Friday, April 19, 2024
HomeErlentRick Story tekur sér pásu frá MMA til að gerast slökkviliðsmaður

Rick Story tekur sér pásu frá MMA til að gerast slökkviliðsmaður

Rick Story er á ákveðnum krossgötum í lífi sínu en hann er ekki lengur samningsbundinn UFC. Story er ekkert á leiðinni í búrið á næstunni og er nú sestur á skólabekk þar sem hann ætlar að gerast slökkviliðsmaður.

Rick Story vann Gunnar Nelson í Stokkhólmi árið 2014 og varð sá fyrsti til að vinna okkar mann. Hann var á þriggja bardaga sigurgöngu þegar hann mætti Donald Cerrone í ágúst í fyrra. Það var síðasti bardaginn hans á samningi hans við UFC og ákvað hann að taka áhættu og semja ekki við UFC fyrir bardagann. Með sigri í síðasta bardaganum á samningnum gegn Cerrone hefði Story verið kominn í ansi fína samningsstöðu.

Sú áhætta borgaði sig ekki þar sem Cerrone varð sá fyrsti til að klára Story á ferlinum með glæsilegu rothöggi í 2. lotu. Í stað þess að flýta sér að fá samning annars staðar og halda áfram að berjast ákvað Story að skoða aðra möguleika.

Story þurfti að fá tannrótargöng í báðar framtennur sínar og eru þær því fremur óstöðugar. Hann er því ekkert sérstaklega spenntur fyrir því að vera kýldur í andlitið eins og er og var þetta því kjörinn tími til að huga að öðrum möguleikum.

„Bardagaferillinn mun ekki endast að eilífu og ég þarf að huga að öðrum ferli á meðan ég get. Slökkviliðsstarf væri mjög gott starf. Ég er ekki hættur. Þegar tennurnar verða orðnar 100% fer ég aftur að æfa. Núna þarf ég ekki að einbeita mér að tvennu á sama tíma og get einbeitt mér að skólanum,“ sagði Story við Fox Sports.

Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.

Story fékk samningstilboð fyrir bardagann gegn Cerrone en vildi fá betra tilboð. Hann hefur ekki fengið annað boð eftir tapið gegn Cerrone og er því samningslaus. Eftir sjö ár í UFC er hann eilítið pirraður á stöðu sinni.

„Ég gaf allt mitt í þetta í langan tíma en svo sér maður menn með færri bardaga en ég fá betur borgað en ég af því þeir eru vinsælir. Það er pirrandi. Það er ekkert sérstaklega spennandi að gera sitt besta fyrir svona fyrirtæki sem fer svona með mann.“

„Ef ég gef allt mitt í þetta aftur, hverju skiptir það? Ef ég er ekki með læti á samfélagsmiðlum og fá fleiri fylgjendur er ég ekki að fá betri samning. Þó að ég sé að vinna menn sem fá nánast tvöfalt betur borgað en ég.“

Story er þó meðvitaður um að svona er bara bransinn. „Ég ætla ekki að vera einn af þeim sem vælir endalaust um þetta. Ég vil bara vera meðvitaður um þetta. Ég er ekki ósáttur við UFC, þetta eru bara viðskipti. Ég skil þetta en þetta er bara pirrandi þar sem þú setur allan þennan tíma og heilsu í þetta og þú ert bara að hjálpa þeim með fyrirtækið sitt. Þetta er svekkjandi.“

Listinn yfir meiðsli Story á ferlinum er ansi langur og hefur hann nokkrum sinnum farið undir hnífinn. Slæm hálsmeiðsli, sköflungsbrot í bardaganum gegn Gunnari, litla táin svo illa úr lið að hún danglaði laus á fætinum, rifa á liðþófa og sprunga í ökkla eru allt meiðsli sem Story hefur gengið í gegnum á undanförnum árum. Þá hefur hann byggt upp beinvöxt í olnboganum sem gerir það að verkum að hann getur ekki rétt úr höndunum eða snert eigin axlir. Það er enginn eftirlaunasjóður í MMA og menn þurfa að hafa einhverja áætlun um hvað þeir ætla að gera þegar ferlinum lýkur.

Hinn 32 ára Story var á topp 15 styrkleikalistanum þegar samningurinn rann út. Næstu 13 mánuði mun Story einbeita sér að skólanum en útilokar alls ekki að snúa aftur í búrið. Story var 12-7 í UFC og sigraði menn á borð við Gunnar Nelson, Johny Hendricks, Thiago Alves og Tarec Saffiedine.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular