Thursday, March 28, 2024
HomeErlentSaga þungavigtarinnar í UFC - enginn getur haldið beltinu lengi

Saga þungavigtarinnar í UFC – enginn getur haldið beltinu lengi

Titillinn í þungavigt hefur verið einskonar heit karftafla frá upphafi UFC. Á laugardaginn fer einn mest spennandi þungavigtabardagi í langan tíma og af því tilefni förum við létt yfir sögu þungavigtarbeltisins í UFC.

UFC 220 fer fram í Boston á laugardaginn. Í aðalbardaga kvöldsins mætast þeir Stipe Miocic og Francis Ngannou um þungavigtarbeltið.

Á um 20 árum hefur beltið skipts um hendur 18 sinnum, sé litið framhjá tímabundnum beltum. Enginn hefur náð að verja beltið oftar en tvisvar og þrír hafa unnið titilinn oftar en einu sinni, þ.e. Randy Couture, Tim Sylvia og Cain Velasquez. Saga beltisins er nokkuð skrautleg rússíbanareið sem er gaman að líta yfir.

UFC 1 átti sér stað árið 1993 en fyrsti þungavigtarmeistarinn var ekki krýndur fyrr en árið 1997 á UFC 12. Þá mættust goðsagnirnar Mark Coleman og Dan Severn en þess má geta að þetta kvöld var einnig fyrsta UFC kvöld Joe Rogan. Coleman vann bardagann eftir tæpar þrjár mínútur með „scarf-hold headlock“ uppgjafartaki sem er vinsælt bragð í bæði júdó og ólympískri glímu.

Síðar sama ár mætti Coleman Maurice Smith á UFC 14 en Smith hélt sig frá Coleman, notaði spörkin óspart og sigraði þreyttan Coleman á stigum. Smith hélt uppteknum hætti gegn Tank Abbott þremur mánuðum síðar og sigraði örugglega. Eftir ítrekuð lágspörk virtist Abbott ekki vilja meira og John McCarthy stoppaði bardagann eftir um átta mínútur.

Næst var röðin komin að sjálfum Randy Couture á UFC Japan, enn erum við á árinu 1997. Smith reyndi að halda sig frá Couture en niðurstaðan var glímukennsla frá „The Natural“ og nýr meistari var krýndur.

Eftir deilur við UFC ákvað Randy Couture að yfirgefa UFC og titillinn var laus. Það endaði með því að Bas Rutten og Kevin Randleman fengu að berjast um titilinn á UFC 20 árið 1999. Þessi bardagi er sögufrægur þar sem Rutten tókst að vinna bardagann þrátt fyrir að vera stóran hluta bardagans á bakinu. Hann var duglegur af bakinu og þótti gera nóg til að sigra á stigum. Randleman var ekki sáttur.

Eftir þetta var titillinn aftur laus þar sem Rutten ákvað að létta sig niður í léttþungavigt. Kevin Randleman fékk annað tækifæri, að þessu sinni gegn Pete Williams sem var alræmdur eftir rosalegt höfuðspark gegn Mark Coleman árið áður. Það fór svo að Randleman sigraði á stigum á UFC 23.

Næst varði Randleman beltið gegn Pedro Rizzo á UFC 26 árið 2000. Randleman vann á stigum eins og honum einum var lagið. Það gekk hins vegar ekki gegn Randy Couture sem snéri aftur með glæsibrag á UFC 28. Couture átti svar við glímustyrk Randleman og endaði með að klára bardann með höggum.

Randy Couture varði í kjölarið titilinn í tvígang gegn Pedro Rizzo á UFC 31 og 34. Bardagarnir voru báðir frábærir og eru oft notaðir sem dæmi um harða sparkbox bardaga í MMA. Couture sýndi mikla hörku og stóð af sér svakaleg spörk frá Rizzo.

Á UFC 36 mætti Couture Josh Barnett en þá kom nokkuð skýrt í ljós að Couture var aðeins of lítill fyrir þungavigtina. Barnett sigraði sannfærandi en féll svo síðar á lyfjaprófi og missti titilinn. Randy Couture fékk því annað tækifæri, að þessu sinni gegn Ricco Rodriquez sem sigraði með höggum í gólfinu í fimmtu lotu eftir erfiðan bardaga.

Ricco Rodriguez mætti svo Tim Sylvia á UFC 41 sem gerði sér lítið fyrir og sigraði á rothöggi í fyrstu lotu. Sylvia þótti einstaklega vænt um beltið en hann svaf víst með það á nóttinni. Það endaði hins vegar ekki vel þar sem Sylvia féll á lyfjaprófi, líkt og Barnett, svo beltið varð aftur laust.

Þótt undarlegt megi virðiast voru það á endanum Frank Mir og Tim Sylvia sem börðst um lausa beltið. Bardaginn er frægur fyrir magnaðan armlás sem Mir náði. Í hægri endursýningu má sjá framhandlegg Sylvia brotna en hann vildi samt halda áfram. Mir sigraði og virtist framtíðin björt fyrir þennan unga þungavigtarmeistara.

Mir var þó sviptur titlinum þar sem hann var lengi frá keppni vegna mótorhjólaslyss. Áður en Mir var sviptur hafði Andrei Arlovski unnið bráðabirgðarbeltið í millitíðinni eftir sigur á Tim Sylvia og varið hann svo aftur gegn Justin Eilers. Arlovski varði svo alvöru beltið gegn Paul Buentello á UFC 55.

Það fór svo að Arlovski mætti Tim Sylvia aftur á UFC 59 og svo enn aftur á UFC 61 en Sylvia vann í bæði skiptin. Sylvia varði svo beltið gegn Jeff Monson, sem reyndist auðveldur sigur á stigum. Eftir það fór fram einn stærsti bardaga í sögu þungavigtarinnar á UFC 68 á milli Sylvia og Randy Couture. Couture þótti alltof lítill en gerði sér hins vegar lítið fyrir og sigraði tröllið afgerandi á stigum en felluvörn Sylvia var ekki hans sterkasta hlið.

Couture var þá orðinn meistari í þriðja sinn, orðinn 43 ára gamall. Hann mætti svo öðru trölli á UFC 74, Gabriel Gonzaga. Couture sannaði sig enn einu sinni og kláraði bardagann með höggum í þriðju lotu. Rúmu ári síðar mætti Couture skrímslinu Brock Lesnar sem rotaði goðsögnina í annarri lotu og varð meistari eftir aðeins þrjá MMA bardaga, sem er alveg örugglega met. Tækifæri Lesnar var umdeilt en erfitt að deila um það eftir sigur á meistaranum.

Lesnar varði beltíð í tvígang, fyrst hefndi hann fyrir tapið gegn Frank Mir og svo lét hann Shane Carwin gefast upp í mjög spennandi viðureign á UFC 116. Á þessum tíma var umtalað um að svona liti framtíðin út í þungavigtinni – risastórir menn sem þurftu að skera niður til að komast í 120 kg líkt og Lesnar og Carwin gerðu.

Það reyndist hins vegar ekki rétt. Um þetta leyti urðu ákveðin kynslóðaskipti en Cain Velasquez kom inn með látum og valtaði yfir Lesnar á UFC 121 og héldu þá margir að þar væri kominn meistari sem myndi staldra við í smá stund.

Í fyrstu titilvörn Velasquez mætti hann Junior dos Santos í risastórum bardaga sem var sá fyrsti á stóru Fox sjónvarpsrásinni. Þetta var einn mest spennandi þungavigtarbardaginn í langan tíma enda þarna tveir hungraðir þungavigtarmenn sem voru báðir ósigraðir í UFC á þessum tíma. Menn höfðu lengi talað um mögulegan bardaga þeirra á milli enda komu þeir upp á sama tíma í UFC. Bardaginn stóð hins vegar ekki alveg undir væntingum enda var dos Santos búinn að rota Velasquez eftir um það bil mínútu og hélt við bölvun beltisins.

Junior dos Santos varði beltið af miklu öryggi gegn Frank Mir og mætti svo Velasquez í annað sinn á UFC 155. Í þetta sinn var það Velasquez sem gjörsamlega rústaði dos Santos. Barsmíðarnar fóru allar fimm loturnar en það hefði í raun verið hægt að stoppa bardagann miklu fyrr.

Þar með hófst gullaldarskeið Cain Velasquez sem hefði mátt vara miklu lengur. Hann varði beltið á UFC 146 gegn Antonio ‘Bigfoot’ Silva og lamdi svo dos Santos aftur á UFC 166. Trílogía þeirra var mögnuð en enginn vafi lék á því hvor var betri.

Þegar hann mætti Fabricio Werdum á UFC 188 voru ekki margir sem gáfu áskorandanum möguleika. En MMA er ófyrirsjáanleg íþrótt eins og við höfum svo oft séð. Werdum var ferskari bardagamaðurinn, enda hafði hann mætt talsvert fyrr til Mexíkó og var búinn að venjast þunnu loftslaginu hátt yfir sjávarmáli. Werdum afgreiddi þreyttan Velasquez með „guillotine“ og var orðinn meistari.

Það var svo núverandi meistari, Stipe Miocic, sem rotaði Werdum með tilþrifum og tók af honum titilinn á UFC 198. Síðan þá hefur Miocic varið titilinn gegn Alistair Overeem og Junior dos Santos. Núna um helgina mætir hann Francis Ngannou í einum mest spennandi þungavigtarbardaga síðan Cain Velasquez og Junior dos Santos voru upp á sitt besta.

Brock Lesnar, Randy Couture, Tim Sylvia, Cain Velasquez og Stipe Miocic eiga allir metið yfir flestar titilvarnir í sögu UFC. Titilvarnirnar hjá þeim öllum eru aðeins tvær. Með sigri tekst Miocic að bæta metið yfir flestar titilvarnir í sögu þungavigtarinnar í UFC enda enginn varið beltið oftar en tvisvar! Það er auðvitað hrikalega slappt en í þungavigtinni þarf oft svo lítið til til að klára bardagann þannig að það er kannski ekkert svo skrítið að fæstar titilvarnir séu í þungavigtinni og þær flestu í fluguvigtinni.

Fáum við að sjá sögulega stund þegar Miocic bætir metið eða verður það enn einn nýji meistarinn og önnur kynslóðaskipti?

RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular