Tuesday, April 23, 2024
HomeErlentStaðan: Fluguvigt (125 pund)

Staðan: Fluguvigt (125 pund)

MMA Fréttir hefur ákveðið að hvíla Föstudagstopplistann. Næstu vikur munum við þess í stað fara yfir stöðuna í hverjum þyngdarflokki fyrir sig í UFC. Við byrjum á 125 punda fluguvigtinni.

Þyngdarflokkurinn: Fluguvigt (125 pund – 57 kg)

Fluguvigtin í UFC var fyrst sett á laggirnar í mars 2011. UFC hélt fjögurra manna útsláttarkeppni og voru það fyrstu bardagarnir í fluguvigtinni í UFC.

Demetrious_Johnson_vs_Kyoji_Horiguchi.0.0Meistarinn

Meistarinn í fluguvigtinni er sá eini sem hefur haldið fluguvigtartitlinum – Demetrious Johnson. Kappinn er ósigraður í fluguvigtinni og hefur sigrað sex af efstu tíu áskorendunum í UFC. Hann er einfaldlega einn af bestu bardagamönnum heims, pund fyrir pund, og er ótrúlega tæknilegur og snjall í búrinu. Aftur á móti er hann ekki sérstaklega vinsæll bardagamaður. Í tvígang hefur hluti áhorfenda yfirgefið höllina á meðan bardaga hans stendur, þrátt fyrir að hann sé í aðalbardaga kvöldsins.

Næstu áskorendur

John Dodson. Þessi hressi bardagamaður fær að öllum líkindum næsta titilbardaga. Dodson og Johnson mættust í ársbyrjun 2013 í frábærum bardaga. Johnson sigraði en Dodson tókst að kýla meistarann niður. Dodson leit þó ekki sérlega vel út í sínum síðasta bardaga en hann er að koma til baka eftir krossbandsslit. Þessi bardagi á líklega eftir að eiga sér stað í haust. UFC gæti gefið Jussier Formiga titilbardaga (#3 á styrkleikalistanum) en það er ólíklegt.

Hversu líklegt er að við fáum nýjan meistara?

Mjög ólíklegt. Johnson virðist einfaldlega vera skrefi (eða skrefum?) á undan öllum öðrum í þyngdarflokknum. Yfirburðarmeistari.

Henry Cejudo. Mynd: USA TODAY

Mikilvægir bardagar framundan

Eiginlega eini mikilvægi bardaginn framundan í fluguvigtinni er á milli Henry Cejudo (#8) og Chico Camus (#13). Miklar vonir eru bundnar við Cejudo en hann er gullverðlaunahafi frá Ólympíuleikunum í frjálsri glímu og gæti gert meistaranum erfitt fyrir. Cejudo mætir Camus á UFC 188 eftir rúma viku en með sigri verður hann kominn ansi nálægt titilbardaga.

Hverjir eru efnilegir?

Það skemmtilega við fluguvigtina er að það er þó nokkuð af efnilegum strákum þarna á ferð. Kyoji Horiguchi (24 ára), Dustin Ortiz (26 ára), Sergio Pettis (21 árs), Justin Scoggins (23 ára) og Ray Borg (21 árs) eru allir á fínum aldri og eiga nóg inni. Horiguchi hefur þegar tapað fyrir meistaranum en hann gæti bætt sig helling á næstu árum og fengið annað tækifæri. Ortiz, Scoggins og Borg eru allir með töp í fluguvigtinni á bakinu en virðast bæta sig í hvert sinn sem þeir stíga í búrið. Það verður gaman að sjá hvar þeir standa eftir tvö ár. Sergio Pettis var rotaður í sínum fyrsta bardaga í fluguvigtinni en í þeim bardaga var hann að ganga frá andstæðingi sínum. Hann hefur nægt rými til að bæta sig til að ná sömu hæðum og bróðir sinn, Anthony Pettis. Svo gæti Íslandsvinurinn skemmtilegi, Paddy Holohan (27 ára), blandað sér í titilbaráttuna einn daginn.

Einhver hættulegur utan UFC?

UFC hefur gert vel í að safna saman bestu fluguvigtarmönnum heims. Það er í raun enginn utan UFC sem geæti skotist strax á topp fimm í fluguvigtinni.

Goðsagnir í þyngdarflokknum

Þar sem þyngdarflokkurinn er svo nýr af nálinni erum við í raun að horfa á lifandi goðsagnir á borð við Demetrious Johnson, Joseph Benavidez og Ian McCall. Yasuhiro Urushitani, Mamoru Yamaguchi og Shinichi Kojima þóttu lengi vel meðal þeirra bestu í fluguvigtinni áður en 125 punda flokkurinn kom til skjalanna í UFC.

Í næstu viku munum við taka fyrir bantamvigtina, 135 punda flokk.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular