Friday, April 19, 2024
HomeErlentNokkrar ástæður til að horfa á UFC 221

Nokkrar ástæður til að horfa á UFC 221

UFC 221 fer fram á morgun í Perth, Ástralíu. Það er ekki mikið um stór nöfn á bardagakvöldinu en þó má finna marga bardaga sem gætu orðið ansi skemmtilegir.

Tveir af þeim allra bestu í millivigtinni

Toppbaráttan í millivigtinni er hrikalega skemmtileg og á morgun fáum við að sjá tvo af þeim bestu kljást – Luke Rockhold og Yoel Romero. Upphaflega átti auðvitað millivigtarmeistarinn Robert Whittaker að verja beltið sitt á heimavelli en hann getur ekki barist vegna alvarlegra veikinda (sem hann er nú nánast búinn að ná sér af).

Burtséð frá veikindum Whittaker er þetta frábær bardagi. Yoel Romero er óútreiknanlegt skrímsli sem getur klárað bardagann hvenær sem er með svaka sprengju. Luke Rockhold getur líka klárað menn á svipstundu standandi en er einnig stórhættulegur í gólfinu þegar bardaginn fer þangað. Hæfileikar beggja eru ólíkir og eru stuðlarnir afar jafnir fyrir bardaga þeirra. Erfitt er að sjá fyrir sér hvernig bardaginn mun fara og það er alltaf ávísun á góðan bardaga.

Er Mark Hunt búinn?

Hinn 43 ára Mark Hunt hefur marga fjöruna sopið og ljóst að endalok ferilsins nálgast. Um helgina mætir hann hinum 26 ára Curtis Blaydes og verður þetta áhugavert próf fyrir Blaydes. Sigri Blaydes verður það til marks um að hann sé tilbúinn fyrir stóra bardaga gegn stóru strákunum í þungavigtinni. Jafnframt gæti það verið ágætis vísbendi um að Mark Hunt sé ekki lengur meðal sex bestu í þungavigtinni eins og hann er í dag. Mark Hunt er með allt á hornum sér þessa dagana og er spurning hvort áhugahvötin sé enn til staðar. Það má samt ekki gleyma að Blaydes er frekar reynslulítill og getur Mark Hunt alltaf rotað með einu vel tímasettu höggi. Þetta gæti orðið mjög áhugaverður bardagi og sagt mikið um báða bardagamenn.

Ferskt blóð í þungavigtinni

Curtis Blaydes er að koma með ferskt blóð í hundgamla þungavigtina en það sama má segja um Tai Tuivasa. Meðalaldurinn á bardagamönnunum sem eru á topp 15 í UFC eru 33,6 ár. Hinn 24 ára Tuivasa er því tæpum tíu árum yngri en gömlu kallarnir og getur vonandi komið með smá nýjung í þungavigtina. Hann er bara búinn með sex bardaga, allt sigrar eftir rothögg, og á langt í land með að komast á toppinn. Við vonum þó að hann hafi hæfileikana til að fara langt og bardaginn gegn Cyril Asker á eftir að segja okkur meira um hann.

Kínverskt já takk!

Kínverjinn Li Jingliang hefur verið á mikilli siglingu undanfarið. Hann hefur unnið fjóra bardaga í röð og þar af eru þrír eftir rothögg. Samtals er hann 6-2 í UFC og hefur hann sýnt miklar framfarir undanfarin ár. Hann mætir Ástralanum unga Jake Matthews á morgun og ef hann nær fimmta sigrinum í röð gætu stór tækifæri verið framundan fyrir hann. Það eru ekki margir kínverskir bardagamenn í UFC sem geta eitthvað og er aldrei að vita nema hann verði stór stjarna fyrir UFC í Asíu.

Israel frá Nígeríu

Israel Adesanya berst sinn fyrsta bardaga í UFC á morgun. Þetta er nafn sem ekki margir þekkja en kannski verður nafn hans á allra vörum eftir helgina. Israel Adesanya kemur frá Nígeríu og er gríðarlega reyndur sparkboxari. Hann er með tæplega 60 bardaga í sparkboxi og er 11-0 í MMA en allir 11 sigrarnir voru eftir rothögg. Hann mætir Rob Wilkinson á morgun og verður afar spennandi að sjá hvað hann getur á stóra sviðinu.

Þó bardagarnir fari fram í Ástralíu er bardagakvöldið á bandarískum tíma. Fyrsti bardagi kvöldsins hefst því kl 23:30 á Fight Pass en aðalhluti bardagakvöldsins hefst kl 3 á Stöð 2 Sport.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular