Tuesday, March 19, 2024
HomeForsíðaRagnar fór til Tælands til að æfa Muay Thai án þess að...

Ragnar fór til Tælands til að æfa Muay Thai án þess að vera með nokkra reynslu úr bardagaíþróttum

Ragnar NakRob er íslenskur bardagamaður sem berst í Tælandi í Muay Thai. Við heyrðum í honum frá Tælandi þar sem hann deilir með okkur reynslu sinni af æfingum og keppni þar í landi.

Ragnar hefur verið kallaður Ragnar NakRob frá því hann fór til Tælands en það er bardaganafnið hans. NakRob er tælenska og þýðir einfaldlega stríðsmaður rétt eins og nafnið Ragnar. Hann hefur dvalið í Tælandi um nokkurt skeið og tekið fjóra atvinnubardaga í Muay Thai. En hvernig kom það til að hann ákvað að skella sér til Tælands?

„Ég fór fyrst til Tælands til að æfa Muay Thai, skoða landið og koma mér í gott form. Þetta er frábær staður til þess. Hér er mikil íþróttamenning og mikil virðing borin fyrir bardagafólki. Ég byrjaði að æfa Muay Thai fyrir rúmu ári síðan en tekið stuttar pásur þegar ég ferðast heim eða meiðist,“ segir Ragnar.

Ragnar hafði engan bakgrunn í bardagaíþróttum áður en hann fór til Tælands en ákvað samt að hoppa beint í djúpu laugina og taka þetta alla leið. „Ég er í keppnisliði Singpatong Sitnumnoi sem er virtasta Muay Thai gym í Phuket. Eigandinn heitir Numnoi og er mjög þekktur og einn stærsti Muay Thai promoter í Tælandi. Singpatong hefur alið af sér marga Muay Thai meistara á öllum aldri og þar má nefna fjóra Lumpinee meistara sem er mjög virtur titill í Tælandi.“

„Margir í Singpatong berjast út um alla Asíu. Rafi Singpatong liðsfélagi minn vann Lumpinee beltið fyrir um mánuði síðan. Margir litlir strákar búa í gymminu og æfa allan daginn. Þeir berjast og senda svo vinningsfé til fjölskyldu sinnar, sem búa oft annar staðar í Tælandi við mikla fátækt. Þessir guttar eru frá 7 ára upp í 20 ára og eru flestir margfaldir Muay Thai meistarar.“

Ragnar er með fjóra atvinnubardaga að baki, þrjá sigra og eitt tap. Flestir taka að minnsta kosti einn áhugamannabardaga áður en farið er í atvinnubardaga en Ragnar var ekki á því. „Mér bauðst að fá bardaga og ég tók því. Ég vil hafa þetta alvöru, ekki með einhverjar auka hlífar eða auka reglur.“

„Ég vann fyrstu þrjá bardagana með rothöggi eftir nokkrar sekúndur af fyrstu lotu. Í fjórða bardaganum brotnaði ég á hendi snemma í fyrstu lotu en hélt áfram að reyna í tvær lotur en þá stöðvaði dómarinn bardagann. Hendin er nú orðin góð aftur og ég á von á að fá næsta bardaga fljótlega.“

Margir ferðast til Tælands í sömu erindagjörðum og Ragnar – til að æfa og keppa í þjóðaríþrótt Tælendinga. En hvernig er venjulegur dagur þarna úti? „Það eru tvær æfingar á dag sex daga vikunnar. Báðar byrja með um 10 km hlaupi og svo tveggja klukkustunda æfingu. Á milli æfinga reyni ég að hvíla vel og fara kannski í nudd. Ég borða kjúlla, grjón og grænmeti í hádeginu til að hlaða orku fyrir seinni æfinguna. Eftir seinni æfinguna borða ég kjúlla og grænmeti og fæ mér svo eggjahvítur seinna um kvöldið. Svo finn ég mér bara eitthvað skemmtilegt að gera á kvöldin eins og til dæmis að kíkja í bíó. Stundum fer ég á ströndina eða í sundlaugina til að slappa af en það er ekki oft.“

Mynd: Craig Simon.

Utan æfinganna hefur Ragnar m.a. skoðað sig um og farið á UFC bardagakvöld í Singapúr. „UFC bardagakvöldið var alveg geggjað. En svo hef ég verið að skoða eyjarnar og farið að snorkla. Hef líka verið að fara í sveitina hér þar sem fara ekki margir útlendingar og fólk þar er mjög fátækt en ég kom með nammi og smá pakka fyrir krakkana þar.“

Hann lék einnig aukahlutverk í sápuóperu sem var svo sannarlega áhugaverð reynsla. „Þetta var einhver kínversk sápuópera skilst mér. Þátturinn hefur ekki verið sýndur ennþá en ég átti að vera öskrandi og æpandi eins og einhver geðsjúklingur þarna, sparkandi og kýlandi út í loftið, skapvondur og aggressívur Muay Thai gæji. Gaurinn sem ég var að ‘slást’ við hafði enga reynslu en hann átti að færa sig frá öllum höggunum. Hann var frekar smeykur að ég myndi hitta í hann,“ segir Ragnar og hlær.

„En eftir að ég var búinn að sparka og kýla út um allt þá átti hann að kýla mig í rot með einu höggi. Þetta var mjög fyndið. Það var einhver casting skrifstofa sem hafði samband við mig og bauð mér þetta. Mér fannst þetta bara vera fyndið flipp og sló til.“

Ragnar er stoltur Íslendingur og mun alltaf kalla Ísland sitt heimili. Hann mun þó áfram dvelja í Tælandi sem stendur en kemur heim til Íslands eftir sinn næsta bardaga sem gæti verið fljótlega.

Mynd: Craig Simon.
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular