Friday, April 19, 2024
HomeForsíðaRick Story sagður rota menn viljandi á æfingum

Rick Story sagður rota menn viljandi á æfingum

Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.
Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.

UFC bardagamaðurinn Rick Story hefur verið sakaður um að rota æfingafélaga sína viljandi á æfingum undir skipunum frá þjálfara sínum.

Þetta kom fram í viðtali MMA Mania við Austin Springer, sem keppir í næstsíðasta bardaga kvöldsins á bardagakvöldi Prime Fighting í kvöld. Springer ræddi þann tíma þegar hann æfði í Xtreme Couture en hann gekk til liðs við bardagaklúbbinn rétt áður en Randy Couture seldi klúbbinn. Springer sagði að umhverfið hefði orðið óvinveitt eftir eigendaskiptin.

„Ég veit ekki hvort þú heyrðir einhvern tímann sögurnar sem Mike Pierce sagði um að eigandinn hefði látið Ricky rota gaura sem voru með höfuðmeiðsli,“ sagði Springer. „Hann lét Ricky rota mig, ég var 135, 145 pund og bara áhugamaður á þeim tíma og hann lét Rick Story rota mig á æfingu. Það hentaði mér ekki.“ Springer skipti því um bardagaklúbb.

Árið 2011 sagðist Mike Pierce hafa séð Rick Story lúberja ungan og óreyndan MMA-bardagamann sem þjáðist af höfuðmeiðslum. Sá bardagamaður var víst Abel Trujillo sem keppir í léttvigt UFC í dag. Story segist sjálfur bara hafa slegið Trujillo í skrokkinn þar sem Trujillo þjáðist af svima.

Þetta er alvarleg ásökun frá Springer en því miður viðgengst það í sumum félögum að menn berjist af fullri hörku á æfingum. Það gerir þá vissulega óhrædda við bardaga en heilinn þolir takmarkaðar barsmíðar. Því fleiri þung höfuðhögg sem bardagamaður fær, þeim mun færri högg þolir hann í viðbót. Þeir sem fá reglulega þung höfuðhögg á æfingum eru því fljótir að missa hökuna og heilaskaði getur haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar.

Rick Story, sem íslenskir MMA-áhugamenn þekkja frá bardaga hans við Gunnar Nelson, neitar ekki ásökunum Springer, þó hans útgáfa af sögunni sé örlítið öðruvísi:

„Austin var áhugamaður. Ég rotaði hann. … Það er rétt að hann var minni, en hann var ekki pínulítill. Hann var í kringum 160 pund og ég 185. … Það var ætlast til að við æfðum af hörku og ég þekkti ekki annað en að reyna að rota á æfingum. … Pat [White, yfirþjálfarinn] sagði mér að senda stungu fram hjá höfðinu og henda sparkinu. Það virkaði og það kom mér á óvart.“

Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.
Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.

Story sér ekki eftir atvikinu en óskar Springer alls hins besta og segist vona að fólk taki eftir honum og að þessar ásakanir hjálpi ferli hans. Hann segir líka að sér semji vel við Mike Pierce og segist viss um að Trujillo og Springer séu sáttir við hann. Hann vill meina að það hafi verið þjálfarinn sem bar ábyrgð á fantaskapnum. Þjálfarinn gaf skipanir sem Story fylgdi enda þekkti hann ekki annað á þeim tíma.

Það hentar Springer að vekja máls á þessu núna en viðtalinu var ætlað að vekja athygli á bardaga hans um helgina. Það vekur svo sannarlega umtal að varpa fram ásökunum á þekktan UFC bardagamann og það er góð leið til að vekja athygli á sér og sínum bardaga. Staðreyndin er sú að þó þetta séu vissulega mjög óhollar æfingaaðferðir þá virðist lítil þörf á að rifja upp einöngruð tilvik sem eru margra ára gömul.

Springer er enn ósigraður eftir sjö atvinnumannabardaga og vonast til að keppa í UFC bráðlega.

Oddur Freyr Þorsteinsson
Oddur Freyr Þorsteinsson
Greinahöfundur á MMAFréttir.is
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular