Thursday, March 28, 2024
HomeErlentNokkrar ástæður til að horfa á UFC Fight Night: Volkov vs. Struve

Nokkrar ástæður til að horfa á UFC Fight Night: Volkov vs. Struve

Síðasta UFC kvöld var 5. ágúst en eftir næstum mánaðar bið sem hefur skilið MMA aðdáendur eftir froðufellandi af fráhvarfseinkennum er loksins komið að því næsta. Satt að segja er þetta ekki beint besta kvöld allra tíma en það hefur þó sína kosti.

Tveggja turna tal

Líkt og þegar Jon Jones mætti Alexander Gustafsson snýst bardagi Alexander Volkov og Stefan Struve aðallega um stærðina. Þessir tveir eru algjörir risar sem verður skemmtilegt að sjá í búrinu. Volkov er 201 cm á hæð og Struve 213 cm enda kallaður „Skyscraper“. Báðir hafa unnið tvo bardaga í röð í UFC og báðir eru í topp 10 á styrkleikalista UFC svo þetta er mikilvæg viðureign.

Fjör í veltivigt

Einn skemmtilegasti bardagi kvöldsins (á pappírum) er bardagi Bryan Barberena og Leon Edwards. Barberena vakti fyrst athygli á sér með sigri á Sage Northcutt og er orðinn nokkuð vinsæll á meðal MMA áhorfanda. Edwards er minna þekktur en það ætti að fara að breytast fljótlega. Í síðustu tveimur bardögum hefur Edwards sigrað Albert Tumenov og Vicente Luque og hefur litið mjög vel út. Sigurvegarinn gæti troðið sér á topp 15 svo það er til mikils að vinna.

Darren Till

Ungur og efnilegur

Hinn ósigraði Darren Till er einn efnilegasti Bretinn í UFC. Till er 24 ára, ósigraður í 15 bardögum og hefur búið í Brasilíu um nokkurt skeið. Um helgina mætir hann Serbanum Bojan Veličković sem ætti að reynast erfitt próf.

Hinn gleymdi Mairbek Taisumov

Rússinn Mairbek Taisumov er með fjóra sigra í röð eftir rothögg í UFC en samt er hann gleymdur og grafinn í upphitunarbardögum kvöldsins á litlum viðburði í Evrópu. Vandamál með vegabréfsáritun eru sögð halda ferli Taisumov í gíslingu og hefur hann því ekki enn fengið að spreyta sig gegn topp andstæðingum í léttvigtinni. Á morgun mætir hann Felipe Silva og eru ágætis líkur á rothöggi þar Taisumov í vil.

Efnilegur Dani

Mads Burnell er kominn í UFC og fer frumraun hans fram annað kvöld. Burnell þykir gríðarlegt efni en hann fékk svarta beltið í brasilísku jiu-jitsu á aðeins fjórum árum og er það fáheyrt. Burnell fær þó erfitt próf en hann mætir Michael Prazeres sem er sömuleiðis svartbeltingur og með fjóra sigra í röð í UFC.

Fleiri góðir

Það eru nokkrir áhugaverðir bardagamenn hér og þar á kvöldinu sem þarf að hafa augun með. Siyar Bahadurzada var á tímabili talinn mikið efni en hefur aðeins gleymst eftir tímabil meiðsla og tvö töp í röð. Í hans síðasta bardaga sigraði hann Brandon Thatch svo það verður gaman að sjá hvað hann getur gert um helgina gegn Rob Wilkinson. Svo má ekki gleyma Rússanum Rustam Khabilov en hann mætir Desmond Green í áhugaverðum bardaga.

Frábær tími!

Þar sem bardagakvöldið fer fram í Rotterdam í Hollandi eru bardagarnir á frábærum tíma hér á Íslandi. Fyrsti bardagi kvöldsins hefst kl 15:45 á íslenskum tíma en aðalhluti bardagakvöldsins kl 19. Gæti ekki verið á betri tíma.

RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular