Friday, April 19, 2024
HomeErlentSpámaður helgarinnar: Jóhann D. Bianco (UFC 203)

Spámaður helgarinnar: Jóhann D. Bianco (UFC 203)

Jóhann D BiancoUFC 203 fer fram í kvöld þar sem þungavigtarbeltið verður undir. Spámaður helgarinnar fyrir bardagakvöldið er Keflvíkingurinn Jóhann D. Bianco.

Jóhann D. Bianco er einn af forsprökkum Tólfunnar, stuðningsmannasveit íslenska landsliðsins. Jóhann hefur fylgst með MMA frá dögum Tank Abbott og félaga og er spenntur fyrir kvöldinu. Gefum honum orðið.

Strávigt kvenna: Jessica Andrade gegn Joanne Calderwood

Brasilía vs Skotland. Tvær grjótharðar stelpur og eru báðar að koma inn eftir góða sigra. Calderwood kláraði Valerie Létourneau með TKO í 3. lotu og Andrede straujaði nöfnu sína Jessicu Penne í síðasta bardaga. Brazil tekur þennan eftir dómaraákvörðun.

Bantamvigt: Urijah Faber gegn Jimmie Rivera

Urijah er búinn að vera lengi í brasanum og farið að síga nokkuð á seinni hlutann á ferlinum hans. Jimmie Rivera er með hörku record 19-1, á hörku skriði og er til alls líklegur.

Eins og sást í Embedded þáttunum um daginn þá festist Faber í lyftu með Werdum og fleiri góðum spöðum í Cleveland og mátti þar sjá stærsta undirhanda svitapoll síðari tíma hjá þjálfara hans Justin Buchholz. Sá pollur náði hálfa leiðina á Dalvík og svitapollurinn verður ekkert minni í kvöld þegar Urijah berst. Þetta verður erfitt.

Urijah er mjög vinsæll og likeable gæji en ég held að El Terror verði of sterkur fyrir hann og loki honum í annarri eða þriðju lotu.

Veltivigt: CM Punk gegn Mickey Gall

Þetta er bardagi sem augu margra eru á, en kannski ekki beint af fagurfræðilegum ástæðum. Það eru allir spenntir að sjá hvað, ef eitthvað, CM Punk hefur upp á að bjóða.

Menn drukku grimmt af Haterade þegar hann var kynntur til leiks í UFC en það hefur eitthvað vatn runnið til sjávar undanfarið og hann er farinn að fá aðeins meiri ást. Algjörlega reynslulaus, með hvorki einn einasta atvinnumanna né áhugamannabardaga að baki, en það verður fróðlegt að sjá hvað hann hefur lært í MMA listinni á þessum stutta tíma.

Kæmi manni ekkert á óvart ef Gall myndi hengja hann strax í fyrstu en það væri alveg gaman að sjá CM Punk bara hreinlega rota hann. Sláum þessu upp í kæruleysi og setjum seðil á að Punkfésið klári hann í 2. lotu.

Þungavigt: Fabricio Werdum gegn Travis Browne

Menn ráku upp nokkuð stór augu þegar Travis fékk samlanda strákana í System Of A Down hann Edmond Tarverdyan sem yfirþjálfara en eins og allir vita er Ronda áleggið á milli í þeirri samloku. Travis er stór og sterkur strákur en hefur verið svolítið upp og niður í síðustu bardögum.

Werdum er að mæta aftur til leiks eftir að hafa tapað beltinu til Stipe í síðasta bardaga. Á undan því var hann á flottu skriði með 6 sigra í röð og þar á meðal sigur á Travis Browne eftir einróma dómaraákvörðun þar sem Werdum var með töluverða yfirburði í 5 lotur.

Ég held að Werdum klári Travis í 3. lotu og taki sitt signature Werdum trollface í viðtalinu við Joe Rogan eftir bardagann.

Titilbardagi í þungavigt: Alistair Overeem gegn Stipe Miocic

Þá komum við að aðalbardaga kvöldsins. Ég er maður mómenta og rómantíkur, Stipe berst hér í heimabæ sínum og verður án efa með gott pepp úr stúkunni.

Cleveland Cavs eru ríkjandi NBA meistarar, það er gott vibe í Cleveland um þessar mundir og það er ekki séns að hann vilji tapa beltinu strax í sinni fyrstu vörn og það á heimavelli.

Alistair er well decorated bardagamaður, búinn að taka belti í nokkrum bardagasamtökum þar á meðal Strikeforce, DREAM og K-1, og er til dæmis aðeins annar tveggja manna sem hafa verið meistarar í MMA og K-1 á sama tíma. Hann stefnir núna á að loka UFC beltinu. Hann er þó fórnarlamb glerkjálkans alræmda sem er svolítið hans akkilesarhæll.

Ég lít á þetta sem semí 50-50 bardaga, langar að sjá Stipe verja beltið á heimavelli fyrir framan LeBron og félaga en langar einnig að sama skapi að sjá Overeem ná UFC beltinu. Á svolítið erfitt með að negla þennan niður, en segjum að Stipe roti hann í 3. lotu.

Sorry Reem

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular