Thursday, April 25, 2024
HomeErlentSpá MMA Frétta fyrir UFC London

Spá MMA Frétta fyrir UFC London

UFC bardagakvöldið í London er í kvöld þar sem Gunnar Nelson mætir Alan Jouban. Hér spá pennar MMA Frétta í bardagana fjóra á aðalhluta bardagakvöldsins.

Léttþungavigt: Jimi Manuwa gegn Corey Anderson

Pétur Marinó Jónsson: Ekki margir sem eru spenntir fyrir þessum bardaga en mér finnst þetta áhugaverður bardagi. Þetta er ekta striker vs. grappler bardagi. Ég vona að Jimi Manuwa nái rothögginu enda er það skemmtilegra fyrir okkur. Hef ekkert á móti Corey Anderson en finnst hann ekkert sérstaklega skemmtilegur bardagamaður. Corey er oft opinn fyrir höggum standandi og held ég að Jimi Manuwa nýti sér það þó það sé kannski smá óskhyggjua. Segjum Jimi Manuwa með TKO í 3. lotu.

Sigurjón Viðar Svavarsson: Ég er persónulega mjög spenntur fyrir þessum bardaga. Þarna eru þeir báðir að reyna koma sér í topp fimm í léttþungavigtinni. Manuwa hefur þó unnið betri andstæðinga og er með skemmtilegri stíl. Anderson er wrestler sem getur rotað. Finnst þetta vera svipaður bardagi og Manuwa á móti Ovince St. Preux. Ef Manuwa heldur þessu standandi mun hann hægt og rólega byrja að koma höggum inn og mun klárar hann í annarri lotu. TKO í 2. lotu hjá Manuwa.

Óskar Örn Árnason: Ég er sennilega aðeins minna spenntur en þið hinir. Af þessum tveimur finnst mér Anderson eiga meiri möguleika á að ná langt í þyngdarflokknum en það þýðir ekki endilega að hann vinni í kvöld. Manuwa er alltaf hættulegur en ég hallast að því að Anderson taki þetta á glímunni og vinni á stigum eða seint á TKO.

Guttormur Árni Ársælsson: Margir virðast hallast að Manuwa en það læðist að mér sá grunur að wrestlingið hjá Anderson muni spila stórt hlutverk í þessum bardaga. Ég spái því að Anderson nái nokkrum góðum fellum og ground and pound og klári bardagann í þriðju lotu.

Arnþór Daði Guðmundsson: Skemmtilegur bardagi sem sumir gætu verið að vanmeta. Manuwa er með steypu í hönskunum á meðan Corey Anderson er ennþá að bíða eftir því að brjótast upp á hæsta levelið í léttþungavigtinni. Leiðin fyrir Anderson til að vinna er að nota glímuna sína til að koma Manuwa í gólfið og látta höggin dynja á honum en hættan við það er að Manuwa gæti lætt inn höggi sem gæti meitt Anderson. Segjum að Anderson sigri eftir dómaraákvörðun.

Brynjar Hafsteins: Ég fýla oft svona style versus style bardaga, kickboxari gegn wrestler. Alla bardaga sem Anderson hefur náð andstæðingnum niður hefur hann unnið. Manuwa er frábær kickboxari en hann hefur átt í vandræðum þegar andstæðingar wrestla við hann. Það sást í bardaganum gegn OSP og gegn Anthony Johnson. Ég ætla að segja að Anderson nái honum niður og sigri á dómaraúrskurði.

Jimi Manuwa: Pétur, Sigurjón.
Corey Anderson: Óskar, Guttormur, Arnþór, Brynjar.

Veltivigt: Gunnar Nelson gegn Alan Jouban

Pétur Marinó Jónsson: Lang mikilvægasti bardagi kvöldsins hjá okkur auðvitað. Alan Jouban er hættulegur andstæðingur sem er með vopn til að vinna Gunna. Ég er alltaf mjög stressaður fyrir bardaga hjá Gunna en er búinn að vera furðu rólegur hingað til. Akkúrat núna er stressið að hellast yfir mig. Ég er skíthræddur um að Jouban komi með einhver klikkuð spörk og smellhitti. Allt getur gerst. Ég hef þó alltaf trú á okkar manni og vona innilega að hann byrji alveg eins og hann gerði gegn Albert Tumenov. Alan Jouban á það til að byrja dálítið rólega og vona að Gunni nái að nýta sér það. Ég ætla að segja að Gunni nái fellu eftir svona tvær mínútu í fyrstu lotu og klárar þetta svo þegar skammt er eftir af lotunni. Rear naked choke í 1. lotu.

Sigurjón Viðar Svavarsson: Held að flestir séu búnir að kynna sér allt við þennan bardaga. Jouban er hættulegur Muay Thai southpaw sem notar mikið spörkin. Að mínu mati hefur Gunna alltaf gengið vel á móti Muay Thai gaurum en spurning hvernig verður að mæta southpaw en það er yfirleitt erfiðara. Ég held að Gunni eigi eftir að skjóta inn, ná honum niður með höggum og klára hann með TKO í fyrstu lotu.

Óskar Örn Árnason: Ég var ekki búinn að velta þessum bardaga fyrir mér, nei djók. Það veit ekki á gott að ég er mjög bjartsýnn á möguleika Gunnars (var það líka gegn Story og Maia). Ég held að fyrsta lotan verði meira og minna standandi en Gunni nær honum niður í annarri og klárar með….segjum armbar.

Guttormur Árni Ársælsson: Raunverulegt main-event að mínu mati og spennandi match-up. Það má alls ekki vanmeta Jouban þó hann sé ekki í topp 15 og Gunni þarf að passa sig á spörkunum og sérstaklega hef ég áhyggjur af lágspörkunum frá Jouban. Ég held þó að munurinn sé gífurlegur í gólfinu og að Gunni klári hann í jörðinni. Signature rear-naked-choke í annarri lotu.

Arnþór Daði Guðmundsson: Hvað getur maður sagt um þennan bardaga sem hefur ekki komið fram nú þegar? Jouban á eftir að vera duglegur að nota spörkin á Gunna líkt og Rick Story gerði á sínum tíma en ég held bara að Gunni sé búinn að bæta sig það mikið standandi að það verði ekki teljandi vandamál. Frábært að sjá að Gunni er ekki lengur að leita að fellunni og líður vel standandi. Ég held að hann standi fyrstu lotuna og leiti að opnun og muni svo annað hvort slá Jouban niður eða skjóta í fellu og ná honum niður. Við vitum svo öll hvernig það endar. Gunni sigrar með rear naked choke í 2. lotu.

Brynjar Hafsteins: Gunni barðist einu sinni í fyrra og Jouban er á þriggja bardaga sigurgöngu. Jouban hefur aldrei tapað vegna uppgjafartaks í MMA en það breytist í kvöld. Gunni er pínu lengi í gang stundum og það gæti hjálpað Jouban. Gunni mun nota byrjunina til þess að finna fjarlægðina, láta Jouban halda að þeir séu að fara að kickboxa og svo skellir hann í fallega fellu og klárar bardagann með real naked choke í 2. lotu.

Gunnar Nelson: Pétur, Sigurjón, Óskar, Guttormur, Arnþór, Brynjar.
Alan Jouban:

Hentivigt: Brad Pickett gegn Marlon Vera

Pétur Marinó Jónsson: Kominn tími á Brad Pickett og gott að hann sé að fara að hætta. Upphaflega átti Pickett að mæta Henry Briones en hann datt út bara fyrir viku síðan. Marlon Vera kemur í staðinn og lýst mér strax betur á það. Ég hefði tippað á Briones sigur en lýst betur á möguleika Pickett gegn Vera enda er Vera ekki mikill rotari. Vera á 5 ára gamla dóttur sem er með taugaröskun og berst hann til að safna fyrir aðgerð fyrir hana. Ég vil sjá Pickett vinna kveðjubardaga sinn en vil líka sjá Vera fá borgað. Pickett tekur þetta eftir dómaraákvörðun og báðir fá bónusa fyrir besta bardaga kvöldsins.

Sigurjón Viðar Svavarsson: Það ættu flestir að kannast við Pickett sem er að taka sinn síðasta bardaga, að mínu mati er löngu kominn tími á það. Hann er bara búinn að vinna tvo af síðustu átta bardögum. Vera kemur inn í bardagan sem late replacement og það gæti hjálpað honum en held samt að hann sé alltof óreyndur í þennan bardaga. Pickett hefur átt mörg stríð og það er alltaf gaman að horfa á hann. Pickett vinnur með uppgjafartaki í annarri lotu.

Óskar Örn Árnason: Það er ansi mikill aldursmunur á þessum tveimur, 38 ára gegn 24 ára. Ég held samt að reynsla Pickett muni skila honum sigri, vona það líka í hans síðasta bardaga. Pickett sigrar á TKO í fyrstu lotu.

Guttormur Árni Ársælsson: Vera kemur inn með aðeins sjö daga fyrirvara og ég held að það gæti haft áhrif. Pickett hefur kannski ekki litið neitt frábærlega út undanfarið en það væri gaman að sjá hann sigra kveðjubardagann sinn. Ég ætla því að leyfa hjartanu að ráða hér og segja Pickett með KO í fyrstu.

Arnþór Daði Guðmundsson: Brad Pickett var einn af mínum fyrstu uppáhalds bardagamönnum einhverra hluta vegna, aldrei verið stjarna en alltaf ótrúlega gaman að fylgjast með honum. Gleyma því oft margir að hann hefur sigrað Demetrious Johnson, fluguvigtarmeistara UFC fyrr á ferlinum. Vera er að koma inn með stuttum fyrirvara og bardaginn fer fram í hentivigt, 140 pundum. Mig langar að sjá Pickett ríða út í sólsetrið og enda ferilinn fallega á heimavelli á rómantískan hátt (toppar samt sennilega ekki Mark Munoz). Pickett sigrar á KO í 2. lotu.

Brynjar Hafsteins: Reynslan tekur þennan bardaga og sérstaklega þar sem Vera er að koma inn án þess að hafa verið í æfingabúðum. Pickett endar MMA ferilinn vel og sigrar eftir dómaraúrskurð.

Brad Pickett: Pétur, Sigurjón, Óskar, Guttormur, Arnþór, Brynjar.
Marlon Vera: ..

Makwan Amirkhani Arnold Allen

Fjaðurvigt: Arnold Allen gegn Makwan Amirkhani

Pétur Marinó Jónsson: Þetta verður mjög áhugaverður bardagi. Fíla báða og erfitt að tippa á sigurvegara þar sem mig langar að báðir vinni. Makwan er rosalegur glímumaður en Allen er góður alls staðar. Allen er núna búinn að vera hjá Tristar í eitt og hálft ár og sagði við mig að hann sé klárari bardagamaður núna enda með einn þann klárasta með sér, Firas Zahabi. Makwan er þó með John Kavanagh með sér sem er ekki vitlaus gæji. Ég ætla að segja að Makwan taki þetta eftir dómaraákvörðun í hörku bardaga.

Sigurjón Viðar Svavarsson: Báðir búnir að vinna alla bardaga sína í UFC, báðir búnir að ná allavega einu sinni performance of the night. Amirkhani er þekktari fyrir uppgjafartök, Allen meira fyrir rothögg. Held að þetta verði skemmtilegur og jafn bardagi. Held samt að Amirkhani sé betri í gólfinu og muni koma til með að stjórna bardaganum þar. Amirkhani eftir dómaraákvörðun.

Óskar Örn Árnason: Þetta ætti að verða góður bardagi. Þekki þá samt ekki of vel en tippa á rothögg frá Allen í annarri lotu.

Guttormur Árni Ársælsson: Allen er mjög efnilegur, með 9-1 bardagaskor og aðeins 23 ára. Hann verður á heimavelli og er með flott stand-up fyrir svona ungan náunga. Amirkhani er hins vegar vanmetinn wrestler, margafaldur Finnlandsmeistari bæði í frjálsri og grísk-rómverskri glímu og ég held að það geri gæfumuninn fyrir hann. Þetta verður jafn bardagi en Amirkhani sigrar á stigum eftir að hafa náð nokkrum góðum fellum.

Arnþór Daði Guðmundsson: Þekki lítillega til Allen en hinn kannast ég minna við. Heimavallarforskotið getur oft verið gott og ég hugsa að Allen nái nú að halda bardaganum standandi og vera hreyfanlegur og komast hjá því að vera tekinn niður. Segjum að Allen sigri eftir dómaraákvörðun.

Brynjar: Real main event fyrir mér. Mjög góður bardagi þar sem þeir eru báðir ósigraðir í UFC og báðir frá Evrópu. Þetta er mjög jafn bardagi en ég held að Allen hafi aðeins á Amirkhani. Amirkhani á eftir að eiga í smá erfileikum með að ná Allen niður og Allen mun vinna á dómaraúrskurði.

Arnold Allen: Guttormur, Arnþór, Brynjar.
Makwan Amirkhani: Pétur, Sigurjón, Guttormur.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular