul Razak Alhassan mættust á UFC 218 í desember. Bardaginn var þrælskemmtilegur en endaði með tæknilegu rothögg í 1. lotu, Alhassan í vil. Bardaginn var stöðvaður full snemma af dómaranum Herb Dean og því hefur UFC ákveðið að setja bardagann aftur saman. Ef þessi bardagi verður jafn skemmtilegur og sá fyrri ættum við að fá mikla skemmtun.

Fyrsti bardagi kvöldsins hefst á miðnætti en aðalhluti bardagakvöldsins hefst kl 3 og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular